Lögreglunni barst tilkynning frá íbúa í hverfi 108 seint í gærkvöldi vegna manns sem hafði tvívegis haft hægðir í húsasundi. Lögregla fór á vettvang og sá hægðirnar en gerandinn var á bak og burt. Ekki liggur fyrir hvað manninum gekk til. Í miðborginni sinnti lögregla útkalli í verslun en þar hafði einstaklingur tekið upp á því að kasta vörum í gólfið. Þegar í verslunina var komið var skemmdarvargurinn á bak og burt.
Tveir menn voru handteknir í tengslum við innbrot í miðbæ Reykjavíkur og báðir gista fangageymslur. Þá sinnti lögregla umferðareftirliti en tilkynningar vegna umferðarslysa voru nokkuð tíðar í gærkvöldi. Í flestum tilvikum slasaðist fólk lítillega eða ekkert en í einu tilviku voru tveir fluttir á spítala til aðhlynningar.