Sigurgeir Sindri, fyrrv. formaður Bændasamtakanna: „Nú getur þú unnið eiginlega alls staðar.“

top augl

„Nú um stundir er umræða í tengslum við bæði „eftir Covid“ og þetta stríð í Úkraínu og þá rennur mikilvægi matvælaframleiðslu mjög upp fyrir fóki og það er á svona tímum sem menn fara virkilega að hugsa hvernig við eigum að haga okkur í matvælaframleiðslu,“ segir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna og svæðisstjóri Arion banka á Vesturlandi, í viðtali við Guðna Ágústsson þegar hann er spurður hvernig hann sjái sveitirnar fyrir sér. „Þannig að ég sé þetta svolítið þannig fyrir mér núna að við séum kannski á svipuðum stað og var eftir hrun þegar menn sáu það að það var mikilvægt að vera sjálfbær um sína matvælaframleiðslu. Að sjálfsögðu eigum við fiskinn í sjónum en við sáum það þegar svona kemur upp að það er eins og allir framleiðslu- og flutningaferlar hafi einhvern veginn raskast mjög mikið við Covid. Það er erfitt að fá vörur, það er erfitt að fá ýmislegt. Allir ferlar hafa riðlast með einum eða öðrum hætti. Þannig að eins og oft áður er landbúnaðurinn gríðarlega mikilvægur og mér finnst núna að menn séu að tala á þannig nótum að við þyrftum að líta okkur aðeins nær hvað það varðar.“

Covid. „Það hefur einhvern veginn opnað sýn okkar fyrir því að það er hægt að gera ýmislegt án þess að fara að keyra. Okkur hefur gengið vel í Covidinu að aðlaga okkur að því að við getum unnið mikið heima og störf geti verið án staðsetningar. Þetta hefur opnað augu stjórnsýslunnar og fyrirtækjanna almennt og vill gefa fólki sem vill setjast að í sveit og búa úti á landsbyggðinni tækifæri til þess að gera það þó það sé í krefjandi og viðamiklum störfum.“

Það er þessi hobbíbúskapur; að vera kannski með nokkur hross og hænsni og starfa þess vegna fyrir fyrirtæki úti í heimi í gegnum netið. Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að mæta af fullum þunga?

Nú getur þú unnið eiginlega alls staðar.

„Jú, það sem hefur gerst með ljósleiðaratengingu um allt land hefur gerbreytt þessari stöðu. Nú getur þú unnið eiginlega alls staðar.“

Svo horfa menn á hestinn og það hefur gengið mjög vel að gera hann að búgrein.

„Það er alveg frábær staða í því núna og gengur mjög vel í útflutningi þeirra sem eru að flytja út hross.

Það eru margir glæsilegir búgarðar í dag og heilmikið um að vera í útflutningi á íslenska reiðhestinum.“

Lambakjötið hefur verið sú afurð af kjöti sem hefur gengið helst að selja úti í heimi.

Við höfum ekki sinnt þessum mörkuðum og auðvitað er verð rokkandi.

„Já, mér finnst það synd. Mér finnst hafa tapast fókus í því. Við höfum ekki sinnt þessum mörkuðum og auðvitað er verð rokkandi.

Við þurfum að hafa markaði erlendis; miðað við mismunandi hlutfall af bitum og annað – við þurfum að flytja eitthvað út. Þannig að erlendir markaðir eru mikilvægir líka.“

Hafa menn ekki verið of daufir í nautakjötsframleiðslu?

„Það er það sem við gerðum í þessum búvörusamningi,“ segir Sigurgeir Sindri og á við þann tíma þegar hann gegndi starfi formanns Bændasamtakanna. „Þar lögðum við sérstaka áherslu á þetta; með innflutningi á þessu erfðaefni og það er að rísa núna stofn sem getur keppt í þessu og framleitt úrvals nautakjöt. Það tekur að sjálfsögðu tíma að byggja það upp en það er mjög jákvætt að sjá hvað er að gerast í því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni