Dánartíðni karlmanna sem sýkjast af kórónaveirunni Covid-19 er töluvert hærri en dánartíðni kvenna. Í greiningu sem Sóttvarnamiðstöð Kína birti fyrir helgina kemur fram að þótt jafnt hlutfall karla og kvenna sýkist af veirunni er dánartíðni karlanna 2.8 prósent en dánartíðni kvenna 1.7 prósent. Þetta er í samræmi við dánartíðni í öðrum kórónaveirusýkingum, til dæmis sýktust fleiri konur en karlar af Sarsveirunni í Hong Kong árið 2003 en rúmlega helmingi fleiri karlar en konur dóu af völdum sjúkdómsins og sama mynstur er rekjanlegt í öllum slíkum faröldrum allt aftur til Spænsku veikinnar 1918.
Á vefsíðu breska dagblaðsins Independent er haft eftir vísindamönnum við breskar rannsóknarstofnanir að rekja megi ástæður þess að karlmenn séu líklegri til að deyja af völdum sjúkdómsins til margra þátta, bæði líffræðilegra og lífsstílstengdra.
Sabra Klein, sem stundar faraldsfræðarannsóknir við Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health, með áherslu á mismunandi áhrif veira og smitsjúkdóma á kynin, segir að það sé greinilegt að ónæmiskerfi kvenna eigi auðveldara með að sigrast á veirum en ónæmiskerfi karla.
„Hvað það varðar að yfirvinna veirusýkingar eru karlmenn veikara kynið,“ segir hún. Ástæður þess að konur hafa yfirburði þegar kemur að því að yfirvinna sýkingar af völdum veira liggja ekki fyrir, enda eru rannsóknir á því tiltölulega nýhafnar að sögn Klein.