Fimmtudagur 18. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Danir vara við heimagerðu slími

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimagert slím nýtur mikilla vinsælda hjá börnum. Hjúkrunarfræðingur segir kemíska blöndu geta valdið áreiti í húð barna. Foreldrar verði að passa hvað börnin leiki sér með.

Astma- og ofnæmissamtök Danmerkur vara við heimagerðu slími. Slímgerð í heimahúsum nýtur mikilla vinsælda hjá börnum. Til marks um það var slímgerð í þriðja sæti yfir fyrirspurnir á vídeóvefnum YouTube á síðasta ári.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem Danir vara við leikföngum og föndri fyrir börn. Fyrr í þessum mánuði varaði Umhverfisstofnun Danmerkur við kreistileikfanginu Squishy eftir að eiturefni fundust í því. Neytendastofa sendi í kjölfarið út fyrirspurn til leikfangasala og innflytjenda leikfanga og óskaði upplýsinga um hvort leikföngin fáist hér. Reynist svo vera, eigi að taka hana af markaði og farga leikföngunum.

Í umsögn Astma- og ofnæmissamtaka Danmerkur um heimagerða slímið segir að í heimagerðu slími sé lím, raksápa og matarsódi. Húð barna sé viðkvæm fyrir raksápu og lími, það geti valdið ofnæmi hjá þeim og þau fengið útbrot á hendur. Í færeyska Kringivarpinu er haft eftir dönskum fjölmiðlum að foreldrar hafi auga með því hvort börn klæi eftir slímgerð, húð þeirra fái rauðan lit, útbrot eða að jafnvel myndist sár.

Umhverfisstofnun Danmerkur og matvælaeftirlit landsins taka undir áhyggjur Astma- og ofnæmissamtakanna og vara við slímgerð barna. Þau eigi ekki að leika sér með raksápu, matarsóda og lím, hvað þá blanda efnunum saman.

Einfalt er fyrir börn að verða sér úti um efni til að búa til slím. Leiðbeiningar um slímgerð má finna á YouTube og á íslenskum vefsíðum og vefsíðum föndurbúða. Innihaldið í slíminu er í nær öllum tilvikum hið sama og dönsku Astma- og ofnæmissamtökin vara við, það er, lím og matarsódi ásamt öðru. Í sumum uppskriftum er húðkrem sett í uppskriftina í stað raksápu.

„Þetta eru svo nýlegar fréttir að við erum rétt að byrja að kynna okkur þetta,“ segir Tonie Gertin Sørensen hjúkrunarfræðingur sem er starfsmaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands. Hún sá frétt um þetta í dönskum fréttatíma í vikunni. Hún segir engar fyrirspurnir eða ábendingar hafa borist félaginu vegna þessa. Mjög stutt sé síðan umræðan kom upp í Danmörku og þurfi félagið að kynna sér málið frekar. Hún bendir á að það segi sig sjálft að þegar kemískum efnum er blandað saman geti orðið til blanda sem valdi áreiti á húð.

„En sem foreldri myndi ég segja að við verðum að vera á varðbergi gagnvart því sem börnin okkar leika sér með,“ segir Tonie.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -