Helgi Héðinsson er gestur Guðna: Skynsamlegt að nýta landið okkar að hluta til í þágu loftslagsmála

top augl

„Þetta sveitarfélag sem verður formlega til 29. maí verður stærsta sveitarfélag á Íslandi; þekur rétt um 12.000 ferkílómetra eða um 12% Íslands,“ segir Helgi Héðinsson í viðtali við Guðna Ágústsson.

Helgi er sveitarstjóri Skútustaðahrepps, formaður undirbúningsstjórnar um sameiningu sveitarfélaganna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar og varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. „Þetta eru sveitarfélög sem hafa starfað náið saman og hafa átt í farsælu og góðu samstarfi. Við ákváðum að fara þessa vegferð en ekki að við þyrftum þess. Bæði sveitarfélögin eru stöndug en okkar framtíðarsýn er að til að sveitarfélög standi undir þeim kröfum sem fólk gerir til starfsemi sveitarfélaga til dæmis á sviði félagsþjónustu, skólamála, og skipulagsmála þá verða einingarnar að verða sterkari.“

 

Viðskiptafræðin

Helgi er Þingeyingur. Mývetningur. Ólst upp á Geiteyjarströnd við Mývatn þar sem hann býr í dag. Starfar þar sem ferðaþjónustubóndi og veiðimaður í Mývatni og er með sauðfjárbúskap samhliða því.

Hún er alltaf eins og ankerið mitt í tilverunni þegar vindurinn er harður.

Hann var um 10 ára gamall þegar hann flutti frá Mývatni til Selfoss en hann svo kom aftur á jörðina fyrir norðan þar sem ræturnar eru. Hann kláraði stúdentinn frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og fór svo í Háskóla Íslands. Keypti sér á þessum árum gröfu og starfaði meðal annars við lagningu ljósleiðara og fleira í samstarfi við tengdafjölskyldu sína en hann hafði á þessum tíma kynnst unnustu sinni, Rannveigu Ólafsdóttur. Hann segir hana vera af miklum kjúklingabændum; en þau kynntust kornung – 16 og 17 ára – og eiga von á sínu öðru barni í sumar. „Það var mikið lán að kynnast þessari konu en hún er alltaf eins og ankerið mitt í tilverunni þegar vindurinn er harður,“ segir Helgi um Rannveigu sem er með meistarapróf í lögfræði og viðskiptafræði.

Helgi valdi að stúdera viðskiptafræði. „Það var aðallega vegna þess að ég var ekki viss um hvað ég vildi verða og valdi þess vegna eitthvað sem myndi gagnast mér hvert sem leiðin myndi liggja síðar meir. En það sem var áhugavert var að þetta var haustið 2008 og það gekk nú eitt og annað á það ár og árin á eftir.“

Ég fékk tækifæri til að efla mig enn frekar með því að kenna við skólann.

Hann kláraði viðskiptafræðinámið og fór svo í framhaldsnám; fór í meistaranám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum sem hann kláraði og síðar kláraði hann einnig meistarapróf í almennri viðskiptafræði. „Ég fékk tækifæri til að efla mig enn frekar með því að kenna við skólann en alltaf fór ég norður á sumrin; hélt í mínar rætur og veiðiskapinn og ferðaþjónustuna og sinnti rekstrinum allt árið þannig að þetta var ofboðslega gefandi vegferð að fá tækifæri til að reka okkar eigið fyrirtæki.“

 

Efla svæðið og styrkja stoðirnar

Helgi segist hafa staðið á sérkennilegum tímamótum árið 2014. „Þá voru ákveðin tímamót í búrekstrinum og við þurftum að fara að ákveða hvernig við ætluðum að haga okkar málum. Hvort við ætluðum að leggja meiri þunga á að byggja upp ferðaþjónustuna á Geiteyjarströnd eða hvaða leiðir við höfðum. Þarna erum við með gersemi í höndunum sem er þessi jörð, þessi staðsetning, þessi náttúra og það sem við höfum upp á að bjóða en að sama skapi gerist ekkert af sjálfu sér. Systkini mín voru ekki fyrir norðan. Pabbi hefur ekki yngst í seinni tíð en ég var farinn að skynja að hann var farinn að þreytast á þessum tíma og við tókum þá ákvörðun að flytja norður 2014 og þar byrjuðu tilviljanirnar að vinda upp á sig eða ekki tilviljanir; það fer eftir því hvernig á það er litið. Þá áttaði ég mig á því að mig langaði til að gera breytingu á samfélaginu okkar. Mig langaði til að koma á jákvæðni, fá fleira ungt fólk til að koma heim, útskýra fyrir fólki kostina sem felast í því að vera úti á landi og til þess þyrfti uppbyggingu, til þess þyrfti fleira ungt fólk og meiri kraft í samfélagið. Við fórum strax í að setja saman framboð til sveitarstjórnar vorið 2014. Og allar götur síðan er ég búinn að vera í þeirri vegferð að vinna fyrir samfélagið mitt og leita leiða til þess að efla svæðið og styrkja stoðirnar bæði félagslega og í öllu sem að því lítur.“

Helgi segist hafa farið hægt í þetta. Byrjaði sem fyrsti varamaður og síðan fulltrúi frá 2016 og 2018. „Það var einróma niðurstaða samstarfsfólks míns að ég hefði alla burði til að leiða þetta samfélag og fékk mjög mikinn stuðning bæði innan úr mínum hópi og svo afgerandi sigur í kosningunum 2018. Það er búin að vera mjög lærdómsrík og skemmtileg vegferð allar götur síðan.“

Mín kynslóð, fólk fætt upp úr 1980 og fram yfir 1990, kom mikið heim.

Helgi segir að á þessum árum hafi um 370 manns búið í Skútustaðahreppi eins og svæðið hét þangað til það sameinast Þingeyjarsveit núna um helgina. „Það voru um 370 manns þarna 2014 og við erum rétt um 500 núna. Við byggjum mikið á ferðaþjónustunni og síðastliðin tvö ár hafa verið strembin út af Covid en samfélagið hefur vaxið og það hefur dafnað og mín kynslóð, fólk fætt upp úr 1980 og fram yfir 1990, kom mikið heim.“

Ef það ferðamannaiðnaðurinn sem veldur því?

„Þetta skiptist í þrennt og þetta styður hvert annað. Þetta er auðvitað landbúnaðurinn sem allar sveitir landsins byggja á í grunninn en ferðaþjónustan kemur og þetta styrkir hvert annað því við bjóðum ferðamönnunum upp á okkar vörur og okkar menningu og okkar sögu. Svo auðvitað í bland við orkuvinnsluna. Það er mikil orka á svæðinu og virkjanir meðal annars í Kröflu og það er þetta sem helst í hendur. Svo er uppbygging í tengslum við ferðaþjónustuna kannski hvað mest áberandi. En það er fleira sem telst þarna til og á síðustu árum og með nýjum tækifærum sem felast í óstaðbundnum störfum þá hefur fólk verið að koma vegna þess að það kýs að búa í Mývatnssveit og starfa þar. Það er hægt að vinna í Reykjavík, Seattle eða Hong Kong; núna skiptir þetta í stórum stíl engu máli sér í lagi þekkingarstarfsemi og í starfsemi á vettvangi hins opinbera og í þessu felast mikil tækifæri fyrir sveitir landsins; sér í lagi nú þegar kemur ljósleiðaratenging á flesta bæi.“

 

Meiri áhersla á sjálfbærni

Hver er stærsta sýnin er Helgi horfir inn í framtíðina? Hvernig sér hann landið byggjast og á hverju eigum við að lifa?

„Ég sé fyrir mér að okkar stærsta áskorun sé þessi lýðfræðiþróun sem birtist okkur í því að 86% landsmanna búa núna á milli Hvítánna. Sveitir landsins eiga undir högg að sækja og þetta er þróun sem verður mikil áskorun að snúa til baka en er að einhverju leyti að gerast nú þegar sem er mjög ánægjulegt. Þetta byggir allt á því að það sé sú þjónusta sem fólk þarf sé innan seilingar í sveitunum og það eitt og sér er mikil áskorun í sambandi við skólastarf, í samhengi við samgöngur og í samhengi við menninguna og næringuna sem fólk þarf. Svo þurfum við að hafa tækifæri til verðmætasköpunar á landsbyggðinni. Tækifæri til starfa. Því ef þau eru ekki þá fara börnin í skóla og mennta sig en koma ekki til baka og þá fjarar undan þessu hægt og rólega. Og við þurfum að huga að því hvernig við getum nýtt gæði landsins í takt við áskoranir samtímans. Við búum að stórkostlegri sögu landbúnaðar og eigum að geta byggt á honum áfram; aukið verðmætasköpun.“ Helgi nefnir áburð og orkumál – segir að á því séu lausnir til dæmis með því að nýta betur lífrænan áburð og áburð sem fellur til en flytja minna af honum eða framleiða okkar eigin.

„Eins og hagkerfið okkar er sett upp þá treystum við á innflutning en það sem við þurfum að hugsa núna er meiri áhersla á sjálfbærni; hvernig við getum nýtt okkar eigin auðlindir betur sem er samfélagslega skynsamlegt en það er líka efnahagslega skynsamlegt. Og þetta kemur beint inn á landbúnaðinn og tækifærin í sveitunum. Og í síauknum mæli eru menn að hugsa að kolefnismálum og loftslagsmálum í heiminum. Og okkar mestu tækifæri til þess að taka þátt í því stóra verkefni er að nýta landið okkar að hluta til í þágu loftslagsmálanna, þar sem það er skynsamlegt. Við höfum úr miklu landi að moða.“

Störf án staðsetningar eða óstaðbundin störf gefa fólki færi á að búa þar sem það vill búa.

Helgi segist halda að þessi innviðaruppbygging sem hefur verið stórkostleg á liðnum árum í tengslum við samgöngukerfið, farsímakerfið og ljósleiðarakerfið muni gefa sveitunum talsvert líf. „Störf án staðsetningar eða óstaðbundin störf gefa fólki færi á að búa þar sem það vill búa. Nú er vinnustaðurinn ekki miðpunkturinn. Vinnustaðurinn er bara hvar þú situr með tölvuna.“

 

Mývatn frekar en Austurvöllur

Helgi segir að það sem muni hjálpa landbúnaðinum, sauðfjárbúskapnum og öðru, sé að núna skynji hann miklu meiri virðingu fyrir sjónarmiðum sem áttu undir högg að sækja fyrir bara örfáum árum síðan.

Við þurfum að vera stolt af því sem við erum að gera.

„Við búum að landbúnaði sem er stórkostlegur þar sem við notum lítið af lyfjum, við búum vel að skepnunum okkar, við hugsum vel um það sem við verum að gera og við byggjum þetta á þekkingu og kraftmiklu fólki og gæðum lands sem við getum verið stolt af. Og ég held að ein af áskorunum landbúnaðarins sé að við höldum og pössum upp á þessi sjónarmið. Við hugsum um hvaðan kjötið kemur sem við borðum, úr hvaða korni brauðið var gert, hvaðan grænmetið kemur og hvort þessi blóm séu frá Suður-Ameríku og flogin í gegnum Amsterdam eða hvort þau séu frá Dalsgarði. Það verður almennt vitund um að til þess að styðja við þessa grein þá þurfum við að nýta hana og við þurfum að kynna hana og kynna hana með stolti í gegnum þá fjölmörgu ferðamenn sem koma og hjálpa okkur að halda dampi í þessu öllu saman. Og við þurfum að gæta að því að tala okkur aldrei niður. Við þurfum að vera stolt af því sem við erum að gera. Við þurfum að halda áfram að byggja upp. Við þurfum að rækta meira korn og grænmeti,“ segir Helgi og nefnir til að mynda líka við við þurfum að nýta umframorkuna betur. „Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að vilja borða avókadó sem er framleitt í Suður-Ameríku og búið að trilla yfir hálfan hnöttinn? Hvers vegna erum við ekki að framleiða þetta sjálf með orkunni sem við dælum í stórum stíl upp í loftið eða niður í jörðina vegna þess að við vitum ekki hvað við eigum að gera við allt heita vatnið sem fellur til í raforkuframleiðslunni?“

Varaþingmaðurinn er náttúrubarn

„Þegar allt er að fara af stað þá hef ég nú stundum leitt hugann að því þegar maður er búinn að hlusta á sömu ræðuna í 15. sinn að ég er náttúrubarn inn að beini. Mér finnst áhugavert að koma inn í störf þingsins og vona að ég fái tækifæri til að gera sem mest af því en að sama skapi getur enginn neitt einn hvorki hér eða heima fyrir og ég hef engar áhyggjur vegna þess að heima fyrir er fólk sem hugsar um að þar gangi nú allt vel. En ég játa að suma daga hefur mig meira langað til þess að vera staddur á Mývatni en við Austurvöll.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni