Þriðjudagur 3. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Dekur fyrir hugann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er gott að dekra við sig öðru hverju, fara í nudd, fótsnyrtingu eða andlitsbað svo eitthvað sé nefnt, til að láta spennu og streitu líða úr sér. Við megum þó ekki gleyma að dekra líka við hugann því hann verður engu síður fyrir áhrifum af streitu og amstri hversdagsins.

 

Slakandi svefn

Svefn er okkur öllum lífsnauðsynlegur því á meðan við sofum er líkami okkar í viðgerðarfasa, endurnýjun verður í ýmsum vefjum og hugur okkar hvílist.  Í fullkomnum heimi fengjum við átta tíma endurnærandi svefn á hverri nóttu en það er ekki sá heimur sem við lifum í. Við förum eldsnemma á fætur og tímum svo ekki að fara snemma að sofa á kvöldin. Svo getum við ekki alltaf sofnað þegar á koddann er komið, heldur liggjum og hringsnúumst um í kvíða. Þá getur lavender-ilmkjarnaolía hjálpað en hún er oft notuð til þess að ná fram jafnvægi og slökun. Sniðugt að setja nokkra dropa af ilmkjarnaolíunni í spreybrúsa með vatni og spreyja á koddann áður en farið er upp í.

Bragðgóð lausn

Þegar streitan er að drepa mann er oft freistandi að grípa í sætindi til að auka vellíðan, en þau áhrif eru þó aðeins skammvinn. Sykur veldur háum toppum í blóðsykri og í kjölfarið af þeim kemur blóðsykurfall en því fylgir yfirleitt orku- og einbeitingarleysi. Næst þegar þig langar í eitthvað bragðgott til að lífga upp á daginn ættirðu frekar að fá þér gott dökkt súkkulaði því það inniheldur minni sykur og veldur því ekki jafnmikilli aukningu blóðsykurs. Það inniheldur einnig helling af andoxunarefnum og er sagt geta dregið úr stresshormóninu kortisóli.

- Auglýsing -

Fljótandi slökun

Það er fátt eins spennu- og streitulosandi og að fara í gott bað. Það er í raun á við að fá nudd því það slakar á vöðvaspennu og minnkar bólgur og verki. Það gerir því öllum gott, bæði íþróttafólki og kyrrsetufólki. Mögulega líður okkur svona vel í vatni vegna þess að það líkist því umhverfi sem við kynnumst fyrst í móðurkviði. Eftir erfiðan dag ættirðu að láta renna í heitt bað, setja baðolíu eða –sölt í það, kveikja á kertum og slakandi tónlist, leggjast aftur, loka augunum og finna hvernig að það líður úr þér.

Róandi drykkur

- Auglýsing -

Það er alltaf notalegt að setjast niður í amstri dagsins og fá sér heitan drykk, til dæmis te. Rannsóknir hafa sýnt að kamilla inniheldur efni sem bindast við sömu móttakara í heilanum og ýmis róandi lyf. Kamillute hefur þess vegna væg róandi áhrif  og getur gert þér kleift að slaka á og vinda ofan af streitu. Þeir sem eru ekki mikið fyrir tedrykkju geta prófað að taka kamillu inn sem fæðubótarefni í staðinn.

Ljúfur lestur

Ein besta leiðin til að slaka á er að sleppa inn í annan heim þótt það sé ekki nema í augnablik. Með tilkomu nútímatækni þá grípum við oftar í tölvuleiki, sjónvarpsþætti eða þvíumlíkt og gefum okkur sjaldan tíma til þess að setjast niður og lesa góða bók. Rannsókn Sussex-háskóla sýndi þó fram á að lestur gæti dregið úr streitu um allt að sextíu og átta prósent, en miðað var við spennu í vöðvum og hjartslátt.

Góð bók getur gert kraftaverk.

Þeir sem að rannsókninni komu töldu ástæðuna fyrir því að lestur virtist vera mun árangursríkari en aðrar slökunaraðferðir, svo sem að hlusta á tónlist eða fara út í göngutúr, vera þá að hann krefst fullrar athygli hugans og þannig gleymum við öllu öðru og slökum á.

Við eldavélina

Útivinnandi einstaklingar geta stundum ekki hugsað sér neitt verra en að þurfa að elda kvöldmatinn eftir langan vinnudag og grípa þá oftar en ekki til skyndibita.  Matseld getur hins vegar verið mjög róandi og tækifæri til að vinna úr streitu dagsins. Því þegar við skerum niður, söxum og hrærum í pottum gerum við það oftast í ákveðnum takti og við fylgjum ákveðinni rútínu. Á meðan getur maður hreinsað hugann og unnið úr málum, þannig að þetta verður eins og nokkurs konar hugleiðsla. Það gefur manni líka svo mikla ánægju að borða hollan og góðan mat sem eldaður hefur verið frá grunni.

Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -