Miðvikudagur 17. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Bóndinn sem sló í gegn á samfélagsmiðlum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvernig dettur ungu fólki í hug að gerast bændur í dag? Mannlíf hitti að máli ungan bónda sem hefur slegið í gegn á Snapchat. Viðtalið er það fjórða og síðasta í greinaröð Mannlífs um unga bændur á Íslandi.

Axel Sæland sló í gegn á samfélagsmiðlum í fyrra þegar hann sá um Snapchat-reikning ungra bænda, ungurbondi.

Axel Sæland sló í gegn á samfélagsmiðlum í fyrra þegar hann sá um Snapchat-reikning ungra bænda, ungurbondi. Margir spurðu þó sömu spurningar og viðtalið hefst á: Eru blómabændur alvörubændur? „Ég var spurður að þessu og því hvort ég væri nógu ungur til að vera ungur bóndi,“ segir Axel og hlær, en hann er fæddur 1980. „Í þessari grein er ég reyndar mjög ungur, það er því miður ekki mikil nýliðun í greininni. En blómabændur eru náttúrlega hluti af bændastéttinni, við erum í Bændasamtökunum og erum með okkar hagsmunasamtök sem heita Samtök garðyrkjubænda svo að sjálfsögðu erum við bændur þótt við séum ekki með stórar jarðir, tún og beitilönd. Við erum með lögbýli og gróðurhús, sem er bara annars konar ræktun. Mörg okkar vinna einnig í takt við árstíðirnar þótt við hér á Espiflöt stílum inn á jafna sölu allt árið.“

Hér verður Axel dálítið vandræðalegur. „Með jafnri sölu þá á ég svolítið við jarðarfarir, ég veit ekki hvort maður á að segja það en það er stöðugur bisness. Það eru engar stórar sveiflur í því hér á Íslandi því við erum friðsæl þjóð og dílum sem betur fer hvorki við farsóttir né stríð. Eins manns dauði er annars brauð, eins og þar stendur, og þetta er náttúrlega það sem fólk vill í jarðarförum, að hafa hlýlegt umhverfi og blómin hafa mikið að segja þar. En svo eru það stórmarkaðirnir, sem taka alltaf stærri hluta af markaðnum. Þar eru þessir tilbúnu litlu vendir sem fólk grípur með sér og aðgengið er alltaf að batna að því leyti, þannig að fólk gerir minna af því að fara í blómabúð til að kaupa blóm handa sjálfu sér. Þegar fólk fer í blómabúð er það fyrst og fremst að kaupa blóm til að gefa öðrum, fyrir samkvæmi, skírn eða brúðkaup. En blóm fyrir sjálft sig kaupir fólk í stórmörkuðum og einkaneyslan hefur aukist undanfarin ár.“

„Með jafnri sölu þá á ég svolítið við jarðarfarir, ég veit ekki hvort maður á að segja það en það er stöðugur bisness.“

Axel er meira og minna alinn upp í blómabransanum, afi hans og amma stofnuðu Espiflöt í Reykholti árið 1948 en stunduðu þá meira ræktun á grænmeti. „Það var svo upp úr 1977 sem fókusinn færðist aðallega yfir á afskorin blóm. Ég er fæddur og uppalinn í þessari grein þótt ég hafi prófað ýmislegt um ævina og árið 2006 tókum ég og konan mín þá ákvörðun að ganga inn í fyrirtækið með foreldrum mínum. Ég er síðan orðinn meirihlutaeigandi og er að leyfa foreldrum mínum að stíga til hliðar. Þau vinna þó enn hérna, enda hafa þau ánægjuna og starfsorkuna enn og þá reynir maður að nýta sér það sem lengst, þeirra þekkingu.“

Engin hætta á að íslensk blóm deyi út

Að sögn Axels hefur svipuð þróun orðið í blómarækt og öðrum landbúnaðargreinum, búin stækka og þeim fækkar. „Í kringum 1985 voru yfir 40 blómabændur á Íslandi en við erum rétt um tíu í dag. Hins vegar framleiðum við meira en þá var, svo það er engin hætta á að íslensk blóm deyi út, langt í frá.“

Að Espiflöt er stunduð blönduð ræktun, þannig að Axel ræktar ekki bara eina tegund af blómum eins og sumir. „Ég er með fimm megintegundir í ræktun, gerberu, rósir, liljur, kursa og sóllilju. Ástæðan fyrir því að ég er með blandaða ræktun er sú að ég bý til alla blómvendina hér á staðnum og sendi frá mér. Mínir helstu viðskiptavinir eru stórmarkaðir, bensínstöðvar og stóru blómakaupmennirnir, eins og Blómaval og Garðheimar, sem bjóða upp á tilbúna blómvendi. Hinn hlutinn af framleiðslunni, sá flottasti, er skreytingavara og hana kaupa blómabúðir til að nota í skreytingar og slíkt. Öll okkar ræktun fer hins vegar í Grænan markað sem er heildsala sem sér um að dreifa og selja okkar framleiðslu.“

- Auglýsing -

Garðyrkjustöðin að Espiflöt er rétt tæpir 7000 fermetrar að stærð og þar starfa að jafnaði 14 manns. Axel viðurkennir að að því leytinu sé blómabóndi öðruvísi en „hefðbundinn“ bóndi. „Jú, ég er alltaf með hóp af fólki í vinnu, allt árið um kring, og framleiðslan er stöðug allt árið. Svo þarf ég að bæta við tveimur aukamanneskjum rétt fyrir konudag og stundum í maí líka, þegar mæðradagurinn og útskriftirnar eru.“

Að Espiflöt er stunduð blönduð ræktun, þannig að Axel ræktar ekki bara eina tegund af blómum eins og sumir.

Árið 2016 framleiddi Axel 1,6 milljónir blóma og gefur sér að framleiðslan hafi aukist síðan þá. „Ég er bara ekki búinn að taka saman tölurnar fyrir 2017 en ég er alveg  viss um að það hafi verið aukning. Ekki vegna þess að við séum að stækka heldur vegna þess að þekkingin er alltaf að batna og við náum að nýta hvern fermetra betur. Ég gæti trúað því að í ár förum við nálægt því að framleiða 2 milljónir blóma.“

Það þarf víst ekki að hafa áhyggjur af offramleiðslu því eftirspurnin og salan á afskornum blómum er alltaf að aukast. „Fólk er farið að kaupa meira blóm til að hafa í vasa heima hjá sér, til að lífga upp á heimilið. Og blóm eru að koma meira inn í dag, þessi hreini stíll er svolítið að hverfa aftur, mínimalismi sem var mikið í tísku er aðeins á undanhaldi og bæði pottablóm og afskorin blóm eru svolítið að ryðja sér til rúms. Maður er farinn að sjá þetta meira á veitingahúsum og bara heima hjá fólki,“ segir Axel og bætir kíminn við að silkiblóm og gervitúlípanar trufli hann ekkert, og lítil ógn sé í þeim.

- Auglýsing -

Rómantíkin á bak við blómin kannski aðeins horfin

Eiginkona Axels, Heiða Pálrún Leifsdóttir hjúkrunarfræðingur, er meðeigandi í framleiðslunni en starfar ekki að jafnaði við blómabúskapinn. Axel hlær þegar hann er spurður hvort hann færi konunni sinni blóm eða hvort þau séu orðin hversdagslegur hlutur fyrir þeim. „Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara þessari spurningu. Við erum alltaf með blóm heima og til að byrja með fannst konunni það gaman – og henni finnst jú alltaf gaman að hafa blóm í kringum sig – en rómantíkin á bak við það er kannski aðeins horfin. Hún veit orðið að þegar ég er að koma með mikið af blómum heim til að setja í vasa þá er ég fyrst og fremst að athuga hvernig þau standa og hvað þau gera því ég þarf stöðugt að vera að athuga hvernig blómin standa sig í vasa, ég vil að það séu gæði á bak við mína vöru og fólk verði ánægt með það sem það fær. Það kemur náttúrlega fyrir að hún biður um að fá einhver ákveðin blóm heim og þá uppfylli ég þá ósk en vanalega er það frekar vísindatengt þegar ég kem með blóm heim.“

Konu- og bóndadagurinn fara sömuleiðis dálítið fyrir ofan garð og neðan hjá blómabændunum á Espiflöt. „Það eru svo stórir dagar í framleiðslunni hjá okkur að við höfum bara ekki haft tíma til að gleðja hvort annað þessa daga síðustu árin svo við reynum bara að nota aðra tíma ársins til að gera eitthvað saman. Þetta er bara vertíðin okkar!“

Sjá einnig: Bjartsýnir nýbændur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -