Miðvikudagur 17. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Guðrún hefur heimsótt 150 lönd heims: „Vil leggja fátæku fólki lið víða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á alþjóðaþingi Lions í Las Vegas árið 2018 var Guðrún Björt Yngvadóttir úr Lionsklúbbnum Eik í Garðabæ kosin alþjóðforseti Lions, fyrst Íslendinga og fyrst kvenna í 101 árs sögu Lions. Hún er lífendafræðingur að mennt og vann um tíma við rannsóknir og kennslu og gegndi hún síðan um árabil stöðu aðstoðarforstöðumanns Endurmenntunar Háskóla Íslands.

Eiginmaður Guðrúnar, Jón Bjarni Þorsteinsson, gekk í Lions árið 1982. „Lions var karlaklúbbur á þeim tíma og var konum ekki leyft að vera félagar en það breyttist árið 1987. Ég þekkti Lions því í byrjun í gegnum manninn minn, vini hans og klúbbfélaga og mér fannst skipta svo miklu máli hvað var lögð mikil áhersla á vináttuna og virðingu fyrir hvert öðru. Konur og börn félaga tóku þátt meðal annars með því að planta trjám og vinna að verkefnum í samfélaginu en það sem einkennir hreyfingu eins og Lions er að það er settur ákveðinn standard sem skapar ákveðin gæði í félagsstarfi og ákveðin tækifæri til þess að horfa á samfélagið með öðrum hætti og þroska hæfileika sína svo sem leiðtogahæfileika.“

Guðrún gerðist svo félagi í Eik árið 1992.

„Ég gekk í Lions upphaflega út af því að ég vissi að þetta var skemmtilegur klúbbur, skemmtileg vinátta og það er alltaf gaman að vera í góðum hópi. Ég vissi auk þess að Lions væri að vinna mjög góða hluti bæði hér á landi og erlendis. Það sem heillaði mig mest á þessum tíma var að alþjóðahreyfing Lions var í alþjóðlegu átaki við að safna peningum í sjónverndarátak og vinna með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni við að útrýma ákveðnum augnsjúkdómum á blindum víða um heim. Mér fannst það vera svo magnað. Þannig að ástæðan fyrir því að ég gekk í Lions var líka sú að leggja fátæku fólki lið víða um heim. .

Þegar ég kynntist Lions áttaði ég mig á því að það fælust ný tækifæri í að vera í svona alþjóðlegri hreyfingu.“

 

Nýtt og ferskt

- Auglýsing -

Guðrún gegndi svo í gegnum árin flestum embættum hreyfingarinnar hér á landi. Hún var meðal annars umdæmisstjóri og fjölumdæmisstjóri. Áherslur hennar hafa tengst börnum og ungu fólki, félagamálum, leiðtogamálum, heilsu og vellíðan og þar á meðal sjónvernd og sykursýki, umhverfismálum og alþjóðasjóði Lionshreyfingarinnar (LCIF).

 

Guðrún Björt Yngvadóttir

- Auglýsing -

Það var oft mikið að gera. Hún var í fullri vinnu og sinnti verkefnum sínum hjá Lions. Hún fór að minnka við sig vinnu hjá Endurmenntun HÍ, tók sér launalaust leyfi og hætti svo þar störfum árið 2010 en hún tekur fram að yfirmenn sínir hafi alltaf tekið vel í það þegar hún fór jafnvel nokkrum sinnum á ári til útlanda vegna verkefna hennar þar fyrir Lions.

Og hún vildi meira innan alþjóðahreyfingarinnar. Hún vildi verða alþjóðaforseti Lions.

„Til þess að vera gjaldgengur frambjóðandi til alþjóðaforseta þá þarf maður að hafa gegnt mörgum stjórnunarembættum, bæði innanlands sem í sinni heimsálfu, og hafa víðtæka þekkingu og reynslu svo sem varðandi alþjóðlega hjálparsjóðinn og vera í leiðtogaþjálfun við að fræða aðra. Þetta var ég búin að vera að gera síðustu 15 árin.

Kristín Björt Yngvadóttir
Kristín Björt Yngvadóttir

Ég byrjaði síðan í kosningabaráttu árið 2015. Frambjóðendur voru 16 þegar ég tók þessa ákvörðun og þurfti ég að fara víða um heim til að kynna mig og vera mjög virk. Og það var fullt starf að vera frambjóðandi. Þegar ég ákvað að gefa kost á mér þá gerði ég mér ekki grein fyrir því hvað þetta væri hörð kosningabarátta og ég þurfti strax að sanna mig. Sanna að ég gæti lagt eitthvað af mörkum til að styrkja hreyfinguna. Og það var rosalegur skóli. Það skipti síðan miklu máli fyrir sjálfstraustið að sigra 16 aðra frambjóðendur; það styrkti mig í að þora að gera eitthvað mikilvægt, leggja til ákveðnar breytingar og sýna ákveðið frumkvæði á ákveðnum sviðum. Þegar ég var í kosningabaráttunni hafði aldrei kona gegnt starfi alþjóðaforseta í 100 ára sögu Lions og mjög fáir Evrópubúar. Þannig að ég var mjög nýtt og ferskt afl.“

Guðrún var kosin 2. varaforseti árið 2016 og segir að þá hafi hún fundið að það væri hlustað á það sem hún sagði. „Það voru miklar væntingar og ég var oft spurð hvernig ég ætlaði að breyta hinu og þessu. Og ég þurfti að hafa svörin á hreinu og þróa stefnu mína mjög fljótt. Ég ferðaðist mikið, varð öruggari þegar ég kom fram og reyndari.“

Ákveðið kerfi er í Lions og árið 2017 varð Guðrún 1. varaforseti og svo var hún eins og þegar hefur komið fram kosin árið 2018 alþjóðaforseti Lions, fyrst Íslendinga og fyrst kvenna, í 100 ár sögu Lions.

„Ég nýtti mér það alveg í botn að koma með ferskar áherslur inn í þetta alþjóðlega samfélag. Stór hluti Lions-félaga er í Asíu og Japanir eru þar mjög sterkir og margir þar hugsa allt öðruvísi en við Evrópubúar.“

 

Kristín Björt Yngvadóttir

 

Um 150 lönd

Guðrún hefur undanfarin ár hitt ýmsa málsmetandi aðila svo sem embættismenn, þjóðhöfðingja og annað frægt fólk sem var að vinna að góðum málefnum. Lions er í samstarfi meðal annars við Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Special Olympics en Kenndy-fjölskyldan stofnaði Special Olympics árið 1968. Hún nefnir einnig fyrirtæki og stofnanir sem vinna að góðgerðamálum.

Þessi ár voru viðburðarrík.

„Ég hef heimsótt um 150 lönd og hef tekið þátt í Lions-verkefnum út um allan heim og séð hvað þörfin er ólík.

Maður sinnir til dæmis allt öðruvísi verkefnum í Afríku og Evrópu því þarfirnar eru svo ólíkar. Þó það sé til fátækt í Evrópu þá er hún ekki sambærileg við fátækt til dæmis í Afríku og Indlandi. Þannig að verkefnin eru ólík. Allir sem eru í Lions í Afríku eru vellauðugir og þeir gefa jafnvel heil sjúkrahús. Það er alveg ótrúlegt hvað menn eru rausnarlegir. Það sem einkennir Lions-félaga er að þeir vilja leggja samfélaginu lið; þeir vilja ekki bara nota auð sinn í að kaupa nýjar snekkjur eða þotur.“

Guðrún er spurð hvað standi upp úr þessi ár.

„Mörg verkefni í Afríku koma upp í hugann. Ég get nefnt skóla í Sambíu sem Lionsklúbbar þar í landi stofnuðu fyrir 25 árum og það finnst mér vera magnað. Skólinn eru fyrir blind og sjónskert börn af því að á þeim tíma var það að fæðast fatlaður að einhverju leyti oft dauðadómur; fjölskyldur áttu mörg börn og ef einhver voru fötluð þá hurfu þau sum í næsta stöðuvatn. Foreldrarnir urðu að styðja þau sem voru lífvænleg því þau gátu ekki öll komist á legg. Fátæktin var svo mikil. Það voru í upphafi nokkrir tugi barna í skólanum, sem er heimavistarskóli, en nú eru þar nokkur hundruð börn og það er verið að stofna nýja deild sem var nefnd í höfuðið á mér. Þannig að það er skóli með nafni mínu í Sambíu. Þetta var svo mikil upplifun. Þessi börn komu mjög vel fyrir og sungu fyrir mig og tóku þátt í ýmsum viðburðum.

Það er girðing í kringum skólann og öryggisverðir við hliðin en engu að síður komust nágrannar inn í skólann og stálu reglulega meðal annars rúmdýnum. Ég spurði hvað Lionsklúbburinn gerði við því og var sagt að það væri ekkert gert heldur væru nýjar dýnur keyptar. Ég spurði hvers vegna stæði á því þar sem þá myndu nágrannar halda áfram að stela. Þá var sagt að með því að gefa þeim kost á að ná í það sem þeir þyrftu þá væri líka verið að styðja við fátækar fjölskyldur. Þetta var alveg nýtt fyrir mér.“

Guðrún nefnir líka heimsókn til Benin þar sem er þorp sem byggt er á staurum í stöðuvatni.

„Lions-klúbbarnir höfðu reynt að bjóða íbúunum upp á bólusetningar, augnmælingar og aðra þjónustu en íbúarnir þáðu hana aldrei. Þá var ákveðið að byggja þjónustumiðstöð úti í vatninu og ég fór ásamt öðrum að opna hana.

Íbúar komu á litlum bátum sem skiptu hundruðum og voru íbúar klæddir þjóðbúningum og sumir héldu á íslenska fánanum af því að ég var aðalgesturinn.

Þetta var ævintýraleg upplifun. Ég gerði ekkert nema að alþjóðahjálparsjóður Lions veitti smástyrk til verkefnisins og íbúarnir voru svo þakklátir.“

Kristín Björt Yngvadóttir

 

Ákveðið þakklæti

Á meðan Guðrún gegndi embætti alþjóðaforesta Lions var hún oft heima í kannski tvo til þrjá daga í mánuði.

„Þetta var mjög þreytandi þangað til Covid-heimsfaraldurinn skall á en síðan hef ég unnið í gegnum tölvu. Það er verið að halda rafræna viðburði í hverju landi og þar er ég alltaf með eitthvað innlegg og hef ég á síðastliðnum 18 mánuðum útbúið um 300 myndbönd þar sem ég tala til félaganna, þakka og hvet til dáða,“ segir Guðrún sem í dag er í stjórn alþjóðahjálparsjóðs Lions og er þar í ýmsum nefndum.

„Það er heilmikið starf fram undan og það fylgir því mikil ábyrgð að vera í þessu en þegar maður er búinn að vera alþjóðaforseti þá þarf maður að skila til baka reynslunni með því að sinna ákveðnum störfum. Núna er ég til dæmis æðsti leiðtogi Lions í Evrópu þangað til næsti Evrópuforseti verður valinn, eftir kannski 10 ár.“

Guðrún segir að það sem drífi sig áfram sé ákveðið þakklæti sem hún finni fyrir og að hún finnur að hún hafi náð árangri. Skilað einhverju; séð að markmið hafi náðst.

„Þetta er eins og með vinnu og fjölskylduna; þegar maður nær markmiðum þá verður maður svo glaður og heldur áfram. Það er tvennt sem drífur mig áfram. Það er annars vegar persónuleg markmið og það að finna að maður sé að ná árangri, skila einhverju og gera eitthvað gagn. Svo er það hins vegar ákveðin þörf fyrir að bæta samfélagið; þetta er mín leið til að vinna fyrir samfélagið; ekki bara í mínu bæjarfélagi heldur á heimsvísu.

Ég vil leggja samfélaginu lið. Samfélag mitt er allur heimurinn.“

Kristín Björt Yngvadóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -