Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Ástin breytti öllu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir missti eiginmann sinn úr krabbameini árið 2011 stóð hún frammi fyrir því að þurfa að endurskipuleggja allt líf sitt og forgangsröðin breyttist. Í framhaldi af því stofnaði hún Heilsufélagið, ráðgjafarþjónustu um aukin lífsgæði, og hefur síðan unnið ötullega að því að hjálpa fólki á vinnumarkaði, einkum konum, að vinna að betra starfsumhverfi og bættum lífsgæðum. Hún var ákveðin í því að fara aldrei aftur í alvarlegt samband en ástin breytti þeirri ákvörðun á ógnarhraða og ári eftir fyrsta stefnumót var hún komin í sambúð.

Ragnheiður Agnarsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Eftir stúdentspróf frá MR fór Ragnheiður í nám í sálfræði við Háskóla Íslands og segist upphaflega hafa ætlað sér að verða klínískur sálfræðingur en það hafi breyst, meðal annars fyrir tilstilli skáldsögu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. „Í náminu kom í ljós að ég hafði mikinn áhuga á vinnustaðarannsóknum og starfsánægju og hvað það er sem gerir það að verkum að fólk velur sér ákveðinn starfsvettvang,“ segir hún. „Þannig að ég endaði í þeim geira og fór að vinna hjá PWC í rúm fimm ár eftir að náminu lauk. Viðskiptalífið hefur alltaf heillað mig og ég man að þegar ég var sextán ára og las Markaðstorg guðanna eftir Ólaf Jóhann hugsaði ég að þetta væri spennandi heimur sem ég væri til í að skoða betur. Hann var auðvitað að tala um New York og ég lét mig nú ekkert dreyma um að fara þangað, en ég fann að það var þessi heimur sem vakti áhuga minn.“

Eftir árin hjá PWC fór Ragnheiður að vinna hjá Tryggingamiðstöðinni, þar sem hún starfaði í tíu ár, fyrst sem forstöðumaður og síðar sem framkvæmdastjóri, en í millitíðinni hafði ýmislegt drifið á daga hennar, hún var meðal annars orðin einstæð móðir.

„Ég á dreng sem er fæddur 1999 sem má segja að ég hafi verið ein með,“ segir hún. „Pabbi hans er frá Nýja-Sjálandi og býr þar og ég bjó þar líka um tíma, en kom heim áður en sonur minn fæddist. Það var mjög velkomið og kærkomið að fá hann í heiminn og hann varð mikið akkeri í mínu lífi. Ég hafði verið fyrirmyndarbarn og verið mjög skipulögð í öllum mínum lífsaðgerðum fram til tvítugs. Þá fór ég út til Austurríkis og var skíðakennari þar einn vetur og áttaði mig á því að heimurinn er risastór og hefur upp á fullt af möguleikum að bjóða. Þannig að ég prófaði alls kyns hluti á aldrinum frá tvítugu til tuttugu og fimm, ferðaðist um og vann alls konar vinnu og byrjaði í sálfræðinni. Þetta var sá tími sem ég leyfði mér að vera ekki bara í skóla og gera það sem var ætlast til af manni.“

Þegar Ragnheiður er spurð hvort þetta hafi verið síðbúin unglingauppreisn skellir hún upp úr og segir að móðir hennar myndi alla vega skrifa undir þá skilgreiningu. „Ég held henni hafi ekki alltaf litist á blikuna,“ segir hún hlæjandi.

Hefðu átt að vera duglegri að leita aðstoðar

- Auglýsing -

Þegar sonur Ragnheiðar var á fjórða ári kynntist hún Þórði Friðjónssyni og þrátt fyrir mikinn aldursmun, sem hún segir hafa valdið einhverjum hneykslun, þróaðist samband þeirra þannig að þau urðu hjón. „Samband okkar fór af stað í miklum rólegheitum, það stóð aldrei til að það yrði langtímasamband,“ segir Ragnheiður. „Á okkur var tuttugu og tveggja ára aldursmunur svo þetta var í rauninni mjög flókið allt saman og það hvarflaði ekki að mér að úr því yrði hjónaband þegar sambandið var á frumstigi. En það varð samt hjónaband og ákaflega gott samband þegar við náðum okkar lendingu. Það tók nokkur ár, bæði fyrir okkur að átta okkur á hvað við vildum og kannski ekki síður fyrir umhverfið, að venjast tilhugsuninni um okkur sem par. En við náðum tíu árum saman allt í allt og vorum svo heppin að eignast dóttur saman árið 2007.“

Ragnheiður Agnarsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Þórður greindist með krabbamein árið 2010 sem dró hann til dauða á nokkrum mánuðum og hann lést í febrúar 2011. Ragnheiður segir þann tíma hafa verið erfiðan, ekki síst vegna þess að þau hafi alltaf verið mjög prívat með sitt einkalíf og átt erfitt með að leita sér hjálpar í þessari stöðu. „Þetta gerðist allt mjög hratt og hann varð mjög hratt veikur,“ segir Ragnheiður spurð um sjúkdómsferli Þórðar. „Þessi tími er í dálítilli móðu, maður fer auðvitað bara í þann ham að lifa af þegar maður lendir í svona aðstæðum. Svona eftir á að hyggja hefðum við kannski átt að vera duglegri að leita okkur ráðgjafar. Við vorum með tvö lítil börn og bæði í mjög krefjandi störfum og það þótti kannski ekkert sérstaklega fínt að vera að leita sér aðstoðar. Við gerðum einhverjar tilraunir til þess að fá stuðning og sem betur fer fundum við að lokum stað þar sem við gátum sest niður og talað saman. Ég var reyndar svo heppin að hafa stoðkerfi, hafði verið sjálf í samtölum í langan tíma og gat nýtt mér það og hann kom svo með mér inn í það að ræða við aðila sem ég hafði lengi treyst og það hjálpaði okkur mikið. Það bjóst auðvitað enginn við því að hann færi svona hratt, nema kannski ég, því hann bar sig alltaf svo vel. Hann náði stundum að plata læknana, enda var hann svo harður af sér að hann vildi frekar tala um nýjustu jólabækurnar við krabbameinslækninn heldur en ræða það hvernig hann hefði það.“

Dauða Þórðar bar að þegar þau hjónin voru á leið í skíðaferð til Austurríkis sem læknarnir höfðu hvatt þau til að fara í. „Krabbameinslækninum fannst það frábær hugmynd að við skelltum okkur í skíðaferð,“ útskýrir Ragnheiður. „Ég var ekki alveg sammála því en ákvað að spila með og var að vona að við gætum átt gott frí enda hafði það alltaf verið leið okkar til að slappa af að fara í fjöllin í Austurríki, en í þetta sinn komumst við ekki alla leið. Hann veiktist svo illa í fluginu að við fórum ekki á leiðarenda heldur beint á sjúkrahús í Þýskalandi þar sem hann dó. Það var strax slegin skjaldborg um mig og börnin, bæði börn Þórðar og mín fjölskylda voru komin til Þýskalands eftir tvo daga og við fórum öll saman heim með fluginu viku seinna.“

- Auglýsing -

Það eina sem skipti máli var öryggi og frelsi

Spurð hvort hún hafi þá farið að leita sér aðstoðar hjá fagaðilum eftir dauða Þórðar segir Ragnheiður að hún hafi að sjálfsögðu notað sinn stuðningsaðila sem hún hafði verið hjá árum saman áfram auk þess sem hún hafi átt góða að. „Það var mjög verðmætt fyrir mig að Þórður hafði líka átt samtöl við þennan ráðgjafa,“ segir hún hugsi. „En við höfðum alltaf verið mjög prívat í okkar lífi og vorum mjög varfærin í því hvert við leituðum og við hvern við töluðum, auðvitað vissi ég til dæmis af Ljósinu en einhvern veginn náðum við aldrei að uppgötva að það væri leið fyrir okkur, enda gerðist þetta allt svo hratt. Ég veit að það voru margir sem horfðu á mig og hugsuðu; hvernig í ósköpunum fer hún að þessu öllu saman, að vera í mjög krefjandi starfi með tvö lítil börn og veikan eiginmann. En ég bjó að því að eiga góða að á vinnustaðnum og svo auðvitað heima fyrir.“

Ragnheiður segir árið eftir að Þórður dó hafa farið í það að tryggja öryggi barnanna og endurskipuleggja líf sitt. „Við fluttum, ég og krakkarnir, fljótlega eftir að Þórður féll frá og í rauninni breyttist forgangsröðin í lífinu á einni nóttu,“ segir hún. „Það eina sem skipti mig máli var að ég og börnin værum örugg og þá á ég bæði við fjárhagslegt öryggi og að við hefðum frelsi til að velja í lífnu. Ég fann það fljótlega eftir að ég missti Þórð að ég vildi leggja drög að því að breyta um starfsvettvang og finna mér annan stað í mínu vinnulífi. Árin á Tryggingamiðstöðinni höfðu verið frábær og mikil og góð reynsla en ég sá mig ekki í tryggingageiranum út starfsævina, mig langaði að prófa fleira.“

Skelfilegt hvað konur fara oft illa út úr atvinnulífinu

Árið 2016 lét Ragnheiður síðan þann draum rætast að stofna eigið fyrirtæki og Heilsufélagið varð til. Um hvað snýst starfsemi þess? „Heilsufélagið er ráðgjafarþjónustufyrirtæki fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem eru að leita að jafnvægi í lífi og starfi,“ segir Ragnheiður og það heyrist að þessa kynningu hefur hún oft farið með áður. „Reynsla mín segir mér að það er hægt að hámarka lífsgæði sín á hverjum tíma óháð því í hvaða aðstæðum þú ert. Ég hafði mikinn áhuga á að vinna við það, annars vegar með einstaklingum í misjöfnum aðstæðum, ég vinn til dæmis mikið með stjórnendum í því að hámarka þeirra lífsgæði bæði í vinnu og einkalífi. Síðan vinn ég líka með fyrirtækjum og opinberum aðilum að umbótum í starfsumhverfi og þá sérstaklega starfsumhverfi kvennastétta. Ég brenn mjög fyrir því málefni að bæta starfsumhverfi kvennastétta, sérstaklega þeirra sem vinna í mennta- og heilbrigðiskerfinu og hef síðustu árin unnið mikið með leikskólastarfsfólki við umbætur á starfsumhverfi og vinnutíma og hjálpað þeim samhliða því að vinna að auknum lífsgæðum og minnka líkurnar á því að konur í þeim störfum falli af vinnumarkaði vegna álagsbundinna vandamála. Það er eiginlega bara alveg skelfilegt hvað margar af konunum okkar fara illa út úr sínu vinnulífi og þá sérstaklega þær sem eru í ummönnunarstörfum.“

Á rósrauðu skýi eru engar hindranir

Ragnheiður segist hafa verið harðákveðin í því eftir lát Þórðar að einbeita sér að sjálfri sér og börnunum og það hafi ekki einu sinni hvarflað að henni að fara aftur í sambúð, en Amor lá í leyni og ör hans hitti hana þegar síst varði. Sá heppni heitir Ólafur Stephensen og þrátt fyrir þá ákvörðun Ragnheiðar að búa aldrei aftur með karlmanni voru þau komin í sambúð ári eftir fyrsta stefnumótið. Hvernig kynntust þau? „Við hittumst fyrst fyrir mörgum árum þegar hann var að vinna á Mogganum og ég var ráðgjafi í mannauðsmálum þar, hann man bara ekkert eftir því og ég stríði honum oft á því,“ segir Ragnheiður og hlær. „Svo þegar ég var að vinna hjá Tryggingamiðstöðinni og hann í stjórn UN Women tókum við fund um það að Tryggingamiðstöðin styrkti auglýsingaherferð UN Women sem tókst svona ljómandi vel. Það var upphafið að okkar kynnum. Fyrsta deitið var á rómatískum tangótónleikum í Listasafni Sigurjóns og það næsta var gönguferð þar sem fyrsti kossinn kom á toppi Móskarðshnjúka. Allt afskaplega rómantískt.“

Varst þú ekkert treg í taumi eftir þá ákvörðun að fara aldrei aftur í alvarlegt ástarsamband? „Nei, eiginlega ekki,“ segir Ragnheiður og skellir aftur upp úr. „Ég hafði hugsað mér að ég gæti kannski einhvern tímann eignast vin, ef þannig viðraði, en að fara að búa með manni og setja saman fjölskyldu var aldrei í spilunum. En það er svo merkilegt hvað ástin breytir miklu. Þegar maður svífur um á rósrauðu skýi eru engar hindranir til, það eru bara lausnir. Við erum líka bæði ákveðin, fylgin okkur og dugleg þannig að ef okkur dettur eitthvað í hug er það frekar fljótt að gerast þannig að við vorum bara komin í sambúð ári eftir að við kynntumst.“

Ragnheiður á tvö börn úr fyrri samböndum og Ólafur þrjú, var ekkert erfitt að púsla saman þessum tveimur fjölskyldum? „Ég hef stundum sagt að þetta sé kannski önnur stærsta óvænta áskorunin í mínu lífi,“ viðurkennir Ragnheiður. „Þótt við séum svo svakalega heppin að börnin okkar hafi nánast frá fyrsta degi verið eins og einn systkinahópur og góðir vinir og þetta hafi aldrei verið vandamál með þau þá er þetta auðvitað stór fjölskylda, við teljum átta með tengdasyninum, og það getur stundum verið mikil vinna að halda því öllu gangandi. En við erum samstiga og skiptum heimilishaldinu jafnt á milli okkar og förum í gegnum þetta þótt við séum stundum pínu þreytt. Það er alla vega nóg að gera hjá okkur, þótt maður sé að reyna að vanda sig í því að hafa ekki of mikið að gera. Og ég segi það í fullri einlægni að þetta er bara dásamlegt, þótt það hafi vissulega ekki verið án áskorana.“

Töfrar á hverjum degi í Ljósinu

Eitt af því sem Ragnheiður gerði eftir fráfall Þórðar var að bjóða Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess, þjónustu sína. Það var vel þegið og nú er hún orðin stjórnarformaður þess. Hvernig hófst hennar aðkoma að Ljósinu? „Það byrjaði þannig að bæði stjúpmóðir mín og mágkona, systir Ólafs, veiktust af krabbameini og eftir að systir Ólafs dó, fljótlega eftir að við kynntumst, ákvað ég að fara niður í Ljós og gera það sem ég hefði átt að gera árið 2011. Ég hitti hana Ernu, forstöðukonu Ljóssins, og bauð henni að ég skyldi koma með lífsgæðanámskeið fyrir ljósberana, Ljósinu að kostnaðarlausu. Við áttum ljómandi gott samtal og smullum alveg saman, nokkrum mánuðum síðar var ég komin í stjórnina og er nú orðin formaður stjórnar. Það er alveg dásamlega gefandi og skemmtilegt starf, það er alltaf svo mikil jákvæðni, hlýja og gleði í Ljósinu. Sama hvað gengur á í lífi ljósberanna tekst starfsfólkinu alltaf að gera dagana fulla af orku og lausnum. Það eru töfrar þar á hverjum degi. Þau eru algjörega mögnuð og hvernig þau hafa leyst málin í COVID-ástandinu er aðdáunarvert. Krabbameinsveikt fólk er oft mjög einangrað og það hefur verið líflína fyrir marga að geta hitt fólk á Facebook, spjallað og gert æfingar og unnið í handverki. Þetta er stórkostlegt starf sem unnið er í Ljósinu.“

„En upp á síðkastið hefur verið dálítið mikið að gera og nú líður mér eins og ég þurfi að setjast niður með Lífsgæðadagbókina og endurskipuleggja svolítið.“

Á síðasta ári kom út bókin Lífsgæðadagbókin eftir Ragnheiði, þar sem hún bendir á leiðir til að auka lífsgæði og skipuleggja tíma sinn með ýmsum æfingum. Hún er sjálf lýsandi dæmi um það hversu miklu máli það skiptir að setja lífsgæðin í forgang, en eru einhverjar breytingar á döfinni hjá henni á nýju ári? „Góð spurning,“ segir hún hugsi. „Ég var einmitt að velta því fyrir mér hvort það væri kominn tími til að fara að huga að því. Í sumar verða komin fimm ár síðan ég stofnaði Heilsufélagið og ég hef verið gríðarlega heppin með viðskiptavini og samstarfsfólk, þetta hefur gengið alveg rosalega vel og verið ótrúlega skemmtilegur og gefandi tími. En upp á síðkastið hefur verið dálítið mikið að gera og nú líður mér eins og ég þurfi að setjast niður með Lífsgæðadagbókina og endurskipuleggja svolítið. Ég er samt alveg viss um að ég mun halda áfram á sömu braut, það er að segja að vinna að umbótum í lífi fólks og fyrirtækja. Mér finnst hvort tveggja mjög skemmtilegt, elska að vinna með stjórnendum þannig að þeir læri bæði að hlúa að sjálfum sér og sínu fólki, ég held að við eigum dálítið langt í land með að verða góð í því og langar að hjálpa til við það. Ég vil gera mitt til þess að okkur líði á hverjum degi eins vel með lífið og tilveruna og við mögulega getum. Ég held að COVID hafi kennt okkur það að við eigum ekki að líta á lífið og alla þá ofgnótt og allsnægtir sem við búum að jafnaði við sem sjálfsagðan hlut. Kannski ættum við að nota þetta óvenjulega ár sem hvatningu til að forgangsraða upp á nýtt.“

Í hverri Viku birtast spennandi forsíðuviðtöl við konur með áhugaverða sögu. Tryggðu þér áskrift.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -