Sunnudagur 16. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Gott að vera einn með kaffibollanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kaffi er ómissandi hluti af íslenskri menningu og Guðrún frá Lundi gerði félagslegu mikilvægi hans góð skil í bókinni Dalalíf. Við fórum á stúfana og spurðum nokkra einstaklinga um þýðingu kaffibollans í þeirra lífi.

 

„Ég er mikill kaffisvelgur og finnst algjörlega ómissandi að byrja daginn á kaffibolla þegar ég vakna, jafnvel áður en ég fæ mér morgunmat,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður og eigandi Lögmannsstofunnar Sævar Þór & partners.

„Mér finnst ég fá aukinn kraft við fyrsta bollann og verkefni dagsins verða auðleyst. Ég drekk mikið kaffi, kannski 5-10 bolla á dag en reyndar minna á frídögum en þá hef ég ákveðna hefð sem ég bregð ekki út af. Ég byrja alla frídaga á því að fara niður í bæ til að fara á kaffihús og fæ mér kaffi til þess að taka með, eins og það er orðað hjá hinum enskumælandi „coffee to go“. Mér finnst eitthvað svo frábært við það að fara út af heimilinu og niður í bæ og byrja á að fá mér bolla á kaffihúsi en þá eru fáir á ferli og ég einn með mínum kaffibolla. Þetta hef ég gert í mörg ár,“ segir Sævar og brosir.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og eigandi Lögmannsstofunnar Sævar Þór & partners.

Hann segist hafa lært seint að drekka kaffi. „Ég byrjaði ekki að drekka kaffi fyrr en ég var 27 ára gamall. Ég var þá deildarstjóri hjá skatteftirlitinu í Reykjavík, ekki það að starfið hafi verið svo leiðinlegt að ég hafi tekið upp á því að drekka kaffi, mér fannst bara kaffi alltaf svo vont en það var venja að starfsmenn sátu saman og drukku kaffi og ég dróst inn í þessa menningu og varð fljótlega mikill kaffisvelgur og finnst ekki kaffi lengur vont. Ég geri miklar kröfur þegar kemur að góðu kaffi.“ Hann segir eiginmann sinn, Lárus Lárusson, vera sinn besta kaffifélaga. „Annars finnst mér alltaf best að vera einn með bollanum mínum, ég get þá talað við sjálfan mig í leiðinni,“ segir hann og hlær.

Bætir í kaffidrykkjuna ef mikið er að gera.

„Ég fæ mér alltaf fyrsta kaffibollann um leið og ég kem í vinnuna en það er um níu að morgni. Fyrsti sopinn veitir mér góða tilfinningu, bæði vegna lyktarinnar af kaffinu og þegar ég finn það streyma um líkamann þá hugsa ég: Þetta verður góður dagur,“ segir Kristín Sigurey Sigurðardóttir, fasteignasali og eigandi 101 Reykjavík fasteignasölu.

- Auglýsing -

„Ég drekk um 5-7 bolla á dag en minna um helgar. Þá drekk ég fyrsta bollann aðeins seinna, strax á eftir morgunverði og fæ mér eitthvað smásætt með honum, svona af því að ég vil gera vel við mig. Ég er stundum algjör kaffisvelgur og þá sérstaklega ef það er mikið að gera hjá mér, þá bæti ég á kaffið,“ segir Kristín og brosir.

Kristín Sigurey Sigurðardóttir.

„Sjálfri finnst mér best að drekka venjulegt kaffi með mikilli mjólk. Ætli það flokkist ekki undir að vera latte-lepjandi 101,“ segir Kristín hlæjandi. „Ég er með vél sem hellir upp á bæði í vinnunni og heima. Vélarnar eru baunavélar og gera báðar mjög gott kaffi. Annars breyti nú ekki mikið út af venjunni um helgar eða á frídögum en ef ég geri það þá panta ég mér cappuccino á kaffihúsum en heima geri ég pressukaffi til tilbreytingar. Síðasti bollinn minn er um sex leytið og þá eftir mjög gott kaffihlé eftir hádegi.“

Eiginkonan kom honum á bragðið

- Auglýsing -

Kaffið spilar mismikla rullu í daglegu lífi Örvars Hallgrímssonar, sjóntækjafræðings og eigandi Plusminus Optic í Smáralind. Stundum er hann kaffisvelgur og stundum getur hann alveg sleppt því að fá sér kaffi, það fer svona eftir andanum hverju sinni.

Örvar Hallgrímsson, eigandi Plusminus Optic í Smáralind.

„Ég er voða rólegur í fyrsta bollann en oftast er það þegar allt er orðið rólegt á heimilinu og allir farnir í skólann.“

 Hvernig líður þér við fyrsta sopann?

„Fyrsti sopinn fer alveg eftir því hvernig ég er stemmdur. Stundum skvetti ég í mig á hlaupum en oftast er þetta bara notalegt og afslappandi.“

Breytast venjurnar eitthvað á vinnudögum miðað við frídaga?

„Nei, ég er alltaf voða rólegur þegar kemur að kaffinu og er ekkert ónýtur þótt ég hreinlega sleppi því. En suma daga er ég skyndilega búinn með 6-7 bolla án þess að taka eftir því. Það er kannski ekkert mikið fyrir suma en það er heldur of mikið fyrir mig, segir frúin.“

Áttu þér kaffifélaga?

„Já, eiginkonuna því það var nú hún kom mér á bragðið. Ég hafði aldrei drukkið kaffi fyrr en ég kynntist henni. Hún var alltaf með kaffi hér og þar og ég fékk mér þá Pepsi eða eitthvað verra. En ég hef komist að því að lífið er allt miklu einfaldara með kaffi.“

Hellirðu sjálfur upp á kaffið eða læturðu vél gera það? Hvernig kaffi finnst þér best?

„Ég var alltaf með uppáhellt og það var bara fínt en eftir að maður fór yfir í góðar kaffibaunir malaðar fyrir hvern bolla þá hef ég bara haldið mig við það. Ég setti alltaf mjólk út í kaffið en nú vil ég ekkert nema svart. Ég er langt frá því að verða bara að fá kaffi en góður bolli getur dimmu í dagsljós breytt.“

En hvað með kaffibollann þinn, hvernig lítur hann út?

„Ég á mér uppáhaldsbolla sem ég er í svona ástarhaturssambandi við. Það er bolli með áletrun stórliðsins Nottingham Forest í Englandi sem hefur ekki getað neitt í langan tíma. Ég byrja yfirleitt snemma á haustin að drekka úr honum og er bara bjartsýnn á gengið hjá liðinu og jákvæður en ég á það til að færa bollann aftast í hilluna þegar líður á tímabilið. En maður stendur samt með sínum mönnum.“

Kaffimenningin hluti af samskiptunum

„Ég fæ mér fyrsta kaffibollann klukkan tíu mínútur yfir níu, stundvíslega,“ segir Fríða Rut Heimisdóttir, hárgreiðslumeistari og eigandi heildsölunnar Regalo. „Það er ástæða fyrir því,“ segir hún brosandi og heldur áfram.

„Við hefjum alltaf daginn í vinnunni á fundi þar sem við förum yfir verkefni dagsins og þar er kaffið ómissandi. Ég hef nú aldrei verið mikil kaffikona og ekki drukkið marga bolla af kaffi á dag en eftir að fengum Nespresso-kaffivélina í vinnuna þá hefur það breyst. Hún er svo þægileg í notkun og býður upp á svo marga möguleika og fjölbreytnin er mikil,“ segir Fríða og segist hlæjandi ekki vera á prósentum.

„Ég fæ mér fyrsta kaffibollann klukkan tíu mínútur yfir níu, stundvíslega,“ segir Fríða Rut.

En hvernig kaffibolla skyldi Fríða eiga? „Hann er glær og mér þykir mjög vænt um hann því ég fékk hann að gjöf frá leynivini í saumaklúbbnum mínum fyrir rúmu ári en þeir voru tveir í kassa og hinn bollann hef ég heima. Mér finnst svo gaman að sjá hvernig vélin hellir kaffinu í bollanum og freyðir mjólkina en mér finnst hún einmitt svo góð út í kaffið sem ég vil ekki hafa of heitt heldur volgt.“

Texti: Unnur Hrefna Jóhannsdóttir
Myndir / Unnur Magna og Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -