Í nýjasta þætti af Komin á kortið lá leið okkar yfir til Norðfjarðar – á Neskaupsstað. Það er ekki beinlínis hægt að segja að ferðin hafi gengið áfallalaust fyrir sig, því við Reykjavíkurpakkið gerðum þau reginmistök að treysta á GPS tækið í Dusternum. Það hefðum við ekki átt að gera, því við enduðum lengst uppi í Oddskarði.
Fyrir þau sem það ekki vita, þá eru nokkur ár síðan Norðfjarðargöng voru tekin í notkun og hætt að ferðast um Oddskarð. Það fóru jú vissulega að renna á okkur tvær grímur eftir því sem við komum ofar í fjallið. Að lokum hvarf vegurinn og eftir leiðsögn kollega okkar snerum við Dusternum við og komumst óhult á áfangastað.
Á Neskaupsstað hittum við áhugavert og skemmtilegt fólk, og fræddumst um þau sem reka Hótel Hildebrand og Beituskúrinn. Við heimsóttum síðan Hommahöllina, en það er algjör upplifun að koma þangað inn.