Laugardagur 14. september, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ugla Stefanía klökk: „Fallegt að sjá fólk standa saman í þessu máli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það hefur verið ótrúlega fallegt að sjá þingfólk standa saman í þessu máli og kveða burt rökleysuna og tilraunir til að afvegaleiða umræðuna með öfugsnúnum áróðri og öfgum. Það sýnir að fræðsla og vitundarvakning hefur áhrif og það gefur mér orku til að halda áfram,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði sem voru samþykktar á föstudag.

Síðustu daga stóðu yfir umræður um breytingarnar sem miða að því að að tryggja rétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og verja þau gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum. Fáeinir þingmenn gagnrýndu frumvörpin og sögðu þau meðal annars svipta börn sjálfsögðum og lífsbætandi lækningum. Hlutu þeir bágt fyrir. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði gagnrýnina þvætting og uppskar góðar undirtektir í þingsal. Frumvörpin eru nú orðin að lögum.

„Það er ótrúlegt að upplifa þessa samstöðu,“ segir Ugla Stefanía, spurð hvernig hafi verið að sjá þá miklu samstöðu meðal þingmanna þegar þrjú frumvörp ríkisstjórnarinnar sem fela í sér breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Alþingi í föstudag.

„Ég var að horfa á beina útsendingu þegar umræðurnar áttu sér stað og varð satt að segja bara frekar meyr. Mér fannst mjög fallegt hversu margt þingfólk steig upp í pontu og sagðist styðja þetta mál og hversu margt mótmælti útúrsnúningi þess þingfólks sem lagðist gegn því. Í mínum augum sýndi þessi stuðningur að þetta er málefni sem við eigum öll að geta skilið og stutt við, enda snýst það um að Ísland stígi fleiri skref í átt þess að bæta lagalega stöðu trans fólks og intersex fólks. Þetta snýst bara um einföld mannréttindi.“

Ættu að skammast sín

Ugla sem er formaður Trans Íslands fer þó ekki leynt með þá skoðun að þeir þingmenn sem settu sig upp á móti málinu séu, að hennar mati, að stimpla sig inn sem fólk sem setji sig upp á móti miklum umbótum í mannréttindamálum.

- Auglýsing -

„Mér finnst þessi málflutningur einfaldlega vera fólki til skammar, því það er bókstaflega að segja að það sé í lagi að framkvæma óþörf og óafturkræf inngrip á ungbörnum sem geta ekki veitt samþykki fyrir þeim, aðgerðir sem geta leitt til alvarlegs heilsufarsvanda og fylgikvilla,“ segir hán og vísar þar í aðgerðir sem framkvæmdar eru á börnum sem eru intersex, eða með ódæmigerð kyneinkenni, til að laga kyneinkenni þeirra að væntingum um dæmigert útlit og form kvenna og karla. „Hvernig einhver getur barist fyrir slíku er ofar mínum skilningi. Fólk sem það gerir ber sannarlega ekki hag barna fyrir brjósti.“

Hræðsluáróður

Ugla segir síðan rangt að nær engin umræða hafi átt sér stað um þessi mál hérlendis, eins og einhverjir þingmenn héldu fram máli sínu til stuðnings, eða að um sé að ræða „blinda pólitík“, eins og það var orðað, þar sem ríkisstjórnin hafi hvorki tekið mark á vísindum né lækningum þegar hún lagði fram frumvörpun þrjú.

- Auglýsing -

„Þvert á móti hefur heilmikil umræða átt sér stað um réttindamál trans fólks og hinsegin fólks sem hefur verið öllum aðgengileg. Ég held þetta snúist meira um það að fólk sé litað af mjög fjandsamlegum og hatrömmum umræðum um trans málefni, eins og þær hafa verið annars staðar, til dæmis í Bretlandi, sem á sér langa og erfiða sögu þegar kemur að réttindamálum hinsegin fólks. Sögu sem ætti ekki að vera öðrum til eftirbreytni. Ég ætla bara rétt að vona að slík viðhorf nái ekki fótfestu hérlendis, enda eiga þau ekkert erindi í réttlátu lýðræðissamfélagi sem kennir sig við jafnrétti og sanngirni,“ segir hán.

„Þetta snýst bara um einföld mannréttindi.“

„Svo finnst mér líka að fólkið sem hefur hvað hæst um að ekki megi ræða hlutina sé í raun ekki tilbúið að ræða við fólkið sem á í hlut. Og þetta fólk sem er hvað mest á móti þessum breytingum, er oftast nær fólk sem er í engum tengslum við trans fólk eða intersex fólk eða baráttusamtök þess. Því það má svo sannarlega ræða hlutina. Ég held að vandamálið sé bara miklu frekar að þetta fólk er ekki tilbúið að meðtaka svörin þegar kemur að þessum málum og vilji frekar trúa misvísandi áróðri og afturhaldssemi.“

Hán segist hvetja fólk því til að spyrja sig í fullri einlægni hvern eigi að taka alvarlega í þessum efnum: trans fólk, intersex fólk, nútímarannsóknir, sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins, hinsegin samtök, femínísk samtök og mannréttindasamtök almennt — eða fólk sem er lítið sem ekkert inn í þessum málum. „Þessar lagabreytingar byggja nefnilega á staðreyndum, vísindum, sanngirni, jafnrétti og skynsemi,“ bendir hán á, „en ekki hræðsluáróðri, afturhaldssemi eða öfugsnúningi.“

Mynd / Sharon Kilgannon

Enginn undir 18 ára í kynleiðréttingu

Eitt af því sem fór hvað mest fyrir brjóstið á Uglu í vikunni var sú umræða að fólk sem ekki er orðið sjálfráða eigi ekki að geta farið í kynleiðréttingu. Hán segir þessa umræðu einfaldlega sýna að því miður ríki enn mikil vanþekking á þeim stuðningi og þjónustu sem trans börn og unglingar fá á Íslandi.

„Fyrir kynþroska snýst þetta eingöngu um að veita börnunum félagslegan stuðning og leyfa þeim að tjá sitt kyn og sína kynvitund. Það er svo ekki fyrr en á ákveðnu stigi kynþroska að unglingar geta fengið aðgengi að svokölluðum hormónablokkerum, sem þau geta fengið aðgengi að, að vel íhuguðu máli og meðferð hjá sérfræðingum og heilbrigðisstarfsfólki. Þessir hormónablokkerar setja áhrif kynþroska tímabundið á pásu og gefa trans unglingum rými til þess að fóta sig og ákveða hvað þau vilja gera í framtíðinni. Hormónablokkerarnir koma því í veg fyrir líkamlegar breytingar sem valda unglingum djúpstæðri vanlíðan og angist, og kemur í veg fyrir óafturkræfar líkamlegar breytingar sem þau þyrftu annars oft að bera alla ævi,“ útskýrir hán. „Oft er því margra ára undanfari áður en nokkuð er aðhafst.“

„Ég held að vandamálið sé bara miklu frekar að þetta fólk er ekki tilbúið að meðtaka svörin þegar kemur að þessum málum og vilji frekar trúa misvísandi áróðri og afturhaldssemi.“

Eykur lífsgæði barna

Ugla segir að það vilji oft gleymast í þessari umræðu að hormónablokkerar eru fullkomlega afturkræfir og ef unglingar hætta á þeim fari kynþroskinn aftur af stað. „Hormónablokkerar eru lyf sem hafa verið notuð í hátt í þrjá áratugi og voru upprunalega notuð til að hægja á kynþroska bráðþroska barna. Lyfið hefur því lengi verið notað með góðum árangri, og hafa rannsóknir sýnt að þeir hafa gríðarlega jákvæð áhrif á vellíðan trans barna og auka lífsgæði þeirra til muna,“ bendir hán á.

„Þegar unglingar eru svo 16 ára, sem er sá aldur sem við fáum sjálf að ráða yfir eigin heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga, þá geta þau byrjað í hormónameðferð og fengið estrógen eða testósteron. Svo eftir 18 ára aldur geta þau undirgengist skurðaðgerðir ef þau kjósa slíkt. Trans unglingar sem fara þessa leið þurfa því ekki að undirgangast nærri því jafnmörg inngrip eins og til dæmis brjóstnám, brjóstastækkanir, minnkun barkakýlis, andlitsaðgerðir eða hárrótartökur, þar sem hormónablokkerar og síðar hormónameðferðir veita þeim kynþroska sem er í samræmi við kynvitund þeirra. Þetta snýst því fyrst og fremst um það að gera fólki kleift að vera það sjálft.“

Umbætur fyrir fólk sem skilgreinir sig hvorki sem konu né karl

Hér skipti ég aðeins um kúrs og bið Uglu um að útskýra fyrir þeim sem ekki til þekkja til út á hvað upphaflegu lögin um kynrænt sjálfræði gangi eiginlega. „Þessi lög breyttu mjög miklu á sínum tíma, þegar þau voru samþykkt í fyrrasumar,“ svarar hán. „Þau gerðu fólki til dæmis kleift að breyta um nafn og kyn í Þjóðskrá án þess að þurfa að fá leyfi til þess frá heilbrigðisstarfsfólki, en áður fyrr þurfti fólk að hafa „lifað í gagnstæðu kynhlutverki“ í 18 mánuði áður en það gat fengið nafni eða kyni breytt. Þetta var gríðarlega stór réttarbót og gerir það að verkum að fólk getur breytt þessu þegar því hentar,“ útskýrir hán.

„Þetta afnam líka allar kynjareglur þegar kemur að nöfnum og frá og með 6. janúar 2021 getur fólk fengið kynhlutlausa skráningu,“ segir hán og tekur fram að þetta sé mikil réttarbót fyrir kynsegin fólk, eða fólk sem skilgreinir sig ekki sem karl eða konu, sem hefur hingað til ekki verið til í lagalegum skilningi.

Réttindin ekki lengur á fornaldarstigi

„Sömuleiðis breyttu þessi lög líka hvernig heilbrigðisþjónusta fyrir trans fólk er sett upp. Það er ekki lengur gengið út frá því að trans fólk eigi við geðrænan vanda að stríða, sem þurfi að greina og meðhöndla, heldur einfaldlega að fólk þurfi aðgengi að þessari heilbrigðisþjónustu til að koma í veg fyrir langvarandi vanlíðan og heilsufarsvanda. Sömuleiðis var heilbrigðisþjónusta við trans unglinga og börn lögfest, sem er stórt skref í átt að því að fólk fái að vera það sjálft fyrr en áður,“ bendir hán á.

„Lögin tryggðu líka að flóttafólk eða hælisleitendur gætu fengið skilríki í samræmi við kynvitund, burtséð frá hvað önnur skilríki kunna að segja, enda oft ekki hægt að breyta slíku þaðan sem þau koma.

Það má því segja að á heildina litið hafi þessi lög fært réttindi trans fólks af fornaldarstigi og yfir í miklu betra og nútímalegra horf.“

„Það má því segja að á heildina litið hafi þessi lög fært réttindi trans fólks af fornaldarstigi og yfir í miklu betra og nútímalegra horf.“

Gert ráð fyrir að karlar geti gengið með börn

Spurð út í breytingartillögurnar á lögunum sem voru samþykktar á föstudag segir Ugla að þær gangi meðal annars út á að lækka aldurstakmark til að breyta kyni og nafni í Þjóðskrá úr 18 ára niður í 15 ára. „Fimmtán ára aldur er mikill tímamótaaldur í lífi unglinga, því eins og við vitum byrja margir krakkar í framhaldsskóla og það er því mikilvægt að þau geti haft aðgang að þessum breytingum áður en það gerist. Þau þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af því að aðrir nemendur viti gamla nafnið þeirra eða að þau séu „out-uð“ sem trans af skólakerfinu. Þannig að þessi breyting kemur til með að auðvelda þeim skólagönguna.“

Sömuleiðis voru lagðar til orðalagsbreytingar í ýmsum lögum til þess að koma til móts við kynhlutlausa skráningu og afkynja lög sem eru oft og tíðum óþarflega kynjuð. Hugsunin er sú að íslenskt lagaumhverfi taki tillit til trans fólks og til dæmis sé gert ráð fyrir því að trans karlar geti gengið með börn. Þessar breytingar eru allar frekar einfaldar en skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að réttindastöðu trans fólks og intersex fólks.“

Leyfa ekki óþarfa inngrip í líkama barna

Að sögn Uglu er ein stærsta breytingin bann við óþarfa og óafturkræfum inngripum í líkama intersex barna, eða barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. „Það er því verið að veita intersex börnum líkamlega friðhelgi og vernd gegn óþörfum inngripum, sem er stórt frelsis- og réttlætismál,“ segir hán.

„Hingað til hafa verið framkvæmd óþörf inngrip á líkömum unga barna, sem snúast oftar en ekki um það að aðlaga líkama einstaklinga að hefðbundnum kynjaflokkum. Þetta eru hlutir eins og aðgerðir á kynfærum, kynkirtlatökur eða önnur inngrip sem gerir fólk alla jafna háð heilbrigðisþjónustu, skurðaðgerðum eða hormónameðferðum. Þetta getur haft í för með sér langvarandi heilsuvanda, skort á næmni kynfæra eða aðra fylgikvilla sem fylgja fólki alla ævi.“

Lífsnauðsynlegar aðgerðir alls ekki bannaðar

Ugla segir að langflest inngrip séu óþarfi og fólk geti lifað fullkomlega eðlilegu lífi án þeirra. Lögin kveði því á um að þau séu bönnuð þangað til einstaklingar hafi aldur og þroska til að taka ákvarðanir um þær sjálfir. Þetta sé í samræmi við tilskipanir Evrópuráðsins, Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðastofnana.

„Með þessum lögum eru nær öll slík inngrip bönnuð eins og ég segi, að undanskildu því þegar fólk fæðist með þvagrásarop á öðrum stað en vanalegt er eða þegar fólk fæðist með „micro-penis“, eða vanvöxt á typpi. Lögin eiga hins vegar að verða endurskoðuð þegar fram líða stundir og þá verður það aftur tekið til umræðu hvort ekki eigi að leggja bann við slíkum aðgerðum líka. Þangað til er læknum skylt að skrásetja öll slík inngrip og sjá til þess að foreldar og aðstandendur fái réttar upplýsingar og sálfræðiþjónustu.“

Ugla tekur fram að vitaskuld verði inngrip sem eru börnum lífsnauðsynleg ekki bönnuð. Slíkar aðgerðir verði framkvæmdar ef líf barna liggur við. „En þau tilfelli eru bara svo lítið brotabrot af þeim inngripum sem hafa verið framkvæmd hingað til,“ bendir hán á.

Mynd / Sharon Kilgannon

Alltaf þurft að berjast fyrir réttindum okkar

Spurð hvort háni þyki stundum ekki skrítið að árið 2020 sé enn verið að þusa á þingi um það sem mörgum þykir vera sjálfsögð mannréttindi kinkar Ugla kolli. „Jú, það er í raun bara alveg ótrúlegt hvað misvísandi upplýsingar og afvegaleiðslur geta gert til að hægja á svona málum. Því þótt það þurfi að huga að ýmsum lagalegum atriðum, fjármagn sem þarf að tileinka þessum málaflokki og svo framvegis þá ætti þetta auðvitað að vera sjálfsagt mál að koma í gegn. Við ættum ekki að þurfa að ræða það frekar.

En því miður höfum við alltaf þurft að berjast fyrir okkar réttindum, eins og reynslan hefur kennt okkur. Ætli það sé ekki vegna þess að þessi réttindi storka ákveðnum kerfum eða viðmiðum sem er oft erfitt fyrir meirihlutann í samfélaginu að sleppa takinu á eða hugsa um út frá öðru sjónarhorni en hann er vanur að gera.“

Baráttunni langt frá því að vera lokið

Ugla játar að það geti líka tekið á að leiðrétta sífellt ýmsan misskilning sem gæti varðandi málefni trans fólks og intersex fólks. „Það hefur hins vegar verið ótrúlega fallegt að sjá þingfólk standa saman í þessu máli og kveða burt rökleysuna og tilraunir til að afvegaleiða umræðuna með öfugsnúnum áróðri og öfgum. Það sýnir að fræðsla og vitundarvakning hefur áhrif og það gefur mér orku til að halda áfram.“

„Það hefur hins vegar verið ótrúlega fallegt að sjá þingfólk standa saman í þessu máli og kveða burt rökleysuna og tilraunir til að afvegaleiða umræðuna með öfugsnúnum áróðri og öfgum.“

Hán tekur fram að baráttunnni sé þó langt frá því að vera lokið. „Við eigum enn eftir að stíga skrefið til fulls þegar kemur að málefnum intersex fólks. Ákveðnir hlutar lagana verða endurskoðaðir á næstu árum og ég vona bara að það gefi okkur þá tíma til að kafa enn dýpra í þessi mál og stíga skrefið til fulls að lokum.

Lög geta sömuleiðis líka bara tekið á ákveðnum þáttum en það er mikilvægt að þeim sé fylgt eftir og að heilbrigðiskerfið taki sig á og vinni sitt starf út frá fremstu verklagsreglum í þessum efnum. Það skiptir máli að þetta sé í stöðugri endurskoðun og þróun og að nægt fjármagn sé til í málaflokkinum til þess að tryggja það.“

Mikill sigur

Ugla segir að á heildina litið sé þetta auðvitað mikill sigur og viðurkenning á því starfi sem hún hefur lagt fram og allir aðrir sem áttu þátt í gerð frumvarpanna þriggja. „Þessi lög eru afrakstur margra ára vinnu sem hópur fólks tók þátt í og það er frábært að sjá þetta loksins verða að veruleika. Frumvörpin eru unnin af mikilli fagmennsku og í samráði við alla helstu aðila og ég leyfi mér að fullyrða að þau séu einna vönduðustu lög hvað þessi mál varðar sem hafa komið fram á síðustu árum, alla vega upprunalegu lögin. Að mínu mati erum við að stíga nokkur skref fram á við og ég hlakka til að sjá þau þróast áfram.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -