Þriðjudagur 23. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Danith í framboði fyrir Miðflokkinn: „Ég hef hvorki náð að venjast vindinum né dimmunni að vetri“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér finnst vera skemmtilegt að taka þátt í pólitík; ég ólst upp í pólitísku umhverfi og þegar ég flutti til Íslands árið 2000 fór ég að fylgjast með hvað væri að gerast í íslensku þjóðfélagi og ég fann út að ef maður er ósáttur við umhverfi sitt verður maður eiginlega að taka þátt í að skapa samfélagið. Þess vegna tek ég þátt í pólitík á Íslandi; til að reyna að gera umhverfið sem ég bý í betra,“ segir Danith Chan sem er frá Kambódíu en hún fæddist þar en ólst hins vegar upp bæði í Kína og Egyptalandi. Danith skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir komandi þingkosningar.

Þess vegna tek ég þátt í pólitík á Íslandi; til að reyna að gera umhverfið sem ég bý í betra

Hún er spurð um áherslumál sín fyrir kosningarnar. „Ég hef áhuga á svo mörgum málefnum. Til að nefna nokkur skipta heilbrigðismál til dæmis máli í huga mínum. Ég veit að það eru víða biðlistar en ég tel að forvarnir séu mikilvægar og ég veit líka að ef það væri almennt séð lögð meiri áhersla á þær væru ekki svona langir biðlistar. Það ætti að setja meiri pening í forvarnir og ef það yrði gert þyrfti ekki einu sinni að tala um biðlista. Það er allt of mikið verið að laga eftir á í staðinn fyrir að leggja áherslu á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir.

Svo legg ég mikla áherslu á samvinnu á alþjóðavettvangi þegar kemur að utanríkismálum. Það væri hægt að styrkja stöðu landsins mikið í því sambandi. Ísland er eyja og við erum alltaf sterkari þegar við stöndum saman hvort sem það eru einstaklingar eða á alþjóðamælikvarða.“

Danith, sem er bæði lögfræðingur að mennt og með MBA-próf, myndi vilja leggja áherslu á rekstraraumhverfi lítilla og smærri fyrirtæka. „Það er svolítið erfiðara að reka fyrirtæki á Íslandi þegar þau eru lítil og rekstrarumhverfið og lagaumhverfið er ekki allt mjög þægilegt.“

Hún nefnir líka menntamál og bendir á að sér finnist vera áhugavert að grunnskólabörn hér á landi hafa mörg hver ekki komið vel út í PISA-könnunum. Hún segir að það sé eitthvað sem hún myndi vilja einblína á.

Ísland er eyja og við erum alltaf sterkari þegar við stöndum saman hvort sem það eru einstaklingar eða á alþjóðamælikvarða.

 

- Auglýsing -
Danith Chan
Danith ásamt eiginmanni sínum, Sveini Óskari Sigurðssyni, bæjarfulltrúa fyrir Miðflokkinn í Mosfellsbæ.

 

Jöfn tækifæri fyrir alla

Danith segist leggja mikla áherslu á jöfn tækifæri fólks og nefnir jöfn tækifæri til tekna. „Við búum í þessu velferðarkerfi en það hafa ekki allir aðgang að sömu tækifærum og það fer mikið eftir því hvað viðkomandi er búinn að gera og hvern hann þekkir. Það er svolítið mikið svoleiðis á Íslandi þannig að ég vil leggja áherslu á jöfn tækifæri fyrir alla. Það á ekki að líðast að innflytjendur fái lægri laun heldur en innfæddir fyrir sömu vinnu. Við eigum að búa til réttlátara samfélag þannig að allir fái greitt fyrir vinnu sína. Hitt er bara ósanngjarnt.“

- Auglýsing -

Danith segir að það sé hægt að gera mikið í innflytjendamálum hér á landi. Hún nefnir íslenskukennslu sem hún segir marga innflytjendur ekki hafa efni á og vill hún að íslenskukennsla verði gerð gjaldfrjáls.

Á heimasíðu Miðflokksins, midflokkurinn.is, skrifar Danith: „Hér á landi þurfum við einnig verðmætaskapandi vinnuafl og gæta að fjölbreytni þeirra innflytjenda sem hér setjast að, m.a. sem kvótaflóttamenn. Líta verður m.a. til mannúðarsjónarmiða, sem miklu skiptir. Það verður einnig að líta til þess að jafnræði ríki á meðal flóttafólks í heiminum hvað aðgang að Íslandi varðar sem áfangastaðar til búsetu. Einnig skal litið til þess að hér búi ekki einsleitur hópur innflytjenda sem aðlagast ekki samfélaginu eins vel og kostur er. Ég hef aðlagast en mun aldrei aðlagast 100% en hef gert mitt allra besta til þess og er ein frá mínu heimalandi búandi hér. Svo vil ég, rétt eins og Íslendingar, sem búa erlendis, halda í mín sérkenni, menningu, trú og matargerð. Móttakandinn, þ.e. Íslendingurinn, verður einnig að koma til móts við mig. Það hafa fjölmargir félagar mínir í Miðflokknum gert, nánir ættingjar og aðstandendur einnig. En alls ekki allir.“ Ennfremur segir hún á síðu flokksins: „ Við þurfum að efla landamæraeftirlit og lögregluyfirvöld. Það þarf að veita harða og óbilandi mótspyrnu gegn erlendum sem og innlendum glæpagengjum sem hafa hreiðrað hér um sig. Þessi gengi nýta sér m.a. velvild og virkni flóttamanna- og velferðarkerfisins. Í kringum þetta hafa jafnvel myndast nýjar og ansi hvatvísar starfsstéttir sem keyra harða stefnu, jafnvel hatursfulla og óbilgjarna. Slíkt getur leitt til þess að brotnir séu niður innviðir ríkisins, þeir veiktir og sérstaklega viljinn til að bregðast við þegar á reynir. Ef það er að gerast, erum við á rangri og varasamri leið. Óljósar heimildir benda til að glæpahóparnir, þ.e. þeir sterkustu er hér hafa umsvif, hafa margir þroskast sérstaklega vel innan Evrópu, þ.e. bæði þar innan og utan EES svæðisins.“

Hún nefnir íslenskukennslu sem hún segir marga innflytjendur ekki hafa efni á og vill hún að íslenskukennsla verði gerð gjaldfrjáls.

 

Í flóttamannabúðum

Danith fæddist árið 1978 í Kambodíu eins og þegar hefur komið fram, nánar tiltekið í höfuðborginni Phnom Penh, og þurfti fjölskylda hennar að flýja þegar hún var mánaðargömul þegar Víetnamar yfirtóku borgina. Amma hennar og afi í móðurætt höfðu verið lyfjaframleiðendur og afi hennar í föðurætt var hægri hönd konungs landsins, Sihanouk, auk þess sem hann starfaði árum saman sem sendiherra. Danith var ásamt foreldrum sínum í flóttamannabúðum í Tælandi í rúm tvö ár og flutti Danith til afa og ömmu sinnar í Egyptalandi þegar hún var á fjórða ári. Þar bjó hún næstu árin en afi hennar í föðurætt var á þeim tíma sendiherra í Kaíró. Afi hennar fékk síðar sendiherrastöðu í Peking í Kína og flutti hún þangað sex ára gömul.

Danith segir að það erfiðasta sem hún hafi upplifað á ævinni sé þegar faðir hennar, sem var kvensjúkdómalæknir, lést úr krabbameini þegar hún var tæplega tvítug. Hún nefnir líka þegar afi hennar flutti frá Kína til Kambódíu. „Pabbi var mjög ungur þegar hann dó. En lífið heldur áfram. Það er ekkert sem ég gat gert; það skiptir máli að vera bjartsýnn og halda áfram með lífið.“

 

Danith Chan

 

Vindurinn

Áður en faðir Danith lést hafði hún hafið nám í alþjóðalögfræði við Háskólann í Peking þar sem hún kynntist íslenskum eiginmanni sínum, Sveini Óskari Sigurðssyni, sem er bæjarfulltrúi fyrir Miðflokkinn í Mosfellsbæ.

Ástin togaði hana til sögueyjarinnar í norðri og þegar þangað kom árið 2000 hóf Danith íslenskunám við Háskóla Íslands. Hún lauk árið 2005 meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands með áherslu á umhverfis- og Evrópurétt. Árið 2009 lauk hún MBA-prófi við Háskólann í Reykjavík.

Danith hefur gegnt ýmsum störfum á Íslandi. Hún vann um tíma meðal annars hjá Útlendingastofnun, stoðtækjafyrirtækinu Össuri, hjá Valitor og slitastjórn Glitnis. Nú starfar hún í ferðaiðnaði og hefur áhuga á að sú iðngrein vaxi og dafni á Íslandi.

Danith hefur búið um helming ævi sinnar á Íslandi. Hún er spurð hvað Ísland sé í huga hennar. Hún nefnir fjöllin, jöklana, sjóinn, Íslendingana og íslenskuna. „Það sem mér finnst vera frábært við Ísland er tungumálið sem er eitt best varðveitta tungumálið í heiminum. Ég hef alltaf haft áhuga á tungumálum sem fræðigrein; íslenska er eins upprunaleg og kostur er í nútímasamfélagi.“

Danith segir að vindurinn á Íslandi sé það sem henni finnst vera það erfiðasta að eiga við. „Hann blæs úr öllum áttum og það er meira af honum hér en annars staðar þar sem ég hef alist upp. Ég hef hvorki náð að venjast vindinum né dimmunni að vetri. En á móti finnst mér mjög kósí að kúra heima. Þar líður mér best.“

Það sem mér finnst vera frábært við Ísland er tungumálið sem er eitt best varðveitta tungumálið í heiminum.

 

Danith Chan.
Danith ásamt dætrum sínum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -