Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Drangaskörð og heiðin ófeiga

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitt harðbýlasta en jafnframt mest heillandi svæði á Íslandi er að finna við ystra haf, á Ströndum. Fæstir landsmanna hafa komið í Árneshrepp, þar sem vegurinn endar, eins og Hrafn Jökulsson orðaði það svo snilldarlega. Þar er að finna svæði þar sem tíminn hefur nánast staðið í stað. En þó hefur hreppurinn verið inni í umræðunni undanfarin ár vegna stórfelldra áforma HS-orku og hluta heimamanna um að reisa virkjun í Ófeigsfirði. Fórnarkostnaðurinn átti að verða sá að stórum hluta heiðarinnar yfir firðinum og Eyvindarfirði átti að sökkva undir þrjú risastór uppistöðulón. Hin kalda krumla stóriðjunnar að eyðileggja svæði sem er eitt af stærstu ósnortnu víðernum landsins. Þessu hafa margir mótmælt og vilja vernda náttúruna fremur en fórna henni í þágu peningaafla sem fæstu eira. Nú hefur virkjunin verið slegin af, í bili að minnsta kosti.

Litla kaupfélagið

Fjölmörg tækifæri eru til útivistar á Ströndum. Í Norðurfirði er að finna eitt minnsta „kaupfélag“ landsins þar sem íbúarnir kaupa nauðsynjar og hittast til að spjalla. Örfáum kílómetrum frá er sundlaugin í Krossnesi sem heillar alla þá sem skella sér í sund. Sundlaugin er útilaug. Þaðan sér yfir Húnaflóa. Reykjaneshyrna, eitt fegursta fjall landsins blasir þar við. Gönguferð á Hyrnuna er létt en gefur þeim sem stendur á hæsta tindi frábært útsýni á sólbjörtum degi. Það er ekki laust við að göngumaður tárist yfir fegurðinni þar sem Drangaskörðin bera við.

Önnur gönguleið er á Örkina sem stendur við utanverðan Reykjafjörð, sunnan við Reykjaneshyrnu. Örkin er rúmlega 640 metra há og léttgengin frá Kjörvogi. Draumaútsýni rétt eins og á Kálfatindum, sem gnæfa yfir Norðurfirði. Tindarnir eru álíka háir og Örkin en gangan er mun erfiðari. Bratt er síðastra spölinn en þó á færi flestra sem ekki glíma við lofthræðslu á hæsta stigi.

Dulmögnuð Glissa

Glissa er 720 metra hátt fjall á mörkum Ingólfsfjarðar og Reykjafjarðar syðri. Gangan hefst á Melahálsi þaðan sem gengið er um svonefndan Smalaveg. Þar sem göngumaður fer af veginum er stikuð leið á toppinn. Ferðafélag Íslands stóð fyrir því verkefni sumarið 2018. Glissa er eitt allra fallegasta fjallið á Ströndum og býr yfir ákveðinni dulúð. Sá sem einu sinni gengur á Glissu vill gjarnan koma aftur. Þegar þoka liggur yfir, eins og stundum gerist á Ströndum, þá ríkir dulmögnuð stemning á fjallinu. Nafnið Glissa er í dag ráðandi en í gömlum kortum er talað um Glifsu. Menn telja að Glissa þýði gleið skessa. Ganga á Glissu er á flestra færi. Alls gengur fólk um 10 kílómetra vegalengd. Leiðin upp er að mestu um Trékyllisheiði en snörp hækkun er síðasta kaflann á toppinn. Suma kann að sundla á síðasta áfanganum ofan við Unnarskarð.

- Auglýsing -
Gönguferð á Gissu.

Drynjandi

Undanfarin ár hafa margir lagt leið sína að Hvalá til að sjá þann magnaða foss Drynjanda sem fellur tugi metra fram af brún. Best er að fara yfir göngubrú á Hvalá og ganga upp með ánni norðanverðri. Þegar ofar dregur þarf að krækja fyrir gil til að komast að fossinum. Drynjandi ber nafn sitt með rentu því nokkru áður en hann birtist heyrast drunurnar. Nokkru sunnar er fossinn Rjúkandi sem er með því einkenni að sjá má gufurnar frá honum um langan veg. Báðir eru þessir fossar gullfallegir. Þeir sem hafa til þess úthald ganga alla leið upp að Hvalárvötnum og sjá svæðið sem skipulagt var til að fara undir lón. Ekki er úr vegi að tjalda á milli vatnanna. Á sólardegi verður ferðamaðurinn uppnuminn. Drangajökull er hluti af sviðsmyndinni ásamt himinbláum vötnum sem römmuð eru inn af gróðurlitlu landi. Í austri blasa Kálfatindar við.

Fossinn Dynjandi.

Fjörður barónsins

- Auglýsing -

Eyvindarfjörður er næsti fjörður norðan Ófeigsfjarðar. Sá fjörður er að hluta í eigu ítalsks baróns sem seldi vatnsréttindin til virkjanamanna og setti þar með Eyvindará á dauðalista. Göngumaður sem fer upp með Eyvindará sér fossa sem slá út flest annað í fegurð. Sá stærsti þeirra er öldungis magnaður þar sem hann brýst fram af ógnarkrafti. Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir og náttúruverndarsinni, nefndi fossinn Greifafoss til háðungar hinum ítalska örlagavaldi.

Hrikaleg fegurð

Norðan við Eyvindarfjörð er Drangavík. Þar er fegurðin hrikaleg. Drangaskörðin eru við norðanverða víkina. Það er fólki ógleymanlegt að ganga fyrir skörðin og upplifa þá fágætu náttúrusmíð. Víst er að refir eru þar á stjákli. Sumir halda því fram að hundur nokkur, framliðinn, gangi þar ljósum logum.

Þetta er sumarið þegar Íslendingar ferðast innanlands. Það er kjörið fyrir fólk að fara á Strandir og njóta alls þess víðernis og hrikalegrar fegurðar sem náttúran býr yfir. Einnig býðst fólki að fara í skipulagðar ferðir um svæðið.

Undurfögru Drangaskörð

Dagana 17. til 21. júní er ferð sem hefst í Norðurfirði. Siglt verður í Drangavík. Fólk er ferjað í land en farangurinn fluttur áfram að Dröngum. Gengið út með Dröngunum sunnanverðum og norður um Signýjargötuskarð. Haldið með skörðunum norðanverðum að Dröngum þar sem farangurinn bíður. Tjaldað og grillað. Daginn eftir verður gengið upp Húsadal að Neðra-Húsadalsvatni. Kíkt í náttúrulaug. Siglt aftur í Norðurfjörð. Gengið á Reykjaneshyrnu og byggðasafnið Kört heimsótt. Nánar á fi.is.

Himinblá heiðarvötn

Ferðafélag Íslands býður upp tjaldferð um virkjanasvæði Hvalárvirkjunar 1.-6. júlí. Siglt er með Strandferðum frá Norðurfirði í Eyvindarfjörð.

Þátttakendur skoða vötnin og fossana sem í dag eru gullfalleg náttúruundur en munu ýmist hverfa eða taka miklum breytingum ef af fyrirhuguðum virkjanaáformum verður. Ferðamaðurinn fær að kynnast kyrrð heiðanna og himinbláum vötnunum. Þá liggur leiðin meðfram gullfossum Eyvindarfjarðar.

Gengið með allt á bakinu í fjóra daga, gist í tjaldi í þrjár nætur og í húsi Ferðafélags Íslands að Valgeirsstöðum í tvær nætur. Nánar á fi.is.

Sungið á Örkinni

Bækistöðvarferð á vegum Ferðafélags Íslands í Norðurfjörð frá 7.-10. ágúst.

Þátttakendur koma á eigin vegum að Valgeirsstöðum. Haldið í Ófeigsfjörð og gengið að fossinum Rjúkanda sem er einn sá fallegasti á Ströndum. Daginn eftir verður gengið á Finnbogastaðafjall og á Örkina. Komið við í safninu Kört. Synt í Krossneslaug. Heimsókn á Gjögur á heimleiðinni. Nánar á fi.is.

Höfundur er skálavörður Ferðafélags Íslands og fararstjóri á Ströndum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -