Mánudagur 22. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Stuðmaðurinn Jakob Frímann í stjórnmálin: „Hér á enginn að búa við bág kjör“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jakob Frímann Magnússon, tónlistar- og athafnamaður, stígur að nýju inn á vettvang stjórnmálanna en hann mun skipa efsta sætið á lista Flokks flokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Hann var á sínum tíma varaþingmaður Samfylkingarinnar og gegndi síðan starfi miðborgarstjóra í Reykjavík um árabil. Fyrir hans tilstilli hefur í samstarfi við stjórnvöld verið komið á fjölda mála sem bætt hafa til muna starfsumhverfi tónlistarlífsins, hinna skapandi greina og ferðaþjónustunnar.

Í tilkynningu á heimasíðu Flokks flokksins segir: „Ég hef hrifist af stefnumálum Flokks fólksins þar sem áhersla er lögð á að útrýma fátækt og óréttlæti á Íslandi. Það er sjálfsögð krafa að allir fái lifað mannsæmandi lífi í einu af auðugustu samfélögum heims. Hér á enginn að búa við bág kjör að afloknu ævistarfi, hlúa þarf betur að þeim sem hafa lent í áföllum eða búa við skerta orku og allir eiga að njóta jafnra tækifæra til menntunar og tómstundastarfs. Alvöru velferðarsamfélag byggist á heilbrigðu samhengi milli verðmætasköpunar og mannúðar.“

Í viðtal við Mannlíf segir Jakob Frímann að tilurð þessa sé að formaður flokksins hringdi í sig og bað sig um að hitta sig á skrifstofu sinni þar sem flokksmenn hafi deilt með sér áhyggjum sínum og áherslum. „Ég viðurkenni fúslega að ég hafði ekki kynnt mér þau kjör nægilega sem tugþúsundum Íslendinga eru sköpuð hér eftir ævistarf á akri atvinnulífsins. Skoðum hlut þeirra sem hafa samkvæmt lagaboði verið skyldaðir til að leggja hluta tekna sinna í sérstakan söfnunarsjóð lífeyrisréttinda ævina á enda, falla síðan frá og þá stendur ekkjan eftir með börnin og fá ekki að erfa söfnunarsjóð fyrirvinnunnar því ríkið hirðir allt sem lagt var fyrir og fær ekki neitt né börnin. Þetta stangast að mínu viti á við eignarréttarákvði stjórnarskrárinnar þó svo þetta sé kallað einhverjum fallegum nöfnum. Hér er meðal annars um að ræða einhvers konar neyðarlög sem sett voru með hraði eftir hrun og hefði átt að vera búið að afnema fyrir löngu. Ekkert bendir til að slíkt sé á dagskrá þrátt fyrir fagurgala sumra svona rétt fyrir kosningar. Þau hjá Flokki flokksins sannfærðu mig um að koma með í þá brýnu vegferð. Ég er sammála þessu góða fólki í öllum helstu lykilmálum. Ég vil beita mér fyrir því að koma hér á friði um meginmálin, eyða hér sem flestum þrætueplum og taka okkur hressilega á meðal annars í heilbrigðismálum, auðlindamálum, atvinnumálum, eldismálum, ferðaþjónustu, þróun og markaðssetningu búvara og uppbyggingu nýrra greina. Það brosa við okkur tækifærin og ein auðugasta þjóð heims stefnir að óbreyttu í að verða enn auðugri. Þeim mun brýnna er að leiðrétta þessa skekkju og veita öllum þegnum þessa lands eðlilega  hlutdeild í öllum þeim gæðum sem okkar hafa verið færð. Þetta er samviskumál og ég skal fúslega viðurkenna að ég gerði mér ekki fyrr en nýverið grein fyrir hversu grafalvarlegt þetta er. Við allt of mörgum blasir við tómur ísskápur og kvíðahnútur í maga, fólkinu er síst skyldi, fólkinu sem skóp hér umgjörðina og innviðina sem við njótum öll í dag.“

Ekkert bendir til að slíkt sé á dagskrá þrátt fyrir fagurgala sumra svona rétt fyrir kosningar. Þau hjá Flokki flokksins sannfærðu mig um að koma með í þá brýnu vegferð.

Jakob Frímann er þekktastur sem einn af Stuðmönnum og kemur enn fram með þeim auk þess að semja, hljóðrita og koma fram undir listamannsnafninu Jack Magnet. Hann var um árabil formaður FTT – Félags tónskálda og textahöfunda, STEFS og SAMTÓNS og var auk þess stjórnarformaður Iceland Airwaves og ÚTÓNS – Útflutningsskirfstofu íslenskra tónlistar. Þá stofnaði hann umhverfissamtökin Græna herinn.

- Auglýsing -

„Ég hef sem betur fer getað orðið að einhverju gagni við að fínstilla og betrumbæta starfsumhverfi ýmissa sem þarna hafa verið að starfa og ég hef í rauninni sterka tilfinningu fyrir því að ég geti og muni gagnast í því að leiðrétta það sem betur má fara í samfélagsmálunum nái ég kjöri. Og það vil ég leitast við að gera – hér eftir sem hingað til – vonandi með kurteisina að leiðarljósi, hafandi í huga orð séra Friðriks Friðrikssonar: „Lát aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.“ Þó Séra Friðrik hafi að líkindum haft iðgræna knattspyrnuvelli í huga þá mætti yfirfæra þessa lífsspeki hans á vettvang stjórnmála, atvinnulífs og mannlífs almennt.“

Jakob Frímann hefur undanfarin ár meðal annars unnið að undirbúningi vistþorps  á Suðausturlandi ásamt Áslaugu Magnúsdóttur. Hótelið verður hluti af Six Sense-hótelkeðjunni en hótelkeðjan er þekkt fyrir gæðahótel, hollmeti og heilsulindir,og mun bera nafnið Six Senses Össurá Valley.

Jakob Frímann hrífst af stefnumálum Flokks flokksins svo sem að útrýma fátækt. Hann er spurður út í þær áherslur varðandi væntanlegt lúxushótel þar sem efnameira fólk mun dvelja.

- Auglýsing -

„Þetta er jákvæð atvinnuuppbygging og ég hef í raun verið eins konar starfsmaður á plani þarna auk þess að eiga smáprósentu í verkefninu. Þetta er atvinnuuppbyggingarmál sem á eftir að koma öllum til góða og skilja eftir betra og auðugra samfélag í allra þágu. Þannig að þó það sé verið að stíla inn á tiltekinn hóp þá verður þetta auðvitað öllum opið. Þarna verður heilsurækt, meðferðarmiðstöð, veitingahús og gróðurhús þar sem verður ræktað heilsueflandi hollmeti,“ segir Jakob Frímann en Six Sense-keðjan leggur meðal annars áherslu á sjálfbærni. „Þannig að grunnurinn í þessu verður mannbætandi áfangastaður í víðasta samhengi. Hlutverk mitt hefur verið að koma þessu í gegnum svipugöng stofnanakerfisins – 11 stofnanir þurftu að hafa á þessu skoðanir og skikka okkur til þess að teikna allt upp aftur í þrígang. Því er loksins lokið en þetta tók tvö og hálft ár og var erfiður róður á köflum. En þegar upp er staðið held ég að allir megi vel við una. Það er hins vegar að mínu mati mun stærra og mikilvægara verkefni sem ég er að ráðast í núna og í þágu heillar þjóðar.“

Þetta er atvinnuuppbyggingarmál sem á eftir að koma öllum til góða og skilja eftir betra og auðugra samfélag í allra þágu. Þannig að þó það sé verið að stíla inn á tiltekinn hóp þá verður þetta auðvitað öllum opið.

Tónlistin. Svo er það tónlistin.

„Ég stefni að því að halda áfram tónlistarsköpun til hinsta dags. Í því felst ákveðin heilun og slökun sem er mér afar dýrmæt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -