Mánudagur 17. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Akureyrarbær hlýtur viðurkenningu sem fyrsta barnvæna sveitarfélagið á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Akureyrarbær varð í gær fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhentu Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á Akureyri.

„Akureyrarbær hefur einsett sér að vera í fararbroddi þegar kemur að réttindum og lífsgæðum barna og þess vegna erum við afar stolt af þessari viðurkenningu. Mig langar á þessum tímamótum að þakka okkar frábæra starfsfólki sem hefur unnið að verkefninu af miklum krafti á öllum stigum sveitarfélagsins og ungmennum sem hafa tekið þátt í vinnunni með okkur. Viðurkenningin gefur okkur aukinn kraft til að halda áfram og gera enn betur í því að búa börnum og ungmennum gott samfélag þar sem réttindi þeirra og rödd er virt. Þessu verkefni lýkur aldrei þótt fyrsti áfangi sé í höfn,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

irna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, Alfa Dröfn Jóannsdóttir, verkefnastýra barnvæns sveitarfélags hjá Akureyrarbæ, Hildur Lilja Jónsdóttir, Ari Orrason, Rakel Alda Steinsdóttir og Embla Kristín Blöndal Jóhannsdóttir, fulltrúar ungmennaráðs Akureyrarbæjar og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Mynd / UNICEF á Íslandi

Í viðurkenningunni felast þakkir til sveitarfélagsins fyrir að hafa unnið markvisst að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins, með hagsmuni allra barna og ungmenna sveitarfélagsins að leiðarljósi eins og segir í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

„Við hjá UNICEF á Íslandi erum ákaflega stolt af Akureyringum og þeim áfanga sem við fögnum hér í dag. Verkefnið Barnvæn sveitarfélög og innleiðing Barnasáttmálans hófst hér fyrir fjórum árum og það hefur verið einstakt að vinna að þróun verkefnisins með starfsfólki Akureyrarbæjar. Fyrir hönd UNICEF á Íslandi langar mig að óska Akureyrarbæ, starfsfólki og ungmennaráði bæjarins og auðvitað öllum börnum á Akureyri innilega til hamingju,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:

Akureyrarbær er nú kominn í hóp valinna sveitarfélaga um allan heim, sem leggja Barnasáttmálann til grundvallar öllu sínu starfi. Viðurkenninguna hlýtur sveitarfélagið til þriggja ára og á það kost á að endurnýja hana að þeim tíma liðnum. Með þátttöku í verkefninu hefur Akureyrarbær rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög á Íslandi og tekið markvissan þátt í þróun verkefnisins á Íslandi frá árinu 2016. Mikill áhugi er meðal sveitarfélaga á að taka þátt í verkefninu, en samtals hefja níu þeirra þátttöku á þessu ári og tólf á því næsta.

Ásmundur Einar flytur ávarp.
Mynd / UNICEF á Íslandi

Aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar vegna þátttöku í verkefninu var einstaklega metnaðarfull og hefur sveitarfélagið innleitt fjölda nýrra verkefna í samstarfi við ungmennaráð sveitarfélagsins. Nokkur dæmi:

- Auglýsing -

Bærinn hefur staðið fyrir árlegum stórþingum til að efla gagnvirkt samtal við börn og ungmenni.

Snjómokstur og strætósamgöngur bæjarins hafa verið endurskoðaðar í samráði við börn og ungmenni.

Sveitarfélagið hefur tekið upp verklag við hagsmunamat út frá réttindum barna við ákvarðanir og stefnumótun sem hefur áhrif á börn.

- Auglýsing -

Rafræn handbók um tilkynningar til barnaverndar og samræmt verklag fyrir alla starfsmenn bæjarins hefur verið kynnt.

hefur verið settur upp svo börn geti sjálf tilkynnt um aðstæður sínar eða annarra til barnaverndarnefnda.

Þrátt fyrir viðurkenninguna er verkefninu þó hvergi nærri lokið. Nú þegar hefur verið byrjað á næsta hring í innleiðingarferli og verður haldið áfram að kortleggja og styrkja stöðu barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Næsta aðgerðaáaætlun er í undirbúningi.

„Frá því ég tók við embætti félags- og barnamálaráðherra hef ég heimsótt Akureyri reglulega til að fylgjast með innleiðingu þessa mikilvæga verkefnis. Akureyrarbær og ungmennaráð Akureyrar hafa sýnt það og sannað að markviss þátttaka barna og ungmenna býr til betri samfélög fyrir alla. Með því að vera fyrsta sveitarfélagið til að innleiða Barnasáttmálann hafa þau rutt brautina fyrir réttindi barna hér á landi. Það er því einstaklega gleðilegt að tilkynna við þetta tilefni að á næstu dögum mun stefna um Barnvænt Ísland, markvissa innleiðingu Barnasáttmálans, verða aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda. Við vonum að sem flestir kynni sér stefnuna og aðstoði okkur við að útfæra hana og gera Ísland að besta stað í heimi fyrir börn,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins. Þróun verkefnisins hófst 2016 og var unnin í samstarfi við umboðsmann barna og jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -