Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Við getum stjórnað draumum okkar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Okkur dreymir öll en munum ekki endilega draumana. Við getum þjálfað okkur til að muna og einnig hafa áhrif á draumana. Það er hægt að breyta þeim og það kemur fram hér í frásögnum þriggja íslenskra kvenna sem tókst að breyta endurteknum draumum sínum.

 

Ekki er mjög langt síðan farið var að rannsaka drauma á vísindalegan hátt en vísindamenn eru þó ekki allir sammála um af hverju fólk dreymir.

Samkvæmt vísindum er ekkert yfirnáttúrulegt við drauma. Þeir eru starfsemi hugans í svefni, á sama hátt og hugsanir okkar eru starfsemi hugans í vöku, segir á Vísindavefnum. Þar segir einnig að ein hugmynd sé að draumar séu hreinlega afleiðing af þeirri miklu heilavirkni sem á sér stað í svefni. Í REM-svefni sé heilavirkni mikil og draumar sömuleiðis algengir. Ein kenningin sé að í REM-svefni styrkist nýjar minningar og tengist við eldri. Þess vegna skýrist algengi drauma á þessu svefnstigi ef til vill einfaldlega af því að verið sé að „taka til“ í heilanum. Draumar verði því til vegna starfsemi heilans í svefni.

Skírdreymi

Stigið sem kallast lucid-dreaming, eða skírdreymi á íslensku, er þegar við erum meðvituð um að okkur sé að dreyma, ekki ósvipað því að vera á milli svefns og vöku. Draumar á skírdreymisstiginu hafa áhrif á líkamann og ljúfur draumur gæti því dregið úr kvíða og streitu. Á þessu stigi svefnsins gætum við einnig fengið ýmiss konar hugljómun.

Fólk sem fær oft martraðir ætti að geta þjálfað sig til að stöðva drauminn og vakna strax. Eða, eins og kemur fram í einni reynslusögunni hér, breyta martröðinni meðvitað.

- Auglýsing -

En til að breyta draumum sínum þarf að muna þá og ráð til þess er að endurtaka nokkrum sinnum hvert kvöld fyrir svefninn: „Ég ætla að muna það sem mig dreymir.“

Þegar þú finnur að þetta ber árangur geturðu farið að stjórnast í draumunum. Ef þú þarft að leysa vandamál skaltu hugsa um það fyrir svefninn og láta það vera þína síðustu hugsun áður en þú fellur í svefn. Ef vandamálið tengist manneskju skaltu hugsa um hana. Gott er líka að æfa í huganum sérstaka senu yfir daginn til að hún birtist í draumum þínum, eins og samtal eða aðstæður. Á meðan þú sefur reynir undirmeðvitundin nefnilega að leysa málið.

Ef þú ert myndlistamaður sem hefur misst andagiftina sjáðu fyrir þér auðan striga áður en þú festir svefn. Rithöfundur með ritstíflu gæti fundið nýjan flöt á söguþræði eða komist áfram með bókina með því að láta sig dreyma um það … og svo framvegis. Það eru engar takmarkanir nema eigið ímyndunarafl.

- Auglýsing -

Haltu endilega draumadagbók. Áður en þú opnar augun skaltu rifja drauminn vel upp til að þú gleymir engu og skrifaðu drauminn niður. Smám saman finnurðu tengingu á milli draumanna og getur farið að lesa í merkinguna.

Laus við martraðirnar

„Í vöku er ég ekkert sérlega lofthrædd en hins vegar snerust allar martraðir mínar árum saman um einhverjar hremmingar sem ég lenti í þegar ég var að klifra óvarin utan á alls kyns húsum við óöruggar aðstæður. Ef ég var undir álagi sóttu þessar martraðir frekar á mig. Þegar ég gekk í gegnum erfitt tímabil í lífinu, skilnað og sársaukafullan missi kvað sérlega rammt að þessum ósköpum og ég var farin að kvíða því að fara að sofa. Draumarnir voru hræðilega skýrir, þótt ég vissi hálfpartinn af því að mig væri að dreyma. Ég byrjaði að klifra upp stillansa, eða jafnvel upp eftir veggjum með því að halda mér í syllur og ójöfnur, og ég er alls ekki íþróttamanneskja og dytti ekki í hug að taka upp á svona löguðu í vöku. Mig dreymdi aldrei nákvæmlega að einhver væri að elta mig en það hlýtur samt að hafa verið svo því ég varð að gera þetta. Stundum fór ég utan á svölum í mikilli hæð á háhýsum og þá lárétta leið en oftar var ég að klífa upp byggingar og það var hátíð ef ég hafði stillansa til að halda mér í. En jafnvel þá var ég skíthrædd og sá hræðilega raunverulegt landið fyrir neðan mig. Oftast voru það steypt bílaplön og eitthvað sem var sjálfgefið að myndi drepa mig ef ég dytti.

Fjölbreytnin í þessum draumum eða martröðum var óendanleg og hræðslan var þannig að ég hrökk stundum upp með andfælum en gat samt ekki losað mig út úr draumnum og þurfti að halda áfram að sofa og glíma við þessa erfiðu áskorun.

„Ef ég var undir álagi sóttu þessar martraðir frekar á mig.“

Mikil tilviljun olli því að mér tókst að rjúfa þennan vítahring. Ég var í langri lestarferð í Mið-Evrópu og það var farið að líða á kvöldið. Þessi lest var með klefum, ekki þó svefnklefum, og með mér í klefa var kona nokkuð eldri en ég, frá Bandaríkjunum. Hún var, eins og margir Kanar, mjög skrafhreifin, og búin að segja mér hálfa ævisöguna, frá skilnuðum tveimur, hvað táningsdóttir hennar hataði hana og hvað hún væri rosalega flinkur sálfræðingur. Ég kemst yfirleitt í vörn þegar ég sit með svona opinskáu fólki en þegar leið nærri miðnætti stakk hún upp á að við legðum okkur á þokkalega þægilegum sætum í þessum klefa, þrjú sæti hvor.

Af einhverri rælni fór ég að segja henni að ég væri stundum hálfkvíðin að fara að sofa þegar ég væri mjög þreytt og undir álagi, eins og í þessari ferð, vegna þessara martraða sem sæktu á mig. Hún bað mig að segja sér mjög nákvæmlega frá draumunum og ég sá ekkert því til fyrirstöðu. Hún hlustaði af athygli og greip ekkert fram í, eins og ég hefði búist við, og þegar ég lauk frásögninni fann ég að ég var orðin talsvert miður mín. Hún greip um báðar hendurnar á mér, nokkuð sem mér fannst fullmikil nánd, hallaði sér fram og horfði í augun á mér. „Viltu losna við þetta?“ spurði hún. „Já, auðvitað,“ svaraði ég, svolítið snúðugt. „Hlustaðu þá,“ sagði hún með mjög sefandi röddu. „Það sem þú þarf að gera er að „fara inn í drauminn“ og fara eins nákvæmlega gegnum dæmigert ferli, þangað til þú kemur að þeim hluta þar sem þú ert hræddust. Þá skaltu fara aftur út úr draumnum og hugsa þér hvernig þú getur leyst þetta af hendi þannig að þú sért ekkert hrædd og komir út úr draumnum sem sigurvegari. Lausnin þarf að vera sennileg en alls ekki sönn.

Þú verður sjálf að finna út úr því hvað hentar þér best, en það gæti til dæmis verið að þú minntir sjálfa þig á að þú hefðir fengið sérstaka þjálfun í klifri og værir meistari í því, værir með hanska sem væru alveg öruggir við þessar aðstæður, eða að þegar þú horfðir niður þá áttaðir þú þig á því að þú værir ekki svona hátt uppi eins og þú hélst, heldur bara tæpan metra frá jörðu. Farðu aftur og aftur í gegnum þessa atburðarás eftir að þú ert búin að snúa henni þér í hag, svo þú gleymir henni örugglega ekki. Þá mun þessi draumur vera auðveldur þegar hann sækir næst á þig og smátt og smátt, líklega fljótlega, hættir þig að dreyma þetta.

Ég hugsaði með mér að það sakaði ekkert að láta reyna á þetta og fór að upphugsa hvernig mín saga yrði. Merkilegt nokk þá hentaði mér best að telja sjálfri mér trú um að ég væri haldin ofurkrafti sem gerði svona ferðalög utan á húsum að skemmtun í staðinn fyrir ógnina sem hafði fram til þessa steðjað að mér. Því oftar sem ég fór í gegnum atburðarásina, þeim mun sennilegri fannst mér hún og ég var búin að máta þetta „trikk“ við næstum allar aðstæður sem ég mundi eftir að höfðu komið upp í draumunum vondu.

Á hóteli mínu í áfangastað, eftir þungan dag í vinnutengdum verkefnum, lagðist ég til svefns. Ég gætti þess vel að fara yfir „söguna“ mína áður en ég fór að sofa, og eins og við var að búast fór draumurinn af stað einhvern tíma undir morgun. Og ég vissi hálft í hvoru að mig var að dreyma en nú leysti ég með miklu stolti hverja klifurþrautina af annarri og vaknaði bara nokkuð ánægð með sjálfa mig og mjög meðvituð um að nú hefði ég notað þessa ótrúlegu tækni, sem mér fannst hálffjarstæðukennd þegar ég heyrði þessa konu segja mér af henni, en virkaði í fyrstu tilraun. Ég ætla ekki að líkja líðan minni daginn eftir við það sem hún hefði verið, hefði ég vaknað af martröðinni eftir ítrekaðar tilraunir eins og svo oft áður fyrr. Ég segi ekki að ég hafi hlakkað til að detta í þennan draum aftur, enda fór svo að hann yfirgaf mig eftir dálítinn tíma. En vanlíðanin var horfin. Vitneskjan um að ég þekki aðferð til að losa mig úr þessum aðstæðum hefur styrkt mig og gert líf mitt auðveldara á álagstímum.“

Tókst að stöðva sjóganginn

„Ég þjáðist af sjóveiki sem barn og kveið því mikið að þurfa stundum að taka Akraborgina. Þessi kvíði elti mig inn í drauma mína og iðulega dreymdi mig að ég væri um borð í ferjunni í miklum sjógangi með tilheyrandi veltingi og vanlíðan. Eina nóttina sem oftar dreymdi mig þennan draum nema þá virtist ég gera mér grein fyrir að mig væri að dreyma því ég sagði upphátt í draumnum: „Æ, nei, ekki þessi draumur aftur.“ Við þetta kyrrðist sjórinn og veltingurinn hætti. Mig dreymdi þennan draum aldrei aftur. Ekki hefði mig grunað áður en þetta gerðist að hægt væri að hafa áhrif á drauma sína.“

Óskýrar óskir

„Skömmu eftir útför föður míns dreymdi mig hann. Við töluðum ekki mikið saman en það var svo mikill hamingjuhljómur í rödd hans að ég vaknaði mun glaðari og sáttari. Mig hefur ekki dreymt hann síðan. Þegar uppáhaldssystir mín lést, tæpum tuttugu árum síðar, átti ég von á að mig dreymdi hana fljótlega sem gerðist þó ekki. Rúmu ári eftir að hún dó ákvað ég með sjálfri mér þegar ég lagðist í rúmið að það væri löngu tímabært að mig dreymdi hana. Um nóttina fannst mér einhver segja að mig dreymdi hana oft, ég bara myndi ekki eftir því.

„Rúmu ári eftir að hún dó ákvað ég með sjálfri mér þegar ég lagðist í rúmið að það væri löngu tímabært að mig dreymdi hana.“

Ég vildi muna og nokkrum kvöldum seinna sofnaði ég með þann ásetning og í þeim draumi sá ég systur mína úr fjarlægð. Næsta kvöld hugsaði ég sterkt um að mig langaði að heyra í henni. Þá um nóttina dreymdi mig að ég heyrði rödd hennar en röddin barst frá ókunnri konu. Meiri stælarnir í undirmeðvitundinni, hugsaði ég. Ég gafst upp í bili en fannst þó magnað að getað stjórnað draumum mínum á þennan hátt. Næst þegar ég geri þessa tilraun ætla ég að forma hugsanir mínar betur, hafa óskir mínar skýrari. Nú veit ég að ég get haft áhrif á það hvað mig dreymir og mér finnst það frábær uppgötvun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -