Söngkonan Beyoncé deildi fallegum myndum úr fríi hennar og eiginmannsins Jay-Z á heimasíðu sinni í gær. Börn þeirra, Blue Ivy, sex ára og Rumi og Sir, þrettán mánaða, eru með í för í fríinu, en tónlistarhjónin hafa reynt síðustu ár að halda börnum sínum utan sviðsljóssins eins og þau geta.
Það er því afar sjaldgæft að sjá myndir af börnunum, sérstaklega tvíburunum, en margir muna eflaust eftir myndinni sem Beyoncé birti þegar hún tilkynnti um fæðingu þeirra fyrir rúmu ári síðan. Á myndinni sást Beyoncé halda á tvíburunum í íburðarmiklum klæðnaði, umkringd blómum, og er þetta sú mynd á Instagram sem hefur fengið einna flest læk.
Á nýju myndunum sjást Rumi og Sir sitja í kjöltu móður sinnar. Rumi hlær innilega en Sir virðist vera heldur alvarlegri á myndinni.
Þá birtir Beyoncé aðra mynd þar sem Jay-Z sést leiða Rumi á snekkju, er þau stara út á hafið. Þriðja myndin sem söngkonan birtir er síðan af sér og Blue Ivy.
Fjölskyldan er í fríi á Ítalíu en snekkjan sem þau dvelja á ku vera í eign milljarðamæringsins Shahid Khan. Samkvæmt erlendum fjölmiðlum kostar vika á snekkjunni 1,4 milljónir dollara, tæplega 150 milljónir króna.