Fimmtudagur 12. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Gin rennur ekki bara ljúflega niður, það er líka gaman að lesa sögur af því

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

G&T, maður er hættur að tala um „gin og tónik“, er vinsælt sem aldrei fyrr og undanfarin ár hefur átt sér stað svolítil bylting í kringum þennan vinsæla drykk. Fjölbreytnin er nú miklu meiri en áður þegar einungis nokkur merki á markaðnum voru það eina sem fékkst.

 

Miklar hefðir eru í kringum gin og þekkt er sagan um tónik með kínín sem átti að vera gott gegn malaríu en til að gera það þolanlegt var gini blandað saman við það. Í hugum margra er fátt breskara en G&T þegar kemur að því sem var kallað „long drink“. Samt sem áður var gin ekki breskt í upphafi, heldur hollenskt og liggur merkileg saga á bak við nafnið. Hollendingar voru fyrst og fremst sjófarar og verslunarmenn og höfðu lært af márunum á Spáni að eima vín, í upphafi til að leysa virk efni lækningajurta og gera þau virkari.

Fyrst er einiberjabrennivín nefnt til sögunnar á 13. öld og er það tengt við eiginleika einiberja sem menn þekktu vel, meðal annars fyrir róandi eiginleika sem gögnuðust gegn hitaköstum. Þessi þekking nýttist enn með góðu móti þegar stríð og átök á milli konungsríkja geisuðu á 15. og 16. öld, sérstaklega á milli Hollendinga, Englendinga og Frakka – og var framleiðsla gins alfarið í höndum aðila í Hollandi fram að 17. öld. Þangað til Vilhjálmur frá Orange, sem fæddist sem prins í Hollandi, tók yfir konungsdæmið í Englandi, Skotlandi og Írlandi árið 1689. Gin fylgdi honum yfir Ermarsundið og ekki var aftur snúið, því það varð strax vinsælt og fljótt einn af aðaldrykkjum Englendinga, en þá ekki lengur sem lækningablanda, heldur sem ódýr vímugjafi fyrir fátækasta hóp Breta, og gæðin voru léleg.

Gindrykkja var orðin svo mikið heilsufarslegt og samfélagslegt vandamál í borginni að það kallaði á löggjöf sem beindist eingöngu að gini.

Hægt var að framleiða gin án þess að hafa sérstakt leyfi til þess, og á sama tíma (það var jú stríð við Frakkland) voru himinhá gjöld lögð á franskt koníak. Í byrjun 18. aldar, voru margar litlar ginbúðir á götum Lundúna sem tóku við byggi sem var ekki af nógu góðum gæðum, til að brugga bjór úr, en hentaði vel í ginbruggtækin. Svo var gin, sem mátti löglega eima í heimahúsi, bragðbætt með ýmsu sem þætti ekki drykkjarhæft í dag eins og terpentínu (trjákvoðubragð), brennisteinssýru (gerir gin sætara) og ýmsu öðru. Gindrykkja var orðin svo mikið heilsufarslegt og samfélagslegt vandamál í borginni að það kallaði á löggjöf sem beindist eingöngu að gini. Sett voru lög, svokölluð „Gin Act“, árið 1736 en þá var settur hár skattur á ginið sem olli allsherjar uppþoti á götum Lundúna og smám saman lækkuðu skattarnir og voru felldir niður árið 1742.

Myndin Gin Lane eftir William Hogarth.

Önnur Gin Act-lög voru sett árið 1751 sem virkuðu betur þar sem framleiðendur máttu einungis selja smásöluaðilum með tiltekið leyfi. Á þeim tíma var samt hægt að fá gin sem var ólöglega framleitt og ódýrara. Lítið fór fyrir afgreiðslulúgunni þar sem ólöglega ginið fékkst en það var merkt með kattarspori – þaðan kemur nafnið Old Tom-gin sem hefur svo fest sig við ákveðna sætari tegund af gini.

Gintegundirnar eru margar, London Dry er langalgengast, svo distillef-gin. Old Tom er að koma aftur en Himbrimi er einmitt dæmi um slíkt hér heima en það er með jurtablöndu, og svo hafa nýlega komið nýir straumar þar sem gin frá örbrugghúsum er bragðbætt með jurtum og eimað eins og koníak eða víski. Samkvæmt lögum má kalla gin alkóhól sem er eimað úr landbúnaðarafurðum, áberandi bragðbætt með einiberjum, og er minnst 37,5% í ESB og 40% í Bandaríkjunum. Gin er nú framleitt um allan heim en í Hollandi og Belgíu heitir það enn génever og er einmitt oft nefnt afi ginsins.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -