Þriðjudagur 3. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Andleg áföll hafa áhrif á heilsu fólks

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við læknadeild Háskóla Íslands, hefur lengi unnið að rannsóknum á þeim áhrifum sem áföll hafa á andlega- og líkamlega heilsu fólks. Hún leiðir rannsóknina Áfallasaga kvenna sem hún er nú að vinna úr og er í forsvari fyrir Íslandshluta fjölþjóðlegrar rannsóknar á líðan þjóðar á tímum COVID-19 sem verið er að vinna. Hún segist sjálf hafa verið heppin í lífinu og ekki lent í stórum áföllum, en henni þyki afskaplega áhugavert að skoða afleiðingar áfalla og hversu mikil áhrif tilfinningar okkar hafa á heilsu okkar. 

Eftir stúdentspróf frá MA lá leiðin í HÍ og það var sálfræðin sem varð fyrir valinu hjá Unni. Fljótlega vaknaði áhugi hennar á því að rannsaka hvaða áhrif áföll hefðu á andlega og líkamlega heilsu fólks og lokaverkefni hennar við Háskólann fjallaði um um tengsl áfalla við þróun krabbameina. Í doktorsverkefninu við við Karolinska Institutet í Stokkhólmi tók hún þá rannsókn svo skrefinu lengra og skrifaði um andleg og líkamleg áhrif þess á konur að missa maka sinn úr krabbameini. Hvernig stóð á því að þessi mál heltóku huga hennar?

„Það einhvern veginn æxlaðist þannig,“ segir Unnur hugsi. „Mér fannst þetta samband áfalla og heilsufars svo spennandi, sérstaklega sá möguleiki að áföll gætu haft áhrif á líkamsstarfsemi okkar og þar með gert okkur berskjölduð fyrir hinum ýmsu sjúkdómum. En rannsóknir á þessu sviði voru þá – fyrir aldarfjórðungi síðan – nokkuð skammt á veg komnar, og flestar voru þær það takmarkaðar að erfitt var að draga af þeim óyggjandi ályktanir. Þessar spurningar heilluðu mig gjörsamlega og mig langaði til að leggja mitt að mörkum til að við öðluðumst betri skilning á áhrifum áfalla á heilsufar þeirra sem fyrir þeim verða, ekki bara andlega heilsu heldur sér í lagi líkamlega. Mér finnst líka einnig mjög áhugavert hvernig margir þeir sem lenda í slíkum hremmingum hafa seiglu og þrautseigju til að halda áfram með líf sitt og halda heilsu. Ég vonast til að þessar rannsóknir okkar geti meðal annars kennt okkur hvernig efla megi þessa þætti þannig að stækka megi þann hóp sem á afturkvæmt heilsufarslega í kjölfar áfalla.“

 Þrjátíu prósent af konum beittar ofbeldi 

Ég spyr hana út í hið risastóra verkefni Áfallasögu kvenna, sem er enn í fullum gangi. Hvað getur hún sagt mér um þá rannsókn? „Já, þetta var stór rannsókn, líklega ein stærsta rannsókn á heimsvísu sem er skipulögð í þessum tilgangi,“ segir hún. „Við söfnuðum saman áfallasögum rúmlega þrjátíu þúsund kvenna og erum að vinna fyrstu niðurstöðurnar úr þessum efnivið akkúrat núna. Það tekur að minnsta kosti fimm ár að vinna úr þessu, það er alltaf þannig með svona stórar rannsóknir, en ég held að þessi rannsókn muni leiða ýmislegt áhugavert ljós á næstu árum. Við erum meðal annars að skoða tíðni ýmissa áfalla og ofbeldis gegn konum í íslensku samfélagi, heilsufarslegar afleiðingar þeirra, áhrifum þeirra á tíðni áfallastreitu, svefnraskana, líkamlegra einkenna og ýmissa sjúkdóma. Við erum einnig að skoða seiglu og almennan breytileika í heilsufari kvenna eftir áföll. Við erum afskaplega stolt af þessu verkefni og fyrstu niðurstöðurnar munu birtast í vísindatímaritum nú á haustmisseri.“

„Mér fannst þetta samband áfalla og heilsufars svo spennandi, sérstaklega sá möguleiki að áföll gætu haft áhrif á líkamsstarfsemi okkar og þar með gert okkur berskjölduð fyrir hinum ýmsu sjúkdómum.“

Unnur er faraldsfræðingur, eins og fram hefur komið, er ofbeldi gegn konum faraldur? „Faraldrar eru ýmis konar,“ segir hún. „Oftast þegar við notum það orð er átt við faraldra eins og COVID-19 núna, eitthvað sem kemur óforvarandis og gengur yfir, og í þeim skilningi er ofbeldi gegn konum kannski ekki faraldur. Það er ekkert nýtt við það, hefur staðið yfir í aldir, en útbreiðsla þess er gríðarleg og áhrifin sem það hefur á líf og líðan kvenna mjög víðtæk. Um þriðjungur kvenna verður fyrir ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni, oft þegar þær eru mjög ungar og það markar allt líf þeirra upp frá því, hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu og svo framvegis. Það hefur áhrif á allt samfélagið og ég held að með því að rannsaka þetta eins og við erum að gera getum við náð árangri í að skilja og greina þessi áhrif. Við getum líka lært af þessum konum hvernig hægt er að takast á við ýmis önnur áföll í lífinu og þannig ætti skilningur á afleiðingum ofbeldis að koma okkur öllum til góða. Við erum auðvitað ekki búin að vinna úr þessum niðurstöðum enn þá. En ég held að þær komi til með að leiða ýmislegt gagnlegt í ljós.“

- Auglýsing -

Það er greinilegt að Unnur hefur brennandi áhuga á þessari rannsókn og niðurstöðum hennar og ekki hægt að standast að spyrja hvort áhugi hennar á þessu málefni tengist reynslu hennar sjálfrar. Hefur hún upplifað ofbeldi í eigin lífi? „Það er algengt að fólk haldi að vísindamenn velji sér viðfangsefni sem tengjast þeirra eigin reynslu,“ segir hún og brosir. „Ég hef auðvitað lent í ýmsu, eins og allir, en ég tel mig almennt hafa verið mjög heppna í lífinu. Átti þennan Astrid Lindgren-uppvöxt sem ég talaði um áðan, hef verið lengi í góðu hjónabandi og átt góða vini og að mestu leyti sloppið við meiriháttar áföll. Ég er auðvitað kona í starfi innan geira sem lengi hefur verið karllægur og hef, eins og aðrar konur, stundum fundið fyrir því, en ég hef líka fengið mikinn stuðning frá og átt í góðu samstarfi við karlkynssamstarfsmenn, svo það er engan veginn algilt að það sé erfiðara að vera kona í svona starfi.“

„Mér finnst fólk stundum verða fyrir vonbrigðum þegar það spyr mig við hvað ég sé að vinna núna, setur upp svona svip sem segir; hvað, ertu alltaf að vinna við það sama?“

Nú vinnur Unnur að annarri stórri rannsókn, í samstarfi við vísindamenn frá sex öðrum þjóðum, rannsókn á líðan þjóðar á tímum COVID-19, þessar tvær rannsóknir sem við vorum að tala um munu taka mest af tíma mínum næstu árin, geri ég ráð fyrir. Það er stundum erfitt að fá fólk til að skilja það hvað svona verkefni eru tímafrek og þurfa að ná yfir langan tíma. Mér finnst fólk stundum verða fyrir vonbrigðum þegar það spyr mig við hvað ég sé að vinna núna, setur upp svona svip sem segir; hvað, ertu alltaf að vinna við það sama? En þannig eru vísindin, þau eru alltaf langt ferli og hver svona rannsókn er grunnur að fjölmörgum greinum og niðurstöðum sem tekur mörg ár að vinna. Þannig að, já já, ég er alltaf í því sama,“ bætir hún við og skellihlær. „Ég er afskaplega sátt og hamingjusöm með það sem ég er að vinna og það skiptir meira máli að vinna það vel og gaumgæfilega heldur en að vera alltaf að takast á við eitthvað nýtt.“

Fatnaður Geysir
Förðun: Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur fyrir YSL á Íslandi
Myndir: Hallur Karlsson

- Auglýsing -

Unnur var í forsíðuviðtali við Vikuna fyrir skömmu. Hér er hægt að gerast áskrifandi að Vikunni.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -