Mannlíf hefur undir höndum gögn sem benda sterklega til þess að Sjónvarpsstöðin Hringbraut hafi gerst brotleg við fjölmiðlalög. Meint brot snýr að þættinum Einfalt að eldast sem frumsýndur var í október 2019. Erindi þessa efnis hefur verið sent til Fjölmiðlanefndar til umfjöllunar.
Tilgangur þáttanna er að afla viðskiptavina fyrir Helgafellrentals, íslenska leigumiðlun á suður hluta Spánar, með því að höfða til eldra fólks á Íslandi. Helgafellrentals greiddi 2.1 milljón króna fyrir dagskrárgerðina ásamt því að fljúga með fimm manns til Spánar og greiða fyrir allan hópinn gistingu. Í hópnum var eldri kona, tengdamóðir sjónvarpsstjóra Hringbrautar, og leikur hún í þættinum konu í fasteignahugleiðingum.
Hvergi kemur fram í þættinum sjálfum eða í umfjöllun á heimasíðu Hringbrautar að um kostaða auglýsingu sé að ræða. Umfjöllun á vef Hringbrautar er merkt fréttahluta. Augljóst er samkvæmt samningi og þættinum sjálfum að tilgangurinn er að freista eldri borgara á Íslandi til að leiga íbúðir í langtímaleigu af einu fyrirtæki, Helgafellirentals. Ýmis einkennileg loforð er að finna í samningum á milli Hringbrautar og Helgafells. Hringbraut lýsir t.d. yfir að þeir muni frumsýna þættina í húsakynnum Félags eldri borgara. Einnig segir í samningnum að styttri kynningum verði sent á eldra fólk í tölvupóstum og nýta heimasíðu félagsins til að kynna hvað Helgafellrentals hefur uppá að bjóða.
Hringbraut ítrekað brotið lög
Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur ítrekað verið sektuð fyrir að brjóta fjölmiðlalög. Árið 2018 var Hringbraut sektuð um tvær milljónir króna fyrir brot á reglum um auglýsingar. Var um fjóra mismunandi þætti að ræða. Braut stöðin einnig gegn hlutlægnisskyldu í tveimur þáttum.
Þá hefur Hringbraut verið harðlega gagnrýnd fyrir að framleitt þátt um Samherja en dagskrárgerðin var kostuð af hinu umdeilda útgerðarfyrirtæki. Hringbraut braut einnig lög árið 2016 þegar stjórnmálaflokkum var boðið að gera kynningarþætti á stöðinni gegn því að kaupa auglýsingapakka. Sjónvarpsstöðin Hringbraut er í eigu Torgs sem einnig gefur út Fréttablaðið og DV.
Hönnuð atburðarás
Í þætti Hringbrautar segir að íbúðir Helgafells séu á góðum kjörum og henti sérstaklega eldra fólki. Á Facebook-síðu Helgafellrentals er þriggja herbergja íbúð í Quesada á 1000 evrur fyrir mánuðinn eða rúmar 150 þúsund krónur. Þykir það í hærra lagi. Á heimasíðu fyrirtækisins er nóttin sögð kosta um átta þúsund krónur.
Í þættinum eru Sigmundur Ernir og tvær eldri konur að mestu í mynd. Atburðarásin fer fram í Quesada sem er á suður Spáni, skammt frá Alicante og Torrevieja.
Áhorfendum er tjáð að til standi að kanna spænskan leigumarkað. Samkvæmt handriti sem Sigmundur Ernir og eigendur Helgafellsrental sömdu í sameiningu er hönnuð atburðarás þar sem tveimur eldri konum er fylgt eftir af þáttagerðarfólki Hringbrautar. Án efa telja sjónvarpsáhorfendur að gömlu konurnar tvær séu í raun og veru í fasteignaleit. En ef rennt er yfir samninginn stendur þetta:
„Hugmynd að þáttum: Við fylgjum tveimur konum eftir í ferðinni, önnur er 75 ára og hin 70 ára frá því að þær fljúga út, verða sóttar á flugvellinum og keyrðar í íbúðina, sá sem afhendir þeim íbúðina fer yfir með allt með þeim inni í íbúðinni og hvaða þjónusta er í boði.“
Guðmundur Örn Jóhannsson, sem stýrt hefur Hringbraut, skrifar undir samninginn. Þess má geta að tengdamóðir hans er annað módelið í ferðinni. Þá segir einnig í samningnum:
„Íbúðin er sýnd, sundlaugarsvæði, læknisþjónusta, veitingastaðir og hvað sé í boði á svæðinu. Konurnar verða reglulega í mynd og þeim fylgt eftir. Sögumaður þáttanna verður Sigmundur Ernir Rúnarsson og mun hann taka viðtal við þá sem koma fyrir í þáttunum. Sigmundur Ernir vinnur handrit með Olav-form áður en haldið er af stað.“
Fasteignasalan Helgafell sem er í eigu Olav-form ehf. er í algjöru aðalhlutverki í þættinum, sem von er eftir að hafa borgað 2.1. milljón og ferja hóp af fólki til Spánar. Það eru áhorfendur ekki upplýstir um né þeir eldri borgarar sem fyrirtækið var að reyna að fá í viðskipti til Spánar með aðstoð Hringbrautar.
Heimildarmaður Mannlífs sem sendi gögn og upplýsingar um gerð þáttarins segir að honum þyki framferði Hringbrautar og fasteignafyrirtækisins skammarlegt og þá sérstaklega í ljósi þess að hvaða þjóðfélagshópi hún beinist að.
„Í þessum „þætti“ reynir Hringbraut undir fölsku flaggi að freista þessa þjóðfélagshóps til að fjárfesta ævisparnaðinum í fasteignir á Spáni.“
Þá segir heimildarmaðurinn að fram komi í þættinum að um skynsamlega fjárfestingu sé að ræða fyrir eldri borgara. En er hægt að treysta upplýsingum sem eru settar fram með þessum hætti? Hann bætir við að verið sé að afvegaleiða áhorfendur.
Dæmið er í hans huga einfalt. Hringbraut fær greitt á þriðju milljón og hópur fólks er flutt úr landi til Spánar til að fara með rullu í leikriti. Tilgangurinn sé að komast í vasa eldra fólks á Íslandi og freista þeirra m.a. með því að frumsýna þáttinn í húsnæði Félags eldri borgara og nýta einnig tölvupóstssendingar.
Sigmundur Ernir, dagskrár- og ritstjóri Hringbrautar, viðurkennir að hér hafi verið á ferðinni kostuð umfjöllun, eins og algengt sé á fjölmiðlamarkaði. Í samtali við Mannlíf taldi hann að umrætt sjónvarpsefni hafi verið merkt sem kynning. „Við merkjum svona yfirleitt ekki sem fréttir. Ef ég man rétt er þetta að minnsta kosti merkt sem kynning í kreditlista, við erum alveg ófeimin við að merkja kynningar. Það má hver hafa sína skoðun en við höfum framleitt fjölmarga kostaða þætti af fyrirtækjum og félögum úti í bæ, í samkeppni við RÚV.“ segir Sigmundur Ernir og bætir við:
„RÚV hefur verið með kostaða þætti án þess að merkja þá, það er bara meira falið hjá þeim. Við höfum feimnislaust stundað þessa iðju. Í þessu skiptir höfuð máli að merkja sem kynningu, það er almenna reglan, og við gerum það eftir bestu vitund. Ef það hefur ekki verið gert í þessu tilviki hefur það verið yfirsjón en ég man ekki betur en það hafi verið.“
Samkvæmt fjölmiðlalögum eru allar lýkur á að Hringbraut, sem er í eigu Torgs, hafi brotið minnst tvenn lög með gerð auglýsingarinnar.
Hér má svo sjá kostaðan þátt Hringbrautar.