Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Æfir minna með betri árangri

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurjón Ernir Sturluson, íþróttafræðingur, þjálfari og markaðs- og kynningarfulltrúi í Sportvörum, er einn af okkar allra sterkustu hlaupurum. Hann tekur þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum sem fram fer í Portúgal þann 8. júní næstkomandi ásamt átta öðrum íslenskum ofurhlaupurum.

Heimsmeistaramótið þetta árið er 44 kílómetra langt með 2.400 metra hækkun. „Það er því óhætt að segja að þetta sé hörkuáskorun þó að þetta kallist stutt hlaup í ár. En þess má til gamans geta að heimsmeistaramótið í fyrra var 88 kílómetrar með 5.000 metra hækkun,“ segir Sigurjón en ásamt honum eru í liðinu þau Þorbergur Ingi Jónsson, Örvar Steingrímsson, Ingvar Hjartarson, Elísabet Margeirsdóttir, Rannveig Oddsdóttir, Anna Berglind Pálmadóttir, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Melkorka Árný Kvaran. Liðsstjóri hópsins er ofurhlauparinn Friðleifur Friðleifsson.

Sigurjón hefur lengi haft áhuga á hreyfingu og mataræði og finnst frábært að geta hjálpað öðrum á því sviði en hann er fjarþjálfari, einkaþjálfari og Boot Camp-þjálfari. Hann er einnig öflugur snappari og sendir út beint frá nánast öllum sínum keppnishlaupum í gegnum Snapchat undir notandanafninu sigurjon1352.

Sigurjón ásamt Katrínu Sigrúnu Tómasdóttur en þau tóku bæði þátt í sólarhringslangri Spartan-keppni í Hveragerði í desember 2018.

„Mitt mesta afrek til þessa er án efa sólarhringslöng Spartan-keppni sem ég tók þátt í hér í Hveragerði í desember 2018, en þá hljóp ég 115 kílómetra með 250 hindrunum og 5.559 metra hækkun,“ segir Sigurjón en þess má geta að þarna var sennilega um að ræða erfiðustu keppni sem haldin hefur verið hér á landi. „Í keppninni var hlaupinn rúmlega 10 kílómetra hringur með 25 hindrunum og þú áttir að hlaupa eins marga hringi og þú treystir þér til á 24 klukkustundum. Mín síðasta stóra áskorun var 74 kílómetra fjallahlaup á La Palma, Spáni, með 4.400 metra hækkun núna 11. maí.“

Sigurjón Ernir tók þátt í 74 kílómetra fjallahlaupi á La Palma í byrjun maí.

Þrátt fyrir að keppa í löngum og krefjandi hlaupum hleypur Sigurjón að meðaltali ekki meira en 20-40 kílómetra á viku. „Mín nálgun á hlaup og æfingar hefur alltaf verið sú að horfa á gæði fram yfir magn og með því að draga úr magni æfinga hefur mér tekist að halda mér frá álagstengdum meiðslum alveg frá því ég byrjaði að hlaupa. Einnig þykir mörgum sem þekkja mig lítið eflaust ansi sturlað að ég sé grænmetisæta og fasta ávallt hluta úr degi en æfi samt þetta mikið og keppi mjög reglulega í krefjandi keppnum.“

„Mín nálgun á hlaup og æfingar hefur alltaf verið sú að horfa á gæði fram yfir magn og með því að draga úr magni æfinga hefur mér tekist að halda mér frá álagstengdum meiðslum alveg frá því ég byrjaði að hlaupa.“

Sigurjón er með góða æfingaaðstöðu í bílskúrnum heima hjá sér.

Sigurjón í hnotskurn

Hvar líður þér best? „Mér hefur alltaf liðið vel í náttúrunni og líður afar vel uppi á fjöllum og þá oftar en ekki í krefjandi fjallahlaupi. Ég á þó til að halda ró minni milli keppna og líður þá vel í faðmi fjölskyldu.“

Bakstur eða eldamennska? „Er ekki bara bæði betra? En ég verð að segja eldamennska þar sem ég hef lítinn tíma í bakstur þessa dagana. Þar sem við verðum öll að borða þá kemst ég ekki upp með að sleppa því alveg að elda.“

- Auglýsing -

Helsti keppinautur á hlaupum? „Hér áður fyrr var það sennilega Þórólfur Ingi en í dag fer hann létt með að sigra mig í götuhlaupunum og því eru það sennilega Ingvar Hjartarson, Örvar Steingrímsson og Guðni Páll Pálsson sem ég keppi mest við í fjallinu.“

Hver var fyrsta vinnan þín? „Fyrsta launaða vinnan mín var unglingavinna í mínu sveitarfélagi þegar ég bjó í Hvalfjarðarsveitinni. En þar sem ég var alin upp í sveit var ég farinn að sinna ýmsum störfum tengdum sveitinni um leið og ég hafði þroska og getu til að sinna slíkum störfum.“

Hvað er það leiðinlegasta sem þú gerir? „Án efa að sitja fastur í mikilli umferð til lengri tíma.“

- Auglýsing -

Hvaða stað á Íslandi langar þig að heimsækja? „Góð spurning, ég hef nú ferðast talsvert hér á landi og komið víða við. En ef ég ætti að velja mér stað til að koma aftur á væri það sennilega Þórsmörk.“

Á hvaða þætti horfir þú? „Ég er nýbúinn að klára Lucifer og hef nú ekki dottið inn í neina þætti eftir þá, einhverjar uppástungur?“

Hvaða sögufrægu manneskju myndir þú vilja hitta? „Ég væri til í að hitta David Goggins, en hann hefur tvisvar farið í gegnum Hell Weekend í Navy Seals-æfingabúðum og er í dag mikill ultra-hlaupari. Án efa harðasta manneskja sem þú finnur og ég mæli með að hlusta á „podcast“ með honum og Joe Rogan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -