Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Erfiðar minningar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ég veit fátt skemmtilegra og notalegra en að dvelja í sumarbústað, hvort sem er yfir vetur eða sumar. Maðurinn minn deilir ekki þeirri hrifningu með mér og þegar mér tókst að draga hann með var hann eirðarlaus og vildi helst fara sem fyrst heim aftur.

 

Einar talaði ekki mikið um æsku sína en foreldrar hans drukku mikið og skildu þegar hann var að verða sautján ára. Sjálfur drakk hann í hófi en á unglingsárunum var hann erfiður og drakk bæði og dópaði.

Mig langaði til að komast til botns í þessu með andúð hans á því að fara í burtu frá heimilinu. Það var ekkert mál að skreppa saman til útlanda en þegar við vorum á Íslandi átti hann erfitt með að slíta sig að heiman ef það hafði í för með sér að gista einhvers staðar, hvort sem var á hóteli, tjaldi eða í sumarbústað. Hann sagði bara að sig langaði ekki en gerði það fyrir mig að koma. Hann hvatti mig nokkrum sinnum til að fara í bústaðaferðir með vinkonum mínum og ég gerði það nokkrum sinnum þar til dóttir okkar fæddist.

Ég vissi að Einar ætti slæmar minningar úr ferðalögum með foreldrum sínum þótt hann vildi sem minnst tala um fortíðina og fannst algjör óþarfi að vera að velta sér upp úr því sem liðið var.

„Kósí“ ferðir …

- Auglýsing -

Eitt kvöldið kom óvænt tækifæri til að ræða málin. Dóttir okkar, nokkurra mánaða, var sofnuð og við sátum og ræddum saman. Samræður okkar snerust um velferð dóttur okkar, hvað væri gott veganesti fyrir börn út í lífið og hvað ætti ekki að bjóða þeim upp á. Án þess að ég spyrði nokkurs eða reyndi að draga upp úr Einari fór hann að segja mér ýmsar sögur úr æsku sinni, máli sínu til stuðnings. Einhverjar hafði ég heyrt en nú fékk ég nýjan flöt á þær og sumt hafði ég ekki haft hugmynd um.

Foreldrar hans voru bæði í góðum störfum, sérstaklega mamma hans, en um helgar eða í sumarfríum notuðu þau hvert tækifæri til að drekka.

Einar sagði mér frá sumarbústaðaferðum sem snerust langflestar upp í martröð vegna drykkju þeirra. Þau hlökkuðu alltaf til að komast í sveitasæluna, og nú átti að hafa það kósí, sögðu þau. Mikið var tekið með af góðum mat til að grilla en það glamraði alltaf í flöskum í einum eða tveimur pokum sem voru meðferðis.

- Auglýsing -

Um leið og búið var að bera inn farangurinn fengu þau sér í glas. Þau drukku yfir matseldinni, drukku með matnum og fengu sér svo enn meira eftir matinn. Einar gerði sér iðulega upp þreytu til að fara snemma að sofa en svo beið hann skjálfandi í rúminu eftir rifrildinu og slagsmálunum sem fylgdi svo oft. Oftast tóku þau ekki eftir því þegar hann lét sig hverfa. Hann gat aldrei sofnað fyrr en hann heyrði að allt var komið í ró.

Næsta morgun var yfirleitt allt komið í lag og foreldrar hans syngjandi glaðir að búa til morgunverð. Ekkert var minnst á lætin kvöldinu áður. Svo endurtók allt sig þegar líða fór á daginn. Foreldrar hans slógust ekki alltaf þegar þau voru undir áhrifum áfengis en þau rifust þó oft. Fyrir kom að nístandi þögn ríkti í bílnum á heimleiðinni en þá höfðu pabbi hans og mamma greinilega sofnað ósátt. Þá var lítið sungið yfir morgunverðartilbúningnum.

Sár missir

Eins og þetta væri ekki nógu slæmt … Einar átti kisu þegar hann var átta eða níu ára og honum þótti ógurlega vænt um hana. Eðlilega var ekki hægt að taka hana með í ferðalagið og einu sinni tókst ekki að finna nágranna til að koma og gefa kettinum. Þá tóku foreldrar hans á það ráð að skilja nógu mikinn mat eftir fyrir hann og hafa opinn glugga svo hann gæti farið út og inn. Eftir ömurlega viku sem einkenndist af drykkju og rifrildum gat Einar ekki beðið eftir því að komast heim til kisu. En íbúðin var auð. Maturinn búinn og kisi horfinn. Einar kvaldist lengi yfir þessu og var viss um að þessi besti vinur hans hefði haldið að hann hefði verið yfirgefinn og fundið sér nýtt heimili. Þrátt fyrir mikla leit fannst kötturinn aldrei. Einar var eyðilagður yfir þessu og til að reyna að bæta honum missinn gaf mamma hans honum tvo kettlinga sem hún hafði séð auglýsta í blaði. Það hefði hún betur látið ógert því næsta sumar þegar fjölskyldan fór á sólarströnd í þrjár vikur var ástkærum kisunum hans lógað því foreldrum hans fannst of dýrt að setja þær í gæslu. Einar fékk ekki einu sinni tækifæri til að reyna að koma þeim fyrir hjá vinum sínum.

Eftir þetta vildi hann ekki eiga gæludýr þótt foreldrar hans byðu honum það. Sólarlandaferðin var að mestu leyti ömurleg. Pabbi hans og mamma einhentu sér í að drekka ódýra áfengið og hann var mikið til sjálfala í ferðinni, enn miður sín eftir að kisunum hans var lógað.

„Pabbi hans og mamma einhentu sér í að drekka ódýra áfengið…“

Hann dauðskammaðist sín fyrir þau í flugvélinni, sérstaklega á heimleiðinni. Hann sagði að ein flugfreyjan hefði áttað sig á stöðunni og vorkennt honum svo mikið að hún hefði drifið hann fram í flugstjórnarklefa og leyft honum að tala við flugmennina í smástund. Það var besta minningin úr ferðinni.

Einar bætti því við að foreldrar hans hefðu auðvitað ekki verið alslæmir og hann hefði líka átt sínar góðu stundir með þeim. Mamma hans var stórskemmtileg og hugmyndarík og feðgarnir gerðu oft eitthvað saman. Drykkja þeirra yfirgnæfði þó góðu minningarnar og hann ætti enn erfitt með að fyrirgefa þeim fyrir virðingarleysið sem þau sýndu lífi kattanna hans.

Sjómennskan bjargaði

Ég hafði heyrt eitthvað af þessu áður en ekki í neinu almennilegu samhengi. Ég vissi líka alveg af hverju hann hefur kosið að vera í litlu sambandi við foreldra sína.

Einar talar almennt lítið um sjálfan sig og vill lifa í nútíðinni en mér fannst honum létta við að segja mér frá þessu. Þetta hvíldi þungt á honum sem barni en svona fortíðarfarangur er ekki hollt að bera einn, sama hversu mikið maður heldur að maður sé í góðum málum. Við töluðum saman allt kvöldið og lítið fór fyrir því að horfa á myndina í sjónvarpinu sem við höfðum ætlað okkur að gera.

Einar sagði mér meira frá unglingsárunum og hluti sem hann hafði engum sagt frá. Uppreisn hans gegn foreldrunum hófst þegar hann var að verða fjórtán ára og neitaði að láta ferma sig sem þótti hneykslanlegt þótt fjölskyldan væri ekki sérlega trúrækin. Hann fór að drekka í kringum fimmtán ára aldurinn og var óviðráðanlegur á tímabili. Hann prófaði ýmis eiturlyf og flosnaði upp úr skóla. Þegar hann átti að að ljúka við tíunda bekk var hann á sveitaheimili þar sem honum hafði verið komið fyrir. Þótt hann treysti fólkinu þar nokkuð vel gat hann ekki sagt því frá líðan sinni og því sem hafi kannski orsakað hana. Honum fannst þetta allt saman vera væl og hann var of mikill töffari til að væla.

Það var ekki fyrr en þegar einn besti vinur hans lést úr ofneyslu sem Einar vaknaði almennilega til vitundar um þá ógæfuleið sem hann var á. Það varð honum einnig til happs að hann komst á sjóinn en pabbi hans kippti í einhverja spotta til að það gengi eftir. Á þessum tíma voru foreldrar hans að skilja.

Einar heldur því fram að frábæru karlarnir á bátnum, erfiðisvinnan og allur góði maturinn úti á sjó hafi komið honum til manns. Ég efast ekki um að það sé rétt hjá honum. Einar snerti ekki á dópi eftir þetta og hann drekkur sjaldan og í hófi.

Rómantísk ferð og nýr heimilismeðlimur

Þegar dóttir okkar fæddist breyttist Einar smám saman og byrjaði að opna sig. Ég áttaði mig á því þegar við áttum þetta góða spjall saman. Hann elskar stelpuna sína meira en allt annað og vill reynast henni gott foreldri.

Það má alveg segja að hann hafi með þessum upprifjunum rifið ofan af gömlum sárum sem fóru án efa að gróa smám saman í kjölfarið.

Ég vildi að ég gæti sagt að hann hafi orðið ferðalagasjúkur í kjölfarið en sú varð þó ekki raunin. Ekki alveg. En hann hefur breyst á síðustu árum og ýmislegt fleira í lífi okkar. Við erum meira að segja komin með kött. Bröndóttan kött sem flutti hreinlega til okkar. Hann hafði verið á vergangi og var ósköp tætingslegur þegar hann fór að venja komur sínar til okkar. Við reyndum að finna eigandann en það tókst ekki. Svo var hann bara orðinn einn af fjölskyldunni.

Ég hef aldrei verið mikið fyrir ketti en Brandur okkar er einstakur og hefur töfrað alla upp úr skónum, líka foreldra mína sem voru ekkert fyrir ketti.

Pabbi og mamma hafa verið einstaklega elsk að dóttur okkar Einars, eina barnabarninu, og við eigum aldrei í vandræðum með pössun ef við förum eitthvað út. Þau koma ýmist heim til okkar eða taka stelpuna til sín.

Þegar við Einar áttum brúðkaupsafmæli nú í sumar sagði ég honum að mig langaði til að gera eitthvað sérstaklega skemmtilegt í tilefni þess og hann sagði að ég mætti ráða hvað það yrði. Ég fékk foreldra mína til að koma heim og passa dótturina og köttinn yfir helgi, fyllti skottið af vistum og sótti Einar í vinnuna síðdegis á föstudegi. Ég ók sem leið lá að sumarbústað sem ég hafði tekið á leigu og tilkynnti Einari að nú hæfist nýr kafli í ferðalagalífi hans. Hann gretti sig en hló og fór að hjálpa mér að bera matinn og annað inn í bústaðinn. Það var eins og hann hefði ákveðið að fleygja öllum gömlum og slæmum minningum út í veður og vind og gera gott úr öllu saman.

Helgin var stórkostleg og mjög rómantísk. Við elduðum góðan mat, fórum í gönguferðir og töluðum mikið saman. Þetta var það sem við þurftum eftir að hafa verið meira og minna bundin yfir litlu barni. Og þarna tókst Einari að fá nýjar og betri minningar inn í ferðaminningabankann sinn, eins og ég sagði við hann í gríni. Það var gaman að koma heim aftur og ég fann alveg að Einari létti svolítið þótt helgin hafi verið í meira lagi yndisleg.

Í framtíðinni mun ég ekki að neyða Einar til að ferðast með mér. Við vitum bæði hvað útskýrði andúð hans á svona ferðum og það tekur án efa tíma að komast yfir það. Mögulega ferðumst við minna en mig langar í framtíðinni og meira en hann langar og það er bara allt í lagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -