Þriðjudagur 23. apríl, 2024
11.1 C
Reykjavik

Daði Einarsson Bafta-verðlaunahafi: „Vinnustaðurinn minn er Disney Studios“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þessi verðlaun eru fyrst og fremst gríðarlega mikið hrós og viðurkenning fyrir okkur. Witcher-serían er stútfull af skemmtilegum og stórum áskorunum fyrir „visual effects“ stjórnanda þannig að þetta var mjög gefandi og krefjandi bæði kreatíft og tæknilega. Að vinna alla þessa vinnu í Covid gerði hlutina mun flóknari og eitt af því sem stendur upp úr er hvað „visual effects“-bransinn var ótrúlega fljótur að aðlagast þessum aðstæðum. Langflestir sem unnu að framkvæmd myndbrellnana gerðu það að heiman en ekki á skrifstofu.

Fyrir mig og fyrirtækin sem unnu að Witcher er þetta mikill gæðastimpill og gefur til kynna að okkur sé treystandi fyrir að hanna, skipuleggja og framkvæma myndbrellur í hæsta gæðaflokki,“ segir Daði Einarsson sem fyrr í vor hlaut BAFTA-verðlaun fyr­ir tækni­brell­ur í Net­flix-þátt­un­um The Witcher.

Daði Einarsson

Skrímsli, ísbirnir, Harry Potter…

Hvað einkennir verkin hans almennt svo sem hvað varðar stíl og áherslur?

„Ég hef komið víða við hvað stíl varðar. Fantasíur, skrímsli, myndir sem gerast úti í geimi, á sjó og hæsta fjalli jarðar þannig að það er erfitt að benda á ákveðinn stíl. Ég nálgast verkin alltaf á svipaðan máta. Ég set góða bíómyndatónlist í græjurnar, les handritið sem ég er að fara að vinna að og ímynda mér myndræna útgáfu af því sem ég les. Sé það fyrir mér eins og fullkomna fullkláraða bíómynd. Svo vinn ég bara aftur á bak þaðan. Set á mig tæknihattinn og brýt niður hvaða aðferðafræði þarf til að taka upp atriðin og svo hvað þarf að gera til að skapa myndbrellurnar. Oftast geri ég grófa útgáfu af atriðunum í tölvu til að kynna og þróa hugmyndina með leikstjóra og framleiðendum. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og gefandi ferli og sérstaklega gaman að bera saman grunnhugmyndina við lokaatriðin þegar myndin er fullkláruð.“

Golden Compass vann Óskarinn það árið fyrir myndbrellur.

- Auglýsing -

Þegar Daði er spurður hvað standi upp úr á ferlinum segir hann að sér hafi fundist vera mjög gaman að vinna við The Golden Compass þar sem hann stýrði öllum atriðunum með talandi ísbjörnunum sem eru stór hluti af sögunni. „Ég las bókina áður en ég fékk boðið um að taka verkefnið að mér og í sögunni finnum við aðalísbjörninn þar sem hann er í óreglu og hangir í húsasundi bak við knæpu sem heitir „Einarsson’s Bar“. Mér fannst það merki um að ég ætti að segja já við þessu. Stuttu seinna var ég kominn á settið fyrir framan barinn með mínu nafni og brosti út í annað. Golden Compass vann Óskarinn það árið fyrir myndbrellur.“

Harry Potter 2 var mikil upplifun snemma á ferlinum. „Ótrúlega stór og mikil framleiðsla með lygilega fallegum og stórum leikmyndum. Þetta var hálfpartinn eins og að vera í þessum heimi á meðan á tökum stóð. Það var gaman að ráfa þar um og fá að taka þátt í að skapa svona stórt augnablik í kvikmyndasögunni.

- Auglýsing -

Gravity var magnað verkefni og ofboðslega áhugavert að vinna náið með Alfonso Cuarón leikstjóra. Við vorum tiltölulega lítill hópur sem ég stýrði en við hönnuðum, teiknuðum og klipptum alla myndina með honum til þess að undirbúa tökurnar á andlitum leikaranna sem síðar yrði skeytt inn í tölvuteiknuð atriði út frá okkar vinnu.

Eitt sinn vorum við í þyrlu að fljúga í kringum Everest rétt við tindinn.

Everest er líklega erfiðasta verkefni sem ég hef gert og kannski ýktasta dæmi þess að ímynda sér fullkomna útgáfu af því sem maður les og vinna svo til baka þaðan. Það var ofboðslega erfitt að klára þá mynd og að klífa það fræga fjall fannst mér ágætis myndlíking. Það voru líka gríðarleg forréttindi að taka þátt í tökunum. Eitt sinn vorum við í þyrlu að fljúga í kringum Everest rétt við tindinn. Við flugum marga hringi um fjallið eins hátt og þyrlan komst að mynda efni til að styðja við myndbrellurnar okkar, lentum í grunnbúðum, skoðuðum okkur um og ég myndaði allt sem ég gat. Það var ótrúleg upplifun.“

Daði Einarsson

Disney Studios

Daði er núna í Los Angeles að vinna fyrir Marvel að stýra myndbrellum í sjónvarpsseríu sem kemur út seint í sumar. „Minn vinnustaður er Disney Studios í Burbank þar sem allar gömlu teiknimyndirnar voru gerðar og hér bókstaflega drýpur sagan af öllu.

Þetta eru níu þættir og langstærsta streymissería sem Marvel hefur framleitt. Það er mjög áhugavert og skemmtilegt að kynnast þessum framleiðendum og fá að rýna í þennan stóra og djúpa heim. Við erum á reglulegum „zoom-fundum“ þar sem við horfum á nýjustu útgáfur af þáttum með klippurum, framleiðendum og yfirmanneskjum Marvel. Svo er farið yfir allar nótur og punkta og málin rædd í framhaldinu. Það er magnað að fá að hlera og taka þátt í þeim umræðum og drekka í sig þessa miklu þekkingu og reynslu.“

Súrsætt en fallegt ferli

Hvers vegna fór Daði upphaflega í þessa grein. Þennan heim. Og hvað heillar hann við hann?

„Ég hálfpartinn ólst upp við þetta í London þar sem móðir mín var teiknimyndagerðakona. Hún vann við að teikna atriði í myndum á borð við Who Framed Roger Rabbit, Space Jam og Highlander og ég horfði oft yfir öxlina á henni eða fékk að hanga í stúdíóum þar sem hún var að vinna. Þótt ég hafi ekki beinlínis planað að vinna við þetta þá hafði ég ofboðslega mikinn áhuga á kvikmyndum, að teikna og að skapa. Svo rétt um tvítugt bauðst mér tækifæri að vinna með vinum mínum sem voru að stofna tölvufyrirtækið OZ. Þar fékk ég aðgang að sömu tölvum og hugbúnaði sem var notaður til að gera fyrstu bylgju af tölvuteiknuðum myndbrellum sem við horfðum gapandi á í bíói: The Abyss, Terminator 2 og ekki síst Jurassic Park.

Reynir á sköpunargáfu, tækniþekkingu, mannleg samskipti, þor og úthald.

Það sem heillar mig við þetta starf er sköpunin, að túlka sögur frá blaði og skapa það sem ég ímynda mér þegar ég les. Að kynnast fólki og fara í ferðalag saman og að búa til eitthvað skemmtilegt og fallegt. Hvert verkefni er ákveðið ferðalag með upphafi, miðju og endir. Oft kynnist maður fólki í byrjun og skilur við það við verklok vitandi að þau verða nátengd manni um ókomna tíð. Þetta er svona hálfpartinn eins og byrja í nýjum menntaskóla, kynnast öllum og útskrifast svo og kveðja alla. Súrsætt en fallegt ferli.

Svo er þetta mjög krefjandi starf sem reynir á sköpunargáfu, tækniþekkingu, mannleg samskipti, þor og úthald. Þetta er langt frá því að vera auðvelt en það er líklega eitt af því sem gerir það svo gefandi.“

Daði Einarsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -