Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Flóknar fjölskyldur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er ekkert sjálfsagt að fjölskyldum lyndi vel saman eins og sjá má í The Glass Castle og fleiri kvikmyndum.

Erfið ævi
Í The Glass Castle (sjá mynd hér að ofan) kynnumst við Jeannette Walls sem fæddist 1960 og ólst upp ásamt þremur systkinum í mikilli fátækt, óreiðu og afskiptaleysi. Faðir þeirra var drykkfelldur draumóramaður sem hélst hvergi í vinnu og móðirin sagðist vera listakona þótt hún skapaði aldrei neitt af viti og virtist oft hvorki vita í þennan heim né annan. Fjölskyldan festi hvergi rætur, flutti eða flúði stöðugt frá einum stað til annars þannig að hvorki Jeannette né systkini hennar gengu í skóla á uppvaxtarárunum. Þetta uppeldi gerði það þó að verkum að þau lærðu fljótt að standa á eigin fótum og flúðu foreldra sína um leið og þau gátu. Það er þangað til foreldrarnir daga uppi sem hústökufólk í New York. Áhugaverð mynd með hinni hæfileikaríku Brie Larson en handritið er byggt á sjálfævisögu Jeanette Walls sjálfrar.

_______________________________________________________________

Þessi skrautlegi hópur leggur af stað í ferðalag á heiðgulri rútu til að koma yngsta barninu í fegurðarsamkeppni.

Sólskinsferðin
Allir fjölskyldumeðlimirnir í Little Miss Sunshine eiga það sameiginlegt að taka sjálfa sig aðeins of alvarlega. Fjölskyldan samanstendur af keðjureykjandi móður, nær gjaldþrota fjölskylduföður, samkynhneigðum frænda sem er að jafna sig eftir sjálfsmorðstilraun, þunglyndum táningi og afa sem reynist vera heróínsjúklingur. Þessi skrautlegi hópur leggur af stað í ferðalag á heiðgulri rútu til að koma yngsta barninu í fegurðarsamkeppni og að sjálfsögðu fer allt í bál og brand á leiðinni.

_______________________________________________________________

Fjölskyldan í The Royal Tenenbaums er skemmtilega öðruvísi.

Furðufuglar
Persónur í kvikmyndum Wes Andersons eiga alltaf í dálítið furðulegum samskiptum og það á sannarlega við um fjölskylduna í The Royal Tenenbaums. Fjölskyldufaðirinn, Royal, hefur hvorki reynst góður faðir né góður eiginmaður. Þegar hann er loksins búinn að glopra öllu frá sér reynir hann að komast aftur í mjúkinn hjá fjölskyldu sinni, fyrrum eiginkonu og þremur börnum. Í stað þess að biðjast afsökunnar eins og maður þykist hann hins vegar vera með banvænan sjúkdóm og höfðar til samvisku þeirra. Þetta verður óvænt til þess að draga saman alla fjölskylduna – en alls ekki hrakfallalaust.

_______________________________________________________________

- Auglýsing -
The Squid and the Whale fjallar um áhrif skilnaðar á fjölskyldu.

Skilnaður og brestir
Myndin The Squid and the Whale fjallar um áhrif skilnaðar á fjölskyldu. Bernard Berkman er hrokafullur rithöfundur sem var eitt sinn mikils metinn en ferill hans hefur smám saman orðið að engu. Hann starfar sem háskólakennari og verður afar ósáttur þegar ótrú eiginkona hans, Joan, fær ritverk sín útgefin og mjög góðar viðtökur. Þau ákveða þau að skilja og tilkynna það tveimur sonum sínum, Walt sem er sextán ára og Frank sem er tólf. Drengirnir skiptast á að dvelja hjá foreldrum sínum og fljótlega fara þeir að skipa sér í lið með hvoru þeirra fyrir sig. Þessi togstreita hefur gríðarleg áhrif á strákana en foreldrarnir virðast bara hugsa um sjálfa sig.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -