Miðvikudagur 17. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Adriana Patricia Sanchez Krieger: „Fólk frá heimalandi þínu vinnur við þrif hér á landi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér var sagt að hér á landi fengi fólk frá heimalandi mínu vinnu við þrif eða við að gæta barna,“ segir Adriana Patricia Sanchez Krieger, efnahags- og markaðsfræðingur, um reynslu sína af því að fara í atvinnuviðtal hjá ráðgjafafyrirtæki sem var eitt það stærsta hér á landi en hún vildi fá starf miðað við menntun sína og reynslu hér á landi; þess má geta að hún stundaði háskólanám í heimalandi sínu, Kólumbíu, og einnig í Mexíkó og Bandaríkjunum. Hún hafði áður komið að lokuðum dyrum hjá stórfyrirtækjum hér á landi eftir að hafa farið í fjölda atvinnuviðtala. Adriana, sem er gift Geir Ólafssyni söngvara, gafst upp á atvinnuleitinni á Íslandi og fékk í fyrra starf sem framkvæmdastjóri markaðsmála hjá VISA í fjórum löndum í Suður-Ameríku. Hún flytur bráðlega til Kólumbíu ásamt sex ára dóttur þeirra Geirs, Önnu Rós, þar sem hún mun verða með skrifstofu í Bogotá og ferðast vinnu sinnar vegna á milli landanna fjögurra. Geir mun svo fara á milli og búa í báðum löndunum. Adriana er með margra ára reynslu úr alþjóðlegum viðskiptaheimi og vann til dæmis sem yfirmaður markaðsmála hjá Santander-bankanum bæði í Suður-Ameríku og á Spáni.

Ég var mjög fókuseruð á starfsferil minn.

„Ég hóf starfsferil minn í bankageiranum í Kólumbíu og vann í 15 ár hjá Santander-bankanum sem er stærsti banki í Suður-Ameríku og sá fimmti stærsti í Evrópu; þar hóf ég alþjóðlegan starfsferil en ég vann í þrjú ár í Kólumbíu, tvö ár í Mexíkó og síðan vann ég hjá bankanum í Madrid á Spáni þar sem höfuðstöðvar hans eru. Ég vann á þessum árum við þróun verkefna á ýmsum mörkuðum svo sem á Spáni, í Portúgal, Brasilíu, Bandaríkjunum og á Bretlandi. Starfsmenn Santander-bankans eru um 183.000 og vann ég meðal annars við framtíðarsýn bankans í öllum löndum þar sem hann er starfræktur og fór þess vegna til ýmissa landa vegna þess verkefnis. Ég var mjög fókuseruð á starfsferil minn; ég var súperkona þangað til ég lenti í „Ólafsson-hvirfilbylnum,“ segir Adriana en segja má að Geir Ólafsson söngvari hafi komið eins og stormsveipur inn í líf hennar á nesinu þar sem eldar gusu upp úr iðrum jarðar í fyrra. Það logaði eldur í hjarta hans daginn sem hann sá Adriana í fyrsta skipti.

Adriana Patricia Sanchez Krieger

O Sole Mio

Árið var 2009. Hrunið hafði leikið Ísland sem og fleiri lönd grátt og vinkona Adriana, Patrica Reyes, stakk upp á að þær færu til Íslands í frí þar sem hér væri ódýrt að vera. „Írlands?“ segir Adriana að hún hafi spurt vinkonu sína. Hún hlær; segir svo að hún elski að fara í heilsulindir en vinkonan hafði sagt að Bláa lónið á Íslandi væri ein sú besta í heiminum.

„Við vorum hérna í 10 daga. Þremur dögum eftir komuna til landsins talaði Patricia um að bestu dúnsængur í heimi væru framleiddar á Íslandi. Ég vissi það ekki. Hún sagði að það væri sérstök verslun við Laugaveg sem seldi slíkar sængur, Dún og fiður. Við fórum þangað og keypti Claudia nokkrar sængur; þetta hefur án efa verið besta sala dagsins. Sagt var að þær yrðu pakkaðar í lofttæmdar umbúðir þannig að auðvelt yrði að fara með þær í flug. Okkur var sagt að starfsmaður myndi koma með sængurnar í Bláa lónið morguninn eftir en við gistum á hótelinu þar alla ferðina.

Þú getur ímyndað þér! „The delivery boy!“

- Auglýsing -

Morguninn eftir vorum við að borða morgunmat; við ætluðum síðan að fara í nudd og ég var ómáluð og með hárið í tagli. Ég leit hræðilega út,“ segir Adriana með áherslu. „Þetta var um klukkan níu um morguninn og allt í einu kom einhver maður inn og fylgdi honum mikill hávaði,“ segir hún en nokkrar konur fóru að tala við manninn og taka af honum myndir. „Þetta var eins og í fuglabjargi. Síðan kallaði maðurinn: „Hver er Claudia Reyes?“ Ég hugsaði með mér „hvílík niðurlæging“. Ég sagði við Claudia að hann væri að leita að henni. Maðurinn kom til okkar og sagðist vera með sængurnar frá Dún og fiður. Síðan leit maðurinn, Geir, á mig og ég leit hræðilega út. Hann sagði okkur síðan að bíða, fór í eldhúsið og heilsaði upp á starfsmenn þar og kom svo aftur til okkar. Vinkona mín spurði hvort hann væri búinn að borða morgunmat og hann sagði svo ekki vera og náði í stól og settist hjá okkur. Ég spurði Claudia á spænsku hvað væri í gangi. Þú getur ímyndað þér! „The delivery boy!“ Í Kólumbíu sest „the delivery boy“ ekki hjá viðskiptavinum. Geir spurði okkur síðan hvaðan við værum og hvað við værum að gera á Íslandi. Hann sagðist vera frægur söngvari og að fólkið hafi þekkt hann þegar hann kom inn. Ég hugsaði með mér „guð minn almáttugur“. Hann horfði mikið á mig og sagði að ég væri fallegasta kona sem hann hefði séð á ævi sinni. Og ég hugsaði aftur með mér „guð minn almáttugur“. Vinkona mín spurði hann um Ísland og hann sjálfan og svo spurði hann mig hvers vegna ég segði ekki neitt. Ég sagði þá „ertu söngvari?“. „Já,“ sagði hann. „Syngdu þá,“ sagði ég. Þá stóð hann upp og byrjaði að syngja O Sole Mio. Ég leit á Patricia og sagði að hann gæti sungið.“

Geir bauð vinkonunum næstu daga meðal annars út að borða og á fótboltaleik. „Við fórum ýmislegt með honum en ég vildi ekki fara neitt með honum ein. Síðasta daginn sagði hann að við tvö þyrftum að tala saman en ég vildi það ekki. Ég sagði að hann væri sennilega hinn dæmigerði söngvari sem væri með öllum konum á eyjunni og að ég hefði ekki áhuga. Ég væri ekki þannig og ég væri ekki að leita að kærasta. Þá sagði hann að hann myndi kvænast mér einn daginn. Mér fannst þessir Íslendingar vera klikkaðir,“ segir Adriana og hlær.

 

- Auglýsing -

Ást í Las Vegas

Árin liðu. Þrjú ár liðu. Adriana og Geir vorum í samskiptum um einu sinni í mánuði: Sendu tölvupóst eða töluðu saman í síma.

„Hann hringdi í mig í janúar 2012 og óskaði mér gleðilegs árs en ég hafði farið að vinna verkefni fyrir VISA í Kólumbíu eftir að hafa unnið á Spáni. Hann spurði hvenær hann gæti komið til Kólumbíu og ég sagði að hann gæti það þegar hann vildi; Kólumbía væri frjálst land og fólk gæti komið þangað sem ferðamenn. Þá sagðist hann vilja vera með mér. Ég sagði að það yrði ekki. Þá sagðist hann koma fram á tónleikum í Los Angeles í febrúar og hann vildi bjóða mér á tónleikana. Ég hafði aldrei komið þangað þannig að ég sló til.“

Fyrst þessi maður fengi áritun til að komast til Bandaríkjanna þá væri hann ekki á lista hjá Interpol.

Og í febrúar hittust þau Adriana og Geir eftir þriggja ára aðskilnað í borg englanna. Áður hafði hún þó gúgglað Geir. „Ég hugsaði með mér að fyrst þessi maður fengi áritun til að komast til Bandaríkjanna þá væri hann ekki á lista hjá Interpol.“ Hún hlær. „Það eru brjálæðingar út um allt og ég vissi í rauninni ekki hver hann er. Ég sagði svo við Geir að hann yrði að bera virðingu fyrir mér og sofa í sérherbergi.“

Hún talar um hvað Geir sé heillandi. Sérstakur. „Ég kynntist honum betur; ekki karakternum sem fólk þekkir sem er partur af „the show“ heldur þessum einstaklingi sem er blíður, elskulegur og vinalegur og ég hugsaði með mér hvað hann væri góður maður. Hann stakk síðan upp á því að við færum til Las Vegas sem við gerðum og þá byrjuðum við að vera saman. Hann sagðist í ferðinni vilja kynnast foreldrum mínum. Úff, hann fór hratt í þetta. Þá sagði hann að ég væri búin að láta hann bíða í þrjú ár og þá sagðist ég vilja kynnast foreldrum hans fyrst. Hann bauð mér þá til Íslands og kom ég hingað í apríl og hitti foreldra hans sem eru yndislegir. Við fórum síðan til Kólumbíu þar sem hann hitti foreldra mína og systur og ég hugsaði með mér hvernig ég ætti að útskýra þetta af því svona gerast hlutirnir ekki í Suður-Ameríku.“

Verkefninu fyrir VISA lauk svo í Kólumbíu og flutti Adriana aftur til Spánar í janúar 2013 til að halda áfram að vinna fyrir Santander-bankann og flutti Geir líka þangað. Hún varð ófrísk árið 2015, dóttirin Anna Rós kom svo í heiminn og árið 2017 gengu þau Adriana og Geir í hjónaband – eitthvað sem Geir hafði sagst ætla að gera eftir stutt kynni árið 2009. Hann vissi hvað hann vildi.

Hvað er ástin í huga Adriana? „Ástin er jafnvægi. Ástin er friður. Ástin er ró. Ástin er sameining. Ástin er að vera með sameiginleg markmið. Mesta ástin er síðan móðurástin.“

Adriana Patricia Sanchez Krieger

Fordómar

Adriana, Geir og Anna Rós fluttu til Íslands og Adriana ákvað að verða heimavinnandi húsmóðir. Eftir eitt ár fannst henni veggirnir á heimilinu vera farnir að þrengja að sér. Hún vildi fara aftur út á vinnumarkaðinn og ákvað að leita sér að vinnu. Og hún vildi leggja eitthvað til íslensks samfélags.

„Ég hugsaði með mér „guð minn góður, hvað hef ég gert?“. Ég elska dóttur mína og ég elska Geir en por favor! Geir sagði að íslensk fyrirtæki myndu slást um mig með mína reynslu. Ég tala spænsku, ensku og portúgölsku af því að mamma er brasilísk og er með alþjóðlega reynslu og hann sagði að ég skyldi ekki hafa áhyggjur. Geir þekkir marga og hann sagðist ætla að hafa samband við fólk í ýmsum fyrirtækjum til að athuga hvort ég fyndi starf. Og þarna byrjuðu hremmingarnar.“

Þá gerði ég mér grein fyrir að viðkomandi hafði verið að falast eftir upplýsingum.

Adriana nefnir sum af stærstu fyrirtækjum landsins sem eru með alþjóðleg tengsl mörg hver og fór hún í mörg atvinnuviðtöl. Hún nefnir jafnvel tveggja tíma viðtöl og hafi hún meðal annars verið spurð hvernig hún hafi unnið og leyst hin ýmsu verkefni og það kom jafnvel fyrir að hún hafi verið beðin um að senda í kjölfarið lýsingu á ýmsum verkefnum sem hún hafði unnið erlendis. Svo var aldrei hringt í hana í kjölfarið. „Þá gerði ég mér grein fyrir að viðkomandi hafði verið að falast eftir upplýsingum varðandi það hvernig ég vann hin ýmsu verkefni. Í einhverju tilfelli var þetta ferli sem stóð yfir í einn og hálfan mánuð! Ég sótti til dæmis um starf þar sem var auglýst eftir sérfræðingi á markaðssviði sem talaði að minnsta kosti tvö tungumál og hefði þekkingu á Suður-Ameríku og Evrópu! „Það er ég!“ Ég komst í viðtal og þá var spurt hvort ég talaði íslensku. Ég sagði svo ekki vera og þá var mér sagt að þetta gengi ekki. Ég sagðist geta lært íslensku. Mér skildist hins vegar að starfið fælist í að fá útlendinga til landsins.

Ég sótti á þessum tíma um störf meðal annars í bönkum, flugfélögum og hjá kortafyrirtæki og svo sagði Geir að ég yrði að skrá mig hjá ráðgjafarfyrirtæki. Það væri málið. Ég fór í tveggja tíma viðtal hjá einu slíku og sagði frá reynslu minni og þekkingu. Starfsmaðurinn þar sagði að það væri hindrun að ég talaði ekki íslensku. Ég sagði að ég væri tilbúin til að læra íslensku. Eftir tveggja tíma viðtal sagðist þessi starfsmaður ætla að vera hreinskilinn: Að til Íslands kæmi fólk frá heimalandi mínu til að þrífa hús eða gæta barna.“

Adriana tárast.

Þögn.

„Þetta var mjög erfitt. Ég tek fram að ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem vinnur við þrif; þetta er mjög erfitt starf sem ég hef aldrei unnið við og hef ekki hugsað mér að vinna við það. Ég gekk menntaveginn og byggði ekki upp alþjóðlegan starfsframa til að þrífa hús. Það sama á við að gæta barna. En ef þetta er það sem mér er boðið upp á á Íslandi þá nei takk.“

Hún segir að Geir hafi beðið úti í bílnum á meðan hún var í viðtalinu hjá ráðgjafafyrirtækinu og fór hún að gráta þegar hún var sest inn í bílinn.

„Geir var bálreiður. Hann sagðist ætla að tala við þennan starfsmann en ég vildi það ekki.“

Adriana segir að hún haldi að þrennt ráði því hvernig viðtökur hún fékk þegar hún sótti um starf hér á landi og hún er varla sú eina af erlendu bergi brotin sem hefur sömu sögu að segja.

Ég er hins vegar að fara að flytja úr landi vegna þess að ég fæ ekki starf við hæfi.

„Í fyrsta lagi eru ríkjandi fordómar á Íslandi sem tengjast því að stór hluti útlendinga sem flytur hingað til lands er fólk sem stendur illa fjárhagslega og kemur til að leita að betra lífi. Margt af þessu fólki er frá fátækum löndum, er jafnvel ómenntað og fer að vinna við þrif eða að gæta barna. Ísland er frábært land til að búa í. Þetta er stórkostlegt land í því tilliti. Ég er hins vegar að fara að flytja úr landi vegna þess að ég fæ ekki starf við hæfi; ef staðan væri önnur þá myndi ég búa hér áfram. Ég er ekki betri en þeir sem flytja til Íslands í leit að betra lífi heldur hef ég fengið fleiri tækifæri í lífinu en flest af þessu fólki; ég hef unnið hjá einum stærsta banka í heimi og gegnt þar ábyrgðarstörfum. „Hvað er hún að vilja upp á dekk?“ gæti fólk hugsað. Ég flutti til Íslands vegna ástar. Ég hitti einu sinni kunningja okkar og var þá spurð hvað kílóið af kóki kosti í Kólumbíu. Ha? ég skil ekki! Coca Cola? Þá var mér bent á að ég væri frá Kólumbíu og að viðkomandi ætti við kókaín. Ég sagðist ekki hafa hugmynd um það.“

Adriana segir að í öðru lagi sé Ísland lítið og fámennt land og að Íslendingar almennt ekki vanir eins stórum alþjóðlegum fyrirtækjum og hún hefur unnið hjá hvað þá vanir erlendum starfsmönnum sem hafa unnið hjá slíkum fyrirtækjum. Og í þriðja lagi segir hún að Íslendingar mættu vera lítillátari; hún segir að margir Íslendingar virðist hrokafullir.

Jú, hún grét í bílnum þar sem Geir beið og hún segir að hún hafi gert sér grein fyrir því að þau viðbrögð og móttökur sem hún fékk hafi ekki skilgreint hana sjálfa svo sem kommentin um það að landar hennar komi til Íslands til að vinna við þrif og að hún hafi verið spurð hvað kílóið af kókaíni kosti. „Þetta er ekki ég; ég er meira en þetta sem manneskja.“

Adriana Patricia Sanchez Krieger

Fátæktin

Faðir Adriana er frá Kólumbíu og móðir hennar frá Brasilíu og talar Adriana spænsku, portúgölsku og ensku. Föðurfjölskyldan á bújarðir og lærði faðir hennar landbúnaðarverkfræði í háskóla í Brasilíu og þar kynntist hann ástinni í lífi sínu, móður Adriana og fjögurra systra hennar, sem var að læra enskar og portúgalskar bókmenntir. Þau gengu í hjónaband og bjuggu í Kólumbíu í nokkrum borgum vegna vinnu fjölskylduföðurins. Og í einni þeirra, Cali, fæddist Adriana Patricia Sanchez Krieger. Svo var flutt til Bogotá.

Föðurafinn og -amman áttu verslun og var Adriana einungis um sjö ára þegar hún fór að hjálpa þeim. Hún segir að þetta hafi verið sitt fyrsta starf. Hlær. „Halló, hvað má bjóða þér?“ Þú getur ímyndað þér að koma inn í verslun þar sem sjö ára barn var að vinna. Þetta var mitt fyrsta starf; alls ekki skrifa að börn í Kólumbíu vinni.“ Hlátur. „Þar er ekki barnaþrælkun; mér fannst bara vera gaman að vera með ömmu og afa og var oft hjá þeim í fríum. Frá því ég var barn vildi ég vinna mér inn pening. Þegar ég var síðar í háskóla fékk ég laun við að aðstoða prófessora.“

Hún segir að draumur sinn sem barn og unglingur hafi verið að ferðast. „Ekki að gifta mig og verða móðir; það var ekki aðalatriðið varðandi framtíðardraumana. Foreldrar mínir lögðu áherslu á að ég myndi mennta mig, ferðast og lifa lífinu og svo gæti ég gift mig og eignast börn. Mig dreymdi um að ferðast og kynnast nýjum stöðum en ég hef meðal annars farið til Kína, Egyptalands, Grikklands, Tyrklands, ég hef farið til Evrópulanda eins og Bretlands, Þýskalands, Portúgals, Spánar, Tékklands og Króatíu og svo hef ég farið til næstum því allra landa í Suður-Ameríku.“

Hún segir að foreldrar sínir séu ekki milljarðamæringar en hafi það gott en það sama er ekki að segja um alla í Kólumbíu þar sem fátæktin er sums staðar mikil og segir hún að þar séu börn sem fái engan mat að borða og að sum þeirra deyi úr vannæringu.

„Það sem ég hef aldrei getað vanist er að sumir Íslendingar kvarta mikið. Það þarf náttúrlega að laga ýmislegt á Íslandi en landið er þó fyrsta flokks. Hér eru mikil lífsgæði, gott heilbrigðis- og menntakerfi og möguleikarnir eru miklir. Og á meðan sum börn hafa ekkert að borða í Kólumbíu þá eru sumir á Íslandi að kvarta yfir því að komast ekki til Tenerife. Þetta er partur af hugsunarhættinum,“ segir Adriana sem tekur fram að hún eigi mjög góða vini á Íslandi sem verði alltaf í hjarta hennar.

Fram undan er fjölskyldulíf í tveimur löndum þótt Adriana muni verja meiri tíma í Kólumbíu heldur en á Íslandi. Anna Rós mun flytja með móður sinni til Kólumbíu síðar í maí og Geir fer með þeim en hann er í framboði fyrir Miðflokkinn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og það fer allt eftir því hvernig honum gengur í þeim slag hversu miklum tíma hann mun verja með fjölskyldunni.

Hún sem fékk ekki starf á Íslandi mun því halda áfram að vinna sem framkvæmdastjóri markaðsmála hjá VISA í nokkrum löndum í Suður-Ameríku með aðsetur í Bogotá í Kólumbíu.

Það að upplifa svona höfnun gerir mann lítillátari.

„Hvað hefur Adriana lært af því að fá þessi viðbrögð hér á landi í atvinnuleitinni? „Lítillæti; það að upplifa svona höfnun gerir mann lítillátari og ég hef lært að það eru hlutir sem ég get ekki breytt. Það er ekki hægt að breyta hugsunarhætti Íslendinga; ég get það allavega ekki. Sumir Íslendingar kvarta og ég mun aldrei skilja það. Ég get hvorki breytt hugsunarhættinum né fordómunum. Ég get ekki breytt ímyndinni. Ég myndi vilja að sumir Íslendingar hugsuðu öðruvísi, ég myndi vilja að þeir sæju það sem ég sé og möguleikana hér en margir þeirra sjá þá ekki.“

Fram undan eru heitir dagar. Adriana bendir á að þar sem Kólumbía er eitt þeirra landa sem miðbaugur liggur um þá séu ekki árstíðir þar heldur breytist hitastigið eftir því í hvaða hæð er um að ræða. „Hitinn er almennt um 35-38 stig niðri við sjó og hærra inn í landinu. Í borgum eins og Medillín er hitastigið um 21 stig og í Bogotá sem er í um 2.600 metra hæð er mun kaldara.“

Adriana talar um gómsætu ávextina sem vaxa í Kólumbíu og svo talar hún um tónlistina og dansinn.

„Ég verð að segja eitt; íbúar í Kólumbíu verða að kunna að dansa. Og það skiptir engu máli hvort fólk dansar vel eða illa. Dansinn er aðferð til að tengjast öðru fólki, kynnast fólki og eignast vini og jafnvel verða ástfanginn.“

Adriana Patricia Sanchez Krieger

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -