Þriðjudagur 23. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Aldagömul aðferð gegn öldrun húðar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Andlitsnudd má nota til að vinna gegn öldrun húðar.

Það er fátt sem veitir jafnmikla afslöppun og vellíðan og gott nudd. Flestir þekkja það sem leið til að losa um spennu og bólgur í vöðvum líkamans en færri gera sér grein fyrir að það má einnig nýta til að sporna gegn öldrun húðar.

Eftir því sem við eldumst lætur húðin meira og meira á sjá; vefirnir slappast, andlitið missir fyllingu og hrukkur myndast. Við höfum áður fjallað um hvernig sé mögulegt að hægja á þessu ferli með réttri húðumhirðu en einnig  má ná töluverðum árangri með því einu að nudda andlitið reglulega.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður.

Til eru ýmsar aðferðir við andlitsnudd og sumar þeirra hafa tíðkast í margar aldir,  til dæmis er talið að Kleópatra hafi nuddað andlit sitt til að viðhalda fegurð sinni. Á 19. öld notuðu svo geishurnar í Japan svokallað shiatsu-nudd, eða punktanudd. Þá eru fingurgómarnir notaðir til að þrýsta létt á valda punkta á andlitinu sem hjálpar sogæðakerfinu að losa um stíflur og úrgangsefni sem hafa safnast fyrir í húðinni.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður. Eftir eingöngu nokkra daga af endurteknu nuddi er hægt að sjá mikinn mun; vöðvarnir eru slakir svo ásýndin verður afslappaðri og unglegri og húðin glóir vegna aukins blóðflæðis og næringar.

Lykillinn að góðu andlitsnuddi er að nota andlitsolíu en einnig má nota  olíuhreinsi til að koma í veg fyrir að húðin dragist til en það eykur líka upptöku virku efnanna í olíunni því þeim er nuddað svo vel inn í húðina.

Andlitsnudd lífgar ekki aðeins upp húðina heldur hefur það einnig slakandi og endurnærandi áhrif á líkama og sál. Við notum andlit okkar og vöðva þess mun meira dagsdaglega en við gerum okkur grein fyrir. Því er algengt að fólk finni fyrir ýmsum streitutengdum einkennum, til dæmis spennuhöfuðverk eða augnþreytu sem má losa um með nuddinu.

- Auglýsing -

Einfalt punktanudd fyrir andlit

1. Gott er að byrja með léttum en þéttum strokum upp á við og til hliðar, yfir bæði kinnar og enni, til að undirbúa húðina. Síðan eru fingurgómar löngutangar notaðir til að þrýsta á punkta á andlitinu.
2. Þrýst er á milli augabrúna og svo á þrjá punkta upp enni að hársrót. Því næst á miðjar augabrúnir og svo aftur þrjá punkta upp enni að hársrót. Sama aðferð er svo einnig endurtekin við enda augabrúna.
3. Næst er þrýst undir augun, frá nefi og á fjóra punkta að gagnauga. Endurtakið þrisvar sinnum.
4. Síðan er þrýst á sex punkta með fram kinnbeinum þangað sem kjálki og kinnbein mætast. Endurtakið þrisvar sinnum.
5. Undir miðnesi er þrýst á fjóra punkta með fram efri vör að munnvikum. Endurtakið þrisvar sinnum.
6. Þrýst er undir miðja neðri.vör, með báðum fingrum, svo þrjá punta niður miðja höku og endurtekið þrisvar sinnum.
7. Að lokum má klípa létt í húðina með vísifingri og þumalfingri. Á enni er klipið með fram augabrún, um það bil fjögur klíp, og endurtekið þrisvar. Síðan er klipið frá miðri höku og með fram kjálka, um átta klíp að eyra.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -