Mánudagur 22. júlí, 2024
8.8 C
Reykjavik

Dóra leitar föður síns án árangurs: „Mig langar bara að vita hver pabbi minn er”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er orðin svolítið buguð út af þessu. Kannski er hann dáinn? Kannski var hann að halda framhjá og vill ekki að konan sín komist að þessu. Ég bara hreinlega veit það ekki, en mér finnst skrýtið að enginn kannist við þetta,” segir Borghildur Dóra Björnsdóttir, oftast kölluð Dóra.

Dóra veit ekki hver blóðfaðir hennar er, en hefur langað að vita það síðan hún man eftir sér. Fyrir ári síðan auglýsti hún, ef svo má segja, eftir honum á Facebook og skrifað var um leit hennar í fjölmiðlum, til að mynda DV. Nú, ári síðar, hefur hvorki gengið né rekið hjá Dóru sem leitar enn pabba síns.

Dóra vill ekkert frá pabba sínum. Hún vill bara hitta hann.

„Mér hefur orðið lítið ágengt í þessari leit. Það voru þrír menn sem höfðu samband á sínum tíma og héldu að þeir væru pabbi minn. Einn þeirra var alveg viss í sinni sök og hafði samband við mig á Facebook í kjölfar fréttarinnar í DV. Hann skrifaði svo stöðuuppfærslu á Facebook og sagði að mamma mín hefði ekki viljað að hann færi í DNA próf til að sanna faðernið og sagðist oft hafa talað við mig í síma. Mamma kannaðist við manninn en sagði af og frá að hann væri pabbi minn. Þetta var orðið hálf óþægilegt þannig að ég lokaði á hann á Facebook. En hann langaði allavega mikið til að vera pabbi minn,” segir Dóra í samtali við blaðamann Mannlífs.

Enginn passar við lýsinguna

Dóra kom undir í Atlavík árið 1983, nánar tiltekið á sunnudagskvöldið á útihátíðinni. Það sem hún veit um föður sinn sem hún hefur leitað svo lengi er að hann er rauðhærður, en var með litað dökkt hár. Hann sagðist heita Jónas Haukur Sveinsson, en vera kallaður Haukur Sveinsson. Hann sagði móður Dóru, sem kölluð var Dæda, að hann væri smiður og að hann ætti fimm ára dóttur sem héti Hulda. Þegar að Dæda og þessi maður stungu saman nefjum var hann víst í svörtum Adidas skóm, bláum gallabuxum og ljósgrárri lopapeysu með svörtu og hvítu munstri. Þegar Dóra auglýsti eftir manninum á Facebook lét hún mynd af móður sinni á hátíðinni fylgja með, í von um að finna föður sinn. Dóra hefur ekki fundið manninn sem passar við lýsinguna, né mann með þessu nafn, og segir að hann hafi aldrei haft samband aftur við móður hennar eftir þetta örlagaríka kvöld.

Hér er myndin af Dædu úr Atlavík.

„Hún og afi reyndu að hafa uppá honum þegar hún var ólétt,” segir Dóra og bætir við að sú leit hafi ekki borið árangur. Þegar Dóra kom í heiminn kom Björn, afi hennar henni í föðurstað og því ber hún föðurnafnið hans í dag.

„Við bjuggum hjá ömmu og afa þar til ég varð sex ára og afi var mikið með mig. Hann gerði allt þetta pabbastöff með mér og gekk mér í föðurstað. Ég missti mikið þegar hann dó,” segir Dóra, en Björn afi hennar lést árið 2014. Áður en hann lést tók Dóra föðurnafnið hans, en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.

„Þegar ég talaði við Þjóðskrá og sagðist vilja taka nafn afa míns þá var mér sagt að pabbi minn yrði að samþykkja það,” segir Dóra og hlær. „Ég sagði þá bara: Þið látið mig vita þegar þið finnið hann.”

- Auglýsing -

„Ætli ég eigi systkini þarna úti?”

Dóra segir í raun ekki hafa þurft á föður að halda sökum þess hve mikil föðurímynd afi hennar var henni. Þó togaði alltaf í hana að leita að uppruna sínum.

„Ég hafði alltaf afa en mig langaði að vita hver ætti hinn helminginn í mér. Ég er ekkert lík mömmu minni, en hún er búin að segja að ég sé hávaxin eins og pabbi og með sömu augnumgjörð,” segir Dóra og bætir við að hana langi einnig að finna föður sinn uppá að finna jafnvel systkini sín.

„Ég á engin systkini en væri alveg til í það. Mig hefur alltaf langað til að eiga fjölskyldu sem er náin og legg mig mikið fram við að vera góð móðir barnanna minna. Ætli ég eigi systkini þarna úti?”

Pældi í því hvort kærastinn væri bróðir hennar

Sæt mynd af Dóru og Birni afa hennar, sem lést fyrir fjórum árum.

Dóra er 34 ára, þriggja barna móðir í dag og er í sambúð. Hún hefur reynt ýmislegt til að hafa uppá föður sínum í gegnum tíðina en svo virðist sem maðurinn hafi hreinlega gufað upp. Henni hafa borist ýmsar ábendingar í gegnum Facebook og haugur af myndum af hátíðinni í Atlavík en ekkert hefur gengið í leitinni. Það finnst henni skrýtið.

- Auglýsing -

„Mér finnst skrýtið að maður hittir helling af fólki sem mann langar ekki að hitta á hverjum degi því Ísland er svo lítið. En af hverju ekki hann? Ég pældi oft í því þegar ég var unglingur og var að byrja með strák að hann gæti verið bróðir minn. Ég spurði meira að segja kærastann minn sérstaklega hvort pabbi hans hefði nokkuð verið í Atlavík árið 1983,” segir hún og brosir.

Langar bara að hitta hann

Dóra veit ekki hve lengi hún ætlar að halda leitinni til streitu, enda bara rekist á veggi síðustu ár. En hvað ef dagurinn kemur loksins að hún hittir föður sinn? Er hún búin að ákveða hvað hún ætlar að segja við hann?

„Mig langar bara að hitta hann. Ég er ekki að fara fram á neitt frá honum. Ef hann vill ekkert með mig hafa þá verður bara að hafa það. En mig langar allavega að sjá hann og vonandi vilja börnin hans kynnast mér og minni fjölskyldu. Það er leiðinlegt að þurfa að taka það fram en ég er ekki að fara fram á peninga frá honum eða neitt svoleiðis. Mig langar bara að vita hver pabbi minn er.”

Hér fyrir neðan má sjá auglýsinguna svokölluðu sem Dóra birti á Facebook, en henni hefur verið deilt rúmlega þúsund sinnum:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -