Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Ást í meinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Sumarið sem ég varð nítján ára var ég döpur og vonsvikin. Ég hafði staðið mig illa í námi um veturinn og fannst að ég hefði klúðrað framtíðarmöguleikum mínum á að menntast. Mamma mín og pabbi voru líka að skilja og ég skammaðist mín fyrir það. Þegar mér bauðst mér að fara til Austurríkis og það fannst mér vera himnasending og tækifæri til þess að flýja ömurlegt líf mitt hér heima. Ég hafði ekki hugmynd um að innan skamms yrði ég ástfangin og depurð og iðrun vegna þeirrar ástar ætti eftir að fylgja mér nánast ævina enda.

Þetta var á sjöunda áratug síðustu aldar. Ég var ung og lífsglöð og þegar ég kom á skíðahótelið sem ég ætlaði að vinna á um sumarið var fljótt að lifan yfir mér aftur. Ferskt fjallaloftið var hressandi og mikið um skemmtanir á hótelinu sem var alltaf fullt af ferðamönnum alls staðar að úr heiminum. Innan um voru ungir menn sem gjarnan vildu komast í kynni við norrænar stúlkur en við höfum orð á okkur fyrir að vera fallegar og frjálslyndar, mjög eftirsóttar. Ég og vinkona mín sóttum mikið dansleiki en nokkur hótel voru í dalnum þar sem við vorum að vinna.

Ég var ákveðin í að vera ekki ástfangin af útlendingi því ég vissi að ég gæti aldrei yfirgefið Ísland. Á einu ballinu kynntist ég háum, ljóshærðum og fallegum pilti sem bauð mér upp. Þegar við dönsuðum saman fann ég sterklega fyrir því að hann myndi hafa mikil áhrif á mig. Ég var sannfærð um að hann ætti enga kærustu þar sem hann dansaði svo mikið við mig. Pilturinn reyndist heita Gunnar, norskur að ætt og uppruna. Einkasonur efnaðra hjóna. Hann hafði verið á ferðalagi um Evrópu og þetta var síðasta stopp áður en hann ætlaði að halda heim. Hann bauðst til að fylgja mér á hótelið mitt þegar dansleiknum lauk og okkur lá ekkert á. Við enduðum á að spjalla saman hálfa nóttina en allt á milli okkar var bæði saklaust og rómantískt. Áður en við skildum ákváðum við að hittast næstu helgi á sama stað. Þetta var allt svo nýtt og spennandi fyrir mér.

Önnur kona í spilinu

Næstu daga þróaðist samband okkar Gunnars og við urðum stöðugt nánari. Mér fannst sem við tvö værum ein í heiminum, allt annað var svo fjarlægt. Hann frestaði stöðugt heimför og sumarið leið. Við hittumst á laun og ég lét mig dreyma um framtíð mína í Noregi með þessum yndislega pilti sem átti hug minn og hjarta. En þegar líða tók á ágúst fór ég að taka eftir breytingum á Gunnari. Hann var ekki jafnglaðlegur og fyrr og ég fann að eitthvað var að. Ég var samt svo saklaus að ég skildi ekki hvað gekk að honum.

- Auglýsing -

Eitt kvöldið kom hann svo til mín því hann vissi að það var farið að styttast í að vinnusamningi mínum lyki. Hann var alvarlegur og dapur í bragði svo mér brá við. Ég hræddist að hann ætlaði að slíta sambandinu og það hefði ég vel getað skilið því ég skildi ekki hvað þessi glæsilegi piltur, vel menntaður og ríkur, sæi í mér. Við settumst saman inni í lobbíinu á hótelinu sem hann bjó á og ég fann að hann ætlaði að segja mér eitthvað slæmt og það setti að mér mikinn kvíða. ,,Dísa mín,“ sagði hann svo loks. ,,Þú veist að ég elska þig, ég hef aldrei borið svona sterkar tilfinningar til stúlku áður en ég er ekki frjáls til þess. Ég hef er trúlofaður annarri stúlku heima í Noregi, foreldrar okkar eru bernskuvinir og þau eru mjög hlynnt þessum ráðahag. Ég get ekki svikið loforð mitt, aðeins hún getur leyst mig frá því. Mér þykir vænt um hana en ber ekki eins sterkar tilfinningar til hennar og ég geri til þín.“

Mér var mjög brugðið en skildi ekki af hverju Gunnar var svona örvæntingarfullur, því hann ætlaði sér að tala við stúlkuna og mér kom ekki annað til hugar en að hún leysti hann frá loforðinu. Hver gæti hugsað sér mann sem elskar aðra konu? Svo ég huggaði Gunnar og sagði honum að hafa ekki áhyggjur því þetta færi allt á besta veg. Hann bað mig afsökunar á að hafa ekki sagt mér frá þessu fyrr en hann hafði langað svo mikið til að kynnast mér.

Héldu áfram að hittast

- Auglýsing -

Við héldum áfram að hittast það sem eftir var af tíma mínum en svo kom að því að ég varð að fara. Gunnar var óhuggandi en sagðist ætla að tala við unnustu sína um leið og hann kæmi heim til sín. Og skyndilega var ég komin aftur til Reykjavíkur með öllum sínum hávaða, ys og þys.

Við Gunnar skrifuðumst á og þau voru mörg bréfin sem fóru á milli okkar. Hann kom líka einu sinni í stutta heimsókn til Íslands. Hann hafði talað við foreldra sína og stúlkuna og hún hafði ekki tekið fréttunum vel. Allt var þó í óvissu því hún vildi ekki svara strax. Seint um haustið skrifaði hann mér langt bréf. Unnusta hans vildi alls ekki falla frá því sem um hafði verið samið.

Þar sem ég byggi á Íslandi, taldi hún að Gunnar yrði fljótur að gleyma mér. Nú fór í hönd erfiður vetur þar sem við Gunnar héldum áfram að skrifast á í laumi. Ég reyndi að hugsa ekki um hann og gleyma honum. Ég hélt áfram í skólanum, staðráðin í að standa mig betur og fór stundum á skólaböll og dansaði. Mér leið samt mjög illa, ég var svo vonsvikin og afbrýðisöm. Ég var líka meðvituð um að ég gæti ekki lifað hamingjusömu lífi undir svona kringumstæðum. Ég varð að hætta að skrifa Gunnari og reyna að gleyma honum.

„Þar sem ég byggi á Íslandi, taldi hún að Gunnar yrði fljótur að gleyma mér. Nú fór í hönd erfiður vetur þar sem við Gunnar héldum áfram að skrifast á í laumi. Ég reyndi að hugsa ekki um hann og gleyma honum.“

Margra ára gömul skilaboð

Næsta vor ákvað ég að halda aftur út í heim. Vinkona mín hafði gifst og átti von á barni. Þau hjónin voru á leið út til Svíþjóðar þar sem hann átti að hefja háskólanám næsta vetur. Hún kveið mikið fyrir ferðalaginu og að koma sér fyrir í ókunnu landi. Úr varð að foreldrar hennar báðu mig að fara með henni og vera hjá henni þangað til barnið fæddist. Þau borguðu fyrir mig farið og pabbi hennar gat útvegað mér hlutastarf í nágrenni við heimili ungu hjónanna.

Ég sagði honum líka í bréfinu að þessu ævintýralega sumri myndi ég aldrei gleyma og það væri mér óbærilega sárt að yfirgefa bæði hann og föðurlandið.

Ég skrifaði Gunnari daginn áður en ég fór, sagði honum að ég myndi ekki skrifa oftar. Ég sagði honum líka í bréfinu að þessu ævintýralega sumri myndi ég aldrei gleyma og það væri mér óbærilega sárt að kveðja. Þegar skipið fór frá landi stóð ég uppi á dekki svo lengi sem sást til lands og tárin runnu niður kinnarnar á mér. Það var ung, ástfangin og sorgmædd stúlka sem yfirgaf fósturjörðina sína og hafði jarðað allar sínar óskir og drauma um framtíðina.

Ég ætlaði að snúa aftur sem fullorðin kona með æskuórana að baki og fullkomna stjórn á tilfinningum mínum. Það er skemmst frá því að segja að ég settist að í Svíþjóð. Ég fór í nám í hjúkrun og lauk prófi og vann lengi á sjúkrahúsi í þekktum háskólabæ. Nokkrum sinnum reyndu menn að bræða ísinn í kringum hjarta mitt en ég gaf aldrei færi á því. Ég gat ekki gleymt æskuástinni minni. Oft sá ég mikið eftir að hafa hætt að skrifa. Mér fannst að ég hefði átt að berjast meira fyrir sambandi okkar Gunnars. Kannski hefðu hlutirnir þá farið á annan veg. Dag nokkurn þegar ég var fjörutíu og fjögurra ára var hringt í mig og mér boðið starf á sjúkrahúsi í stórum bæ í Noregi. Ég stóðst ekki mátið og þáði stöðuna.

Ég var ekki búin að búa þar lengi þegar mér varð ljóst að fjölskylda Gunnars var velþekkt og áberandi í þessum bæ. Ég frétti að Gunnar hefði gifst stúlkunni og eignast þrjú börn. Ég heyrði einnig að hann hefði verið mikið á flakki um heiminn og drukkið töluvert. Síðasta árið áður en ég kom hafði hann róast, enda orðinn veikur og kom oft á spítalann þar sem ég vann til að fá umönnun. Konan hans var skilin við hann og þarna aldarfjórðungi eftir ástarsumarið okkar sá ég hann aftur. Fyrir tilviljun gekki ég inn í bráðamóttökuna þegar hann beið eftir þjónustu. Hann þekkti mig strax og við heilsuðumst og spjölluðum. Hann var enn myndarlegur maður en hafði á engan hátt sömu áhrif á mig og hann hafði haft sumarið okkkar. Það var samt gaman að tala við hann og hann sagði mér þetta sumar okkar hefði verið það besta í lífi hans. Það gladdi mig ósegjanlega mikið sem fullorðna konu að vita að mínar sterku tilfinningar höfðu virkilega verið endurgoldnar. Ég sneri aftur til Svíþjóðar ári síðar. Þá var Gunnar látinn en ég fann til léttis yfir að við höfðum getað gert upp okkar mál og skilið sátt.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -