Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Bestu augnablikin og sárustu vonbrigðin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf rifjar upp nokkur af ánægjulegustu sigrunum og sárgrætilegustu vonbrigðunum sem íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur fært okkur áhorfendum í gegnum árin.

Ánægjulegustu augnablikin:

ÓL 2008: 2. sæti

Silfurdrengirnir okkar

Framganga strákanna okkar á Ólympíuleikunum í Peking haustið 2008 vakti víða mikla athygli, enda fátítt að svo fámenn þjóð komist á verðlaunapall í hópíþrótt og hvað þá í sjálfan úrslitaleikinn. Liðið spilaði líklega betur en nokkru sinni fyrr og síðar með Ólaf Stefánsson fremstan meðal jafningja, en fyrirliðinn lét sér ekki nægja að leika listir sínar á vellinum heldur kom hann með einkar sérstök og ástríðuþrungin tilsvör í viðtölum eftir leiki þar sem hvert orðskrípið og súrrealíska tilvísunin rak aðra. Enginn skildi neitt, nema þá kannski helst leikmaðurinn sjálfur, en öllum var sama. #takkoli.

Eftir því sem leið á leikana og fleiri stórþjóðir lutu í gras fyrir íslensku víkingunum stigmagnaðist stemningin heima fyrir og óhjákvæmilega fjölgaði í hópi frægðarfangara. Þeirra mest áberandi var forsetafrúin þáverandi Dorrit, sem lýsti því yfir í beinni útsendingu frá Kína að Ísland væri „stórasta land í heimi“ og bjó þannig til frasa sem þótti hnyttinn, varð vinsæll og skömmu síðar þreyttur. Úrslitaleikurinn fór fram eldsnemma á sunnudagsmorgni og þótt þeir fjölmörgu sem rifu sig á lappir (eða héldu sér vakandi) hafi vissulega orðið fyrir vonbrigðum með tap gegn firnasterku liði Frakka var þjóðarstoltið með 2. sætið ríkjandi tilfinning meðal landsmanna, eins og merkja mátti á málshættinum illskiljanlega „Gott silfur gulli betra“.

Þegar hetjurnar sneru heim frá Peking árið 2008 voru fálkaorður hengdar á leikmenn og þjálfara.

Þegar hetjurnar sneru heim að leikunum loknum voru fálkaorður hengdar á leikmenn og þjálfara, tugþúsundir fögnuðu í miðbæ Reykjavíkur og allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar með tölu tróðu sér upp á svið til að baða sig í sviðsljósinu með silfurdrengjunum, Valgeiri Guðjónssyni og Ladda. Hugsanlega hefðu ráðamennirnir betur eytt tímanum í annað, því mánuði síðar hrundi íslenska efnahagskerfið eins og það lagði sig.

Landvinningar handknattleikslandsliðsins standa þó upp úr frá þessum dimma tíma í sögu lands og þjóðar og er að margra áliti stærsta stund í íþróttasögu Íslands, í það minnsta fram að glæsilegum árangri karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM 2016.

- Auglýsing -

B-keppnin 1989: 1. sæti

Gott gull silfri betra

Það var eitthvað sérlega krúttlegt við þann innilega fögnuð og einlægu gleði sem braust út á Íslandi þegar handknattleikslandsliðið sigraði Pólverja í úrslitaleik B-keppni heimsmeistaramótsins sem haldið var í Frakklandi í febrúar 1989. Engu skipti þótt liðið hefði í raun neyðst til að taka þátt í keppni þeirra næstbestu til að tryggja sér sæti á HM 1990 eftir slakan árangur á Ólympíuleikunum í Suður-Kóreu sumarið áður, við fögnuðum eins og um alvörusigur á HM hefði verið ræða enda var þetta í fyrsta sinn sem Ísland vann til gullverðlauna á alþjóðlegu móti og þjóðin fylkti sér að baki Bogdans þjálfara og Alfreðs Gíslasonar sem var valinn besti leikmaður keppninnar.

- Auglýsing -

ÓL 1992: 4. sæti

Ævintýri líkast

Engin ánægja er eins ánægjuleg og óvænt ánægja, segir í ævafornu máltæki. Það átti sannarlega við um gengi íslenska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992, þegar það tryggði sér 4. sæti þvert á afar hófsamar væntingar. Íslendingar komust bakdyramegin inn á leikana þegar þeim var boðið að hlaupa í skarðið fyrir Júgóslavíu, sem var meinuð þátttaka einungis þremur dögum fyrir mót vegna stríðsátaka í landinu. Flestum að óvörum náði liðið alla leið í undanúrslit, sem var þá besti árangur sem Ísland hafði náð.

Sárustu vonbrigðin:

HM 1995: 14. sæti

Í bláum skugga

Hið litla og stórhuga Ísland sótti um að fá að halda HM í handbolta árið 1993 en fékk þess í stað úthlutað keppninni 1995. Eftir á að hyggja má velta því fyrir sér hvernig farið hefði ef íslenska liðið hefði keppt á heimavelli tveimur árum fyrr, áður en öflugir burðarásar í liðinu lögðu skóna á hilluna. Í öllu falli er ljóst að það var ansi margt sem fór úrskeiðis í HM á Íslandi 1995. Miðasala sem var langt undir væntingum, langdregið karp um bjórsölu og tæknimál og óþolandi lukkudýr, álfurinn Mókollur, voru meðal atriða sem bliknuðu þó í samanburði við slælega frammistöðu íslenska liðsins. Eftir niðurlægjandi ósigur gegn Rússum í 16-liða úrslitum, 12-25, sem var stærsta tap Íslands á HM nokkru sinni, lauk liðið leik í 14. sæti sem var langt undir væntingum.

HM 1974: 14. sæti

Árið 1974 skellti liðið sér í hljóðver og söng inn á stuðningslagið Áfram Ísland! ásamt höfundinum Ómari Ragnarssyni og hljómsveitinni Hljómum.

Ómar og Hljómar

Það var hugur í Íslendingum í aðdraganda HM í handbolta sem haldið var í Austur-Þýskalandi í mars 1974 og stefnan leynt og ljóst sett á verðlaunapall. Liðið hafði marga gæðaleikmenn innanborðs, lék afbragðsvel í æfingaleikjum fyrir mót og leikjaprógrammið á HM þótti lofa góðu. Til að fanga bjartsýnina skellti liðið sér í hljóðver og söng inn á stuðningslagið Áfram Ísland! ásamt höfundinum Ómari Ragnarssyni og hljómsveitinni Hljómum frá Keflavík en þetta var í fyrsta sinn sem ráðist var í slíkt verkefni hérlendis.

Platan seldist vel og allt virtist í lukkunnar velstandi, en strax eftir lendingu í Þýskalandi kom upp flensufaraldur meðal leikmanna. Reynt var að fá fyrsta leik við Tékka frestað en það tókst ekki og eftir það gekk allt á afturfótunum. Íslenska liðið tapaði öllum leikjum sínum og 14. sæti á HM varð niðurstaðan sem þótti mikill skellur.

ÓL 2012: 5. sæti

Vítavert gáleysi

Ísland spilaði frábærlega í riðlakeppninni á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012 og vann alla leikina. Í 8-liða úrslitum vorum við einu marki yfir gegn Ungverjum og fengum vítakast þegar einungis tíu sekúndur lifðu leiks. Tíu stuttar sekúndur. Snorri Steinn Guðjónsson steig á punktinn til að freista þess að gulltryggja sætið í undanúrslitum en lét verja frá sér, Ungverjar brunuðu í sókn og jöfnuðu leikinn nánast á sömu stundu og lokaflautið gall. Ungverjar stóðu svo uppi sem sigurvegarar að loknum tvöfaldari framlengingu í einni mest pirrandi viðureign og sárasta ósigri Íslands frá því elstu menn muna.

Texti / Kjartan Guðmundsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -