Laugardagur 25. maí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Leyndarmál pabba sem særði mig mjög

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Þegar ég var níu ára greindist mamma með krabbamein og lést nokkrum árum seinna. Í kjölfarið komst ég að því að pabbi hafði um hríð átt sér leyndarmál sem særði mig mjög.

 

Framan af átti ég frábæra æsku, var alin upp kaupstað á suðvesturhorninu þar sem ég bjó með foreldrum mínum og tveimur eldri bræðrum. Við vorum þrjár bestu vinkonur sem byrjuðum saman í grunnskóla og lífið var ljúft. Ég æfði fótbolta og var að auki í fiðlunámi og hafði alltaf nóg að gera. Pabbi og mamma voru frekar ung og kraftmikil, bæði í krefjandi störfum ásamt því að taka bæði þátt í ýmsum félagsstörfum. Starf pabba krafðist ferðalaga og fundastands og hann var því reglulega að heiman. Hann og mamma voru hamingjusöm og ég man varla til þess að hafa séð þau rífast. Gagnkvæmur skilningur ríkti í flestu. Mamma var stoð og stytta okkar systkinanna og sá um að rekstur heimilisins gengi upp, að allt sem við þyrftum væri á sínum stað og við öll á réttum stað á réttum tíma.

Erfiðar breytingar

Gríðarlegt áfall var þegar hún greindist með krabbamein í brjósti, ég var ekki nema níu ára gömul og man hvað ég varð strax alveg gríðarlega hrædd. Ég vissi um nokkra sem höfðu dáið úr krabbameini og fyrir mér þýddu þessar fréttir bara eitt – mamma var að deyja. Ég fékk hins vegar strax útskýringar á því að auðvelt væri að meðhöndla krabbameinið, skorinn var fleygur úr brjóstinu og í kjölfarið fór mamma í lyfjameðferð og geisla.

Allt breyttist á heimilinu eftir að mamma veiktist. Mamma sem alltaf hafði verið stoðin og styttan þurfti nú sjálf á umönnun að halda. Meðferðin tók mjög á hana, bæði andlega og líkamlega, og við heimilisfólkið urðum vör við persónuleikabreytingar. Hún fór að verða uppstökk og var oft þung í skapi sem tók mjög á okkur systkinin sem höfðum aldrei upplifað móður okkar þannig. Á þessum tíma var ekki boðið upp á neinn stuðning fyrir aðstandendur og börn krabbameinssjúkra og við vissum ekkert hvernig við ættum að haga okkur. Við börnin skildum ekki af hverju mamma var svona „leiðinleg“ við okkur. Pabbi reyndi að segja okkur krökkunum að reyna að taka tillit til mömmu því hún væri bara veik, og auðvitað vissum við það en skilningurinn var samt takmarkaður. Mér fannst ofsalega erfitt þegar hún missti hárið, þá urðu veikindin svo sýnileg, ekki síst út á við. Krakkarnir í skólanum spurðu mikið út í af hverju mamma væri sköllótt og gerðu grín að því og mér fannst því erfitt að mæta í skólann. Ósjálfrátt kenndi ég mömmu um líðan mína: Hvernig hafði henni dottið í hug að verða svona veik og gera þannig líf mitt svona erfitt?

- Auglýsing -

Undirliggjandi ótti

Það var því mikil hamingjustund hjá okkur fjölskyldunni þegar meðferðinni lauk og í ljós kom að mamma var laus við meinið. Lífið fór að mestu að ganga sinn vanagang þótt yfir okkur hvíldi sá ótti að meinið tæki sig upp að nýju. Sá ótti var nánast horfinn þremur árum síðar þegar mamma kom heim úr tékki einn daginn og tilkynnti okkur að krabbinn væri kominn aftur.

„Pabbi sýndi aldrei að hann væri hræddur, grét ekki fyrir framan okkur krakkana né slíkt. Þegar mömmu leið sem verst reyndi hann eftir fremsta megni að létta andrúmsloftið.“

Fréttirnar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þarna var ég orðin tólf ára og búin að þroskast aðeins meira og hafði ögn meiri skilning á ástandinu. Annað brjóstið var tekið af mömmu og við tók ströng lyfjameðferð og geislar. Til að forðast að mamma yrði skapvond eins og í síðustu meðferð þá gerði ég allt sem ég gat til að hjálpa til á heimilinu og létta undir með henni þannig að þarna var ég í meðvirkni minni strax farin að taka að mér gríðarlega ábyrgð. Mamma varð ofsalega veik í meðferðinni og lá mikið í rúminu. Bræður mínir voru komnir í framhaldsskóla og voru minna heima við. Ég man að ég var stundum fúl yfir því að þeir væru ekki meira heima til að hjálpa til.

- Auglýsing -

Pabbi sýndi aldrei að hann væri hræddur, grét ekki fyrir framan okkur krakkana né slíkt. Þegar mömmu leið sem verst reyndi hann eftir fremsta megni að létta andrúmsloftið. Vegna fyrri reynslu lá við að mínar verstu áhyggjur snerust um að mamma yrði vond í skapinu og missti hárið en auðvitað var ég líka hrædd um hana.

Dýrmætar stundir

Á þessum tíma hugsaði ég aldrei út í hvaða áhrif veikindin hefðu á samband foreldra minna, þau voru bara hjón, sem höfðu gifst og áttu að vera hamingjusöm til æviloka. Ég leiddi aldrei hugann að því hvernig pabba liði, hugsaði mest um mína eigin líðan og svo náttúrlega mömmu. Það var svo greinilegt að henni leið illa, pabbi var fyrir mér bara svona sjálfsagt húsgagn sem var bara þarna fyrir okkur öll.

Meðferðin gekk ágætlega og í lokin var talið að meinið væri horfið en hálfu ári seinna tók það sig upp að nýju. Á næstu árum var mamma mikið á spítala, í lyfjameðferðum, aðgerðum og geislameðferðum. Líf fjölskyldunnar snerist um þetta og við urðum að veikindunum hennar mömmu. Ég tók að mér, ásamt pabba, að sjá um allt. Bræður mínir fluttu alveg að heiman og komu ótrúlega sjaldan heim, að mér fannst, og ég var frekar bitur að „þurfa“ að sjá um allt án allrar hjálpar frá þeim. Þar sem mamma var oft veik þá var innkoma frá henni mjög stopul þannig að pabbi reyndi að vinna eins og hann gat, á meðan hugsaði ég um mömmu.

Á framhaldsskólaárunum fékk ég sérstaka undanþágu til að læra heima þegar mamma var sem veikust. Þetta var auðvitað gríðarlegt álag en ég valdi þetta sjálf og sé alls ekki eftir þessum tíma. Þó að oft væri mjög erfitt þá átti ég margar góðar stundir með mömmu á þessum tíma. Við spjölluðum um allt á milli himins og jarðar og hún sagði mér ýmsar sögur frá unglingsárunum, gömlum sénsum og þegar hún var að kynnast pabba. Pabbi reyndi þó eins og hann gat að láta mig lifa lífinu. Hann hvatti mig til að fara út með vinkonum mínum og ef böll voru fram undan spurði hann alltaf hvort ég ætlaði ekki að skella mér.

Ég er honum þakklát fyrir það því auðvitað gekk ekki upp að ég sem var enn í framhaldsskóla væri heima öll kvöld og allar helgar að hugsa um móður mína. Og auðvitað vorum við ekki í þessu alveg ein, við fengum mikinn stuðning frá stórfjölskyldunni og systur hennar mömmu komu til okkar eins og þær gátu en þær bjuggu í öðru bæjarfélagi.

Auðvitað komu tímar inn á milli sem voru góðir. Mamma náði reglulega góðum árangri og þá vorum við dugleg að gera eitthvað og fórum t.d. þrisvar í frábærar ferðir til útlanda.

Stuðningur í sorgarferli

Síðasta árið sem mamma lifði var hræðilega erfitt. Krabbameinið var búið að dreifa sér um allt og ljóst að ekki varð við neitt ráðið. Mamma varð veikari en nokkru sinni og lá meira og minna í rúminu. Hún varð rosalega erfið og stundum varð það þannig að það var sama hvað við gerðum fyrir hana, það var allt ómögulegt.

Fjölskyldan var okkur ómetanleg á þessum tíma en þar sem mamma vildi vera sem mest heima þá tókum við vaktir til að hugsa um hana. Ásamt heimahjúkruninni þá vorum við pabbi hjá henni til skiptis og svo komu systur hennar mömmu, ásamt vinkonum hennar, reglulega og skiptust á. Meira að segja bræður mínir komu og tóku sínar vaktir ásamt kærustunum sínum.

Án stuðnings alls þessa fólks þá hefði ég líklega farið yfir um. Það var svo erfitt að horfa á þessa sterku konu verða nánast að ósjálfbjarga barni. Ég syrgði hana nánast allt síðasta árið því fyrir mér var mamma eins og ég þekkti hana farin. Seinustu vikurnar var hún hins vegar alveg á spítala og þá tókum við vaktir þar og vorum hjá henni til skiptis þar til yfir lauk.

Annað áfall

Stuttu eftir jarðarförina komst ég að því að pabbi átti kærustu! Ég fékk næstum taugaáfall. Hvað var maðurinn að spá? Við sem vorum nýlega búin að jarða mömmu! Ég fór til pabba og hellti mér yfir hann, ég held að ég hafi aldrei verið jafnreið í lífi mínu, pabbi sagði fátt og bað mig um að reyna að sýna þessu skilning. Það sagðist ég ekki geta með nokkru móti og rauk á dyr.

Þegar ég fór að hugsa málið rann upp fyrir mér að það var eitthvað bogið við þetta. Hafði pabbi bara farið á barinn daginn eftir jarðarförina og fundið sér kærustu? Ég gekk á hann og hann viðurkenndi að hafa kynnst konunni tveimur árum áður en mamma dó og hefði hitt hana annað slagið síðan! Það var eins og ég yrði tilfinningalaus við þessar fréttir. Mér fannst allt vera horfið sem mér þótti kærast. Mamma dáin og pabbi hafði vogað sér að gera henni þetta á verstu stundum lífs hennar.

Ég gekk út og talaði nánast ekkert við pabba í nokkra mánuði. Ég fann að ég varð að koma mér í burtu og fara að hugsa um sjálfa mig til tilbreytingar. Ég skráði mig í nám sem mig hafði lengi dreymt um, í skóla í Evrópu. Þar kynntist ég íslenskum strák sem varð kærastinn minn um tíma og hann á ótrúlega stóran þátt í hversu vel ég náði mér á strik. Hann leyfði mér að tala út í eitt og hvatti mig til að leita mér hjálpar fyrir aðstandendur krabbameinssjúkra. Á sinn ljúfa hátt þá kom hann mér í skilning um að ég yrði að horfa á þetta hjákonustand pabba með aðeins öðrum augun.

Í veikindum mömmu hefði honum væntanlega liðið mjög illa og þurft einhvern algerlega utanaðkomandi til að deila áhyggjum sínum með. Það var eins og ég væri slegin utan undir, ég áttaði mig á því að ég hafði alla tíð blaðrað mikið við pabba um mína líðan og hann hafði stutt mig en nánast aldrei rætt um hvernig sér liði.

Þótt ég fyrirgæfi pabba ekki fullkomlega þá mildaðist ég mikið og sá að nú var kominn tími til að gera þennan kafla í lífinu svolítið upp og horfa fram á veginn. Í dag er ég í góðu sambandi við pabba, kærustuna hans og börnin hennar tvö sem eru á mínum aldri. Þó að ég og kærastinn minn höfum hætt saman er ég honum ævarandi þakklát fyrir allt sem hann gerði fyrir mig á þessum erfiða tíma.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -