Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

„Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og gefur ráð varðandi búnað.

Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og hefur ásamt félögum sínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress gengið á marga flotta austfirska tinda. Við fengum hana til að segja okkur fá eftirminnilegustu göngunum og gefa okkur nokkur góð ráð um búnað.

Á toppi Hvannadalshnjúks.

„Falleg náttúra og að kljást við fjölbreytt landslag og ögrandi fjöll er það skemmtilegasta við fjallamennskuna. Ég fer mikið ein á fjöll og finnst það frábært en það er líka mjög gefandi að ganga með vinum mínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress og um leið eykur það öryggi á fjöllum,“ segir Bryndís. Hún er deildarstjóri í Seyðisfjarðarskóla á leikskóladeild og starfar einnig sem fjallaleiðsögumaður og landvörður á sumrin. Í frítíma sínum stundar hún fjallgöngur og kajakróður.

„Súla, hæsti tindur Dyrfjalla, er í uppáhaldi vegna þess hve mikil fjölbreytni er í gönguleiðinni og einstök innkoma á þetta mikla klettafjall, sem er blómi skrýdd klettarák. Útsýnið af toppnum er magnað. Eftirminnilegast er þó líklega þegar dóttir mín hringdi í mig þar sem ég var að koma niður af Hvannadalshnjúk og sagði að það væri farið að gjósa á jöklinum. Nei, ég hélt nú ekki. ,,Jú mamma, þetta er bæði í fréttum í útvarpi og sérútsending í sjónvarpinu sagði hún mjög angistarfull.“ Þá sneri ég mér við og sá þá gosstrókinn stíga upp til himins. Þetta var Grímsvatnagosið í maí 2011.“

Mikilvægt að láta vita af sér

Hvað þurfa byrjendur í fjallamennsku að hafa í huga og hvaða búnaður er nauðsynlegur? „Það þarf að huga að veðurspá og láta aðra vita hvert halda skal og hvenær þú áætlar að koma til baka. Góður bakpoki undir skjólfatnað og nesti er mikilvægt. Ólíkan búnað þarf í vetrarfjallamennsku og sumarfjallgöngum. Létt föt, sólgleraugu og sólarvörn í sólinni á sumrin. Muna líka að hafa sólgleraugu og sólarvörn í vetrarsól í snjó og á jökli, ullarfatnað innst og góðar ullarpeysur undir skjólgóðri skel er mjög gott. Göngustafir koma sér vel við ýmsar aðstæður og að vetri eru broddar og ísaxir oft nauðsynleg. Sími, áttaviti eða GSP-tæki eru allt góð öryggistæki. Ekki gleyma vatni á brúsa í allar lengri göngur.“

Hvaða nesti finnst þér best að hafa? „Það fer eftir árstíðum og erfiðleikastigi. Léttari samlokur og ávaxtasafa á sumrin en á veturna kæfusamloku, lifrarpylsu og egg. Svo er ég alltaf með svart te á brúsa. Snickers er ómissandi og reyndu ekki að koma með súkkulaðirúsínur þar sem ég er,“ segir hún hlæjandi.

- Auglýsing -

Hún hvetur fólk hiklaust til að stunda fjallamennsku. „Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing og gott sport bæði fyrir sál og líkama. Náttúran er endalaus uppspretta fegurðar og fjölbreytileika en það er ekki síður magnað að upplifa náttúruna í ham þar sem mannskepnan fær ekki beislað hana, s.s. í jarðskjálftum, gosum, flóðum og skriðuföllum.“

Og það er skemmtilegt göngusumar fram undan hjá Bryndísi en hún ætlar meðal annars að ganga á Búlandstind, Grjótfjall og Þriggjakirknafell, einnig Kverkfjöll og í Hveradal, á Jónsfjall og í Mínuskörð í botni Borgarfjarðar eystra og loka þar með fjallahringnum í firðinum. Þá mun hún fara í fimm daga ferð um Víknaslóðir sem leiðsögumaður, ganga Fimmvörðuháls og fara í kjakferðir í fjallvötnunum á hálendinu.

Aðalmynd: Bryndís ásamt Skúla Júlíussyni á Stöng í Berufirði.

- Auglýsing -

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -