„ÞESSI SÁRA ÆSKUMINNING (SEM VIÐ EIGUM ÞVÍ MIÐUR SVO MÖRG) Ég er sex ára. Ég er á fótboltaæfingu í Þrótti. Við æfðum í gamla Hálogalandi Og eins og alltaf þá var ég síðastur í sturtu og síðastur að klæða mig í fötin.“ Þannig hefst frásögn Jóhanns Hlíðars Harðarsonar, fréttamanns en hann opnar sig um afar sára æskuminningu í nýrri Facebook-færslu.
Fjölmiðlamaðurinn Jóhann Hlíðar Harðarson skrifaði gríðarlega sterka en sára frásögn niður og birti á Facebook en þar segir hann frá minningu frá því hann var aðeins sex ára gamall.
Í færslunni segir hann frá því er hann var sex ára gamall í íþróttaklefa ásamt vini sínum Svenna. Inn kom maður í svörtum jakkafötum með bindi og biður Svenna að fara út svo hann geti rætt við Jóhann. Svenni hlýddi og beið frammi. Á meðan misnotaði svartklæddi maðurinn Jóhann, allt þar til vinur hans kallaði til hans. Fjórum árum síðar endurtók níðingurinn glæpinn en á öðrum dreng í það skiptið, í sundklefa.
Jóhann Hlíðar segist stíga fram núna með frásögnina vegna þess að honum finnst sem fólk trúi ekki alltaf fólki og telur það vera skyldu sína að segja frá „ofbeldi skrímslanna í okkar samfélagi.“
Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan en viðkvæmir eru varaðir við lestrinum.
„ÞESSI SÁRA ÆSKUMINNING (SEM VIÐ EIGUM ÞVÍ MIÐUR SVO MÖRG) Ég er sex ára. Ég er á fótboltaæfingu í Þrótti. Við æfðum í gamla Hálogalandi Og eins og alltaf þá var ég síðastur í sturtu og síðastur að klæða mig í fötin. Ég þurfti alltaf að tala svo mikið, spjalla við strákana. Svenni, besti vinur minn, beið samt alltaf eftir mér. Svo voru allir farnir. Nema Svenni, sem bara beið, fullklæddur og þolinmóður, á meðan ég þusaði og rétt kominn í nærbuxurnar. Þá kom hann inn. Fullorðinn maður. Í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með bindi. „Eruð þið einir hérna strákar?“ „Já, nei, húsvörðurinn er hérna einhvers staðar.“ „Heyrðu vinur,“ sagði maðurinn í jakkafötunum við Svenna, „farðu aðeins út fyrir, ég ætla að spjalla við vin þinn.“ Og Svenni hlýddi. Í hönd fóru 100 ár. Lengstu augnablik ævi minnar. „Leyfðu mér að hjálpa þér að klæða þig.“ Svo tók maðurinn í svörtu jakkafötunum til við að klæða mig. Hann þreifaði á typpinu á mér og hann þreifaði á rassinum á mér. Hann stakk fingrinum upp í rassinn mér. Hann girti mig upp og hann girti mig niður. Hann klæddi mig úr nærbuxunum og hann klæddi mig í nærbuxurnar. Hann strauk mér alls staðar. Ég missti alla tilfinningu í líkamanum. Hann var alls staðar. Ég vissi að ég var að deyja. Og það tók svo langan tíma. Og það var svo vond lykt af honum. Hættu. Hættu. Hættu. En ég sagði ekki orð. Ég var bara sex ára. 100 árum síðar kom Svenni í dyragættina: „Jói, ertu ekki að koma?“ Það kom fát á svartklædda manninn í jakkafötunum, hann stóð upp frá því sem hann var að gera litlu barni og þusti út. Ég klæddi mig í þögn, og við gengum út, Svenni besti vinur minn og ég. Fyrir utan sat maður í hvítum Volkswagen í svörtum jakkafötum og horfði á okkur. Það er fáránlegt að muna eftir þessu, en sumu man barn bara eftir. FJÓRUM ÁRUM SÍÐAR Ég var á sundnámskeiði í Austurbæjarskóla, hjá Jóni Inga, sem margir af minni kynslóð muna eftir. Með góðum vini. Eftir námskeiðið fórum við niður í Sundhöll, bara til að hanga. Svona eins og 10 ára strákar gera. Hvítur Volkswagen ekur upp að Sundhöllinni. 4 ár verða að 100 árum. Hann stígur út. Og það er svo skrýtið, ég þekkti hann um leið. Hann labbar að okkur. „Eruð þið einir?“ „Já.“ „Komdu aðeins með mér,“ segir hann við vin minn. Vinur minn hlýðir og eltir hann inn í búningsklefann. Ég ákveð að elta. „Nei, þú skalt bíða frammi, vinur.“ Og ég hlýði. Eins og Svenni um árið. Og ég varð svartur í huganum. Í 100 ár. Við þögðum alla leiðina heim í strætó. Ekki eitt orð. Ekki eitt orð í mörg ár. Ekki eitt orð. Svo fórum við drekka brennivín á unglingsárunum. Eitt kvöldið segi ég við vin minn: „Manstu þegar við vorum á sundnámskeiði og maðurinn fór með þig inn í búningsklefann í Sundhöllinni?“ „EF ÞÚ MINNIST Á ÞETTA EINU SINNI ENN ÞÁ DREP ÉG ÞIG!“ Skilaboðin voru skýr og ég ræddi þetta aldrei aftur. Svo liðu árin, ég ræddi atvikið í Hálogalandi einu sinni við Svenna, besta vin minn, og hann sagðist muna þetta eins og gerst hefði í gær. En þar við sat. Þegar ég var 22ja ára kynntist ég konu sem síðar varð móðir 2ja eldri barna minna. Eitt það fyrsta sem ég gerði var að segja henni frá þessu. Það fólst í því gríðarleg frelsun, án þess þó að mér fyndist þetta hafa plagað líf mitt gríðarlega, eða ég veit það ekki. Af hverju segi ég frá þessu núna? Ég hef aldrei sett neitt niður á pappír um þetta áður og ég finn núna hvað það er sársaukafullt, ef þetta væri blað en ekki tölvuskjár, þá væri það rennandi blautt í tárum sem ég hef þurrkað úr andlitinu á mér á meðan ég hef hamrað þetta inn. En það er svo oft sem mér finnst að við trúum ekki fólki og það eru svo margir af minni kynslóð og af svo mörgum kynslóðum sem er ekki trúað og það hefur verið níðst á svo mörgum að það er beinlínis skylda mín, og allra þeirra sem hafa mátt þola pínslir og ofbeldi skrímslanna í okkar samfélagi að segja frá því sem við þurftum að þola og upplifa og bera harm okkar í hljóði. Og ég fór alls ekki verst út úr því, en við eigum að segja frá. Mér finnst verst að ég skyldi ekki hafa haft hugrekki til að bera til að segja frá því fyrr. Mér finnst ósegjanlega sárt að segja frá þessu en ég fer inn í nýtt ár með því að rífa plásturinn af þessu sári.“
Jóhann Hlíðar segir í samtali við Mannlíf að hann ætli ekki að ræða málið frekar.