Indriði býr einn á Skjaldfönn: Ég var hálfgerður hippi, safnaði hári og átti vinkonur

top augl

Gestur Mannlífsins að þessu sinni er Indriði Aðalsteinsson bóndi á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp. Búskapur hefur verið á Skjaldfönn í tæp 200 ár í beinan karllegg frá Ólafi Jónssyni frá Hraundal, sem hóf þar búskap árið 1826. Í dag býr Indriði einn á Skjaldfönn og unir hag sínum vel.

Indriði lýsir búskapnum, ófyrirsjáanlegu veðurfari og snjóflóðum. Hann hafi meðal annars átt fótum fjör að launa í ágætu veðri þegar vindhrafnar söfnuðust við jökulinn. Þegar hann var tólf ára kom faðir hans inn og kallaði upp að það hefði fallið snjóflóð á hrútahúsið. Hann fór þá út og hrasaði fljótlega um eitthvað í snjónum. Það reyndist dauður hrútur með lappirnar upp í loft. Skömmu síðar heyrði hann skot dynja sem honum þótti undarlegt því enginn annar var á svæðinu og hann hafði enga skothvelli heyrt þann daginn. Er hann leit svo upp að fjallsbrúninni sá hann svarta sprungu þar sem íshellan þar hafði losnað og stefndi að honum. Íshellan bar hann með sér niður í kjarrið en þar stóð hann fastur.

Indriði á Skjaldfönn.
Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn í eldhúsinu heima. Mynd: Reynir Traustason

Hann vildi ekki vera skrifaður fyrir búskapnum og telur sig hafa verið hálfgerðan hippa; safnaði hári, fór á dansleiki og átti vinkonur. Hann tók svo við búinu um 1980. Í dag er hann 82 ára og hefur nokkrar áhyggjur af að búskapur gæti lagst af.

Indriði er þekktur hagyrðingur og færir okkur þessa:

Bjarga verður bændastétt,

býsna gott það væri.

Svo landsmenn geti á grillið sett,

gæðahrygg og læri.

 

Árétta það enn á ný,

og ei má gleyma hinu,

Að landið fari ekki í

órækt hrís og sinu,

 

Þegar ekki ullin er góð,

er okkar skjól og fengur.

Varla mun þá þessi þjóð,

þrauka mikið lengur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni