2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ostar ómissandi á veisluborðið

  Margrét Ríkharðsdóttir, matreiðslumeistari og yfirkokkur á Bryggjunni Brugghúsi, segir osta vera undir hatti þeirra veitinga sem ómissandi séu í saumaklúbbinn.

  „Flestir ostar eiga það sameiginlegt að vera einfaldir og fljótlegir að tilreiða, því henta þeir ákaflega vel í daglegu lífi þar sem tíminn getur oft verið takmarkaður. Mér finnst gott að bjóða fram eitthvað sem inniheldur kannski ögn meira af mat, til dæmis taco með hægelduðu kjöti sem hægt er að elda yfir nótt og undirbúa kvöldinu áður en ostarnir eru engu að síður ómissandi.

  Bakaður Ísbúi með hunangi og pekanhnetum

  Fullkomið með súrdeigsbrauði.

  ísbúi-ostur skorinn í bita
  hunang eftir smekk
  100 g pekanhnetur ristaðar
  2-3 greinar af fersku timjan
  súrdeigsbrauð

  AUGLÝSING


  Ísbúi skorinn í teninga og settur í eldfast mót og timjani dreift yfir. Bakað við 160 gráður á blæstri í um tíu til fimmtán mínútur þar til osturinn er bráðinn. Hunangi hellt yfir og muldum pekanhnetum dreift yfir. Súrdeigsbrauðið er svo nýtt til þess að dýfa í mjúkan ostinn en rétturinn er bæði einfaldur, ofur fljótlegur og gríðarlega bragðgóður.

  Bakaður geitaostur í parmaskinku á brauði með hunangi eða fíkjusultu

  Sultan og hunangið setja punktinn yfir i-ið.

  geitaostarúlla
  1 pakki parmaskinka
  hunang
  fikjusulta
  snittubrauð eða súrdeigsbrauð
  klettasalat

  Geitaostur er skorinn í bita og vafinn inn í parmaskinku. Bitarnir eru svo bakaðir á blásturstillingu við 160 gráður í um tíu mínútur. Brauð ristað á meðan klettasalat er sett ofan á brauðið og osturinn þar ofan á. Toppað með ögn af fíkjusultu og hunangi.

  Taco með hægelduðum rifnum bjórgrís, BBQ-sósu og mangósalsa

  Þessi réttur er bæði einfaldur og þægilegur og auðvelt að undirbúa með góðum fyrirvara áður en gesti ber að garði.

  Dásamlegur réttur á veisluborð.

  300 g svínahnakki
  litlar hveiti-tortillur skornar til helminga
  1 l bjór, mæli með pale ale eða pilsner frá Bryggjunni Brugghúsi en þeir fást í ÁTVR
  þurrkað krydd eftir smekk t.d einiber, anís, rósapipar
  1 laukur
  2 hvítlauksgeirar
  BBQ-sósa
  klettasalat
  1 mangó
  1/2 rauð paprika
  1/2 rauðlaukur
  1 pakki af ferskum kóríander
  2 límónur

  Best er að notast við eldfast mót eða pott sem má fara inn í ofn. Svínahnakkinn er settur ofan í og bjórnum hellt yfir ásamt lauk og hvítlauk. Þurrkaða kryddinu sömuleiðis bætt saman við og látið malla yfir nóttina í um tíu til tólf tíma á 70 gráðu hita. Slökkt er á ofninum og kjötið látið hvíla eða rifið strax niður.

  Mangósalsa

  mangó
  paprika
  rauðlaukur
  kóríander
  límóna, safinn

  Kóríander smátt skorinn og safi úr límónu kreistur yfir. Hrærið vel saman og saltið og piprið. Kjötið er svo hitað upp og BBQ-sósa er hrærð saman við. Gott er að bæta við nokkrum chili-flögum og bragðbæta með salti og pipar.

  Tortillur hitaðar á pönnu, svo er byrjað á klettasalati þá er kjötið sett út á og svo toppað með mangósalsa. Einnig er hægt að skipta út svínakjöti fyrir nautakjöt eða kjúkling en einnig er gott að fylla taco með oumph.

  Umfjöllunin birtist í 41. tölublaði Vikunnar.
  Myndir / Hákon Davíð Björnsson.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is