Miðvikudagur 9. október, 2024
0.8 C
Reykjavik

Efla hlaut Kuðunginn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Verkfræðistofan Efla hlaut í gær Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Eflu sem handhafa Kuðungsins kemur fram að Efla hafi frá upphafi leitast við að vera leiðandi í umhverfismálum, hvort sem er í eigin rekstri eða í framboði á umhverfisvænum lausnum. Umhverfisráðgjöf skipi stóran sess í þjónustu fyrirtækisins en Efla hefur aðstoðað á þriðja tug fyrirtækja við innleiðingu umhverfisstjórnunar. Þá hafi fyrirtækið rutt brautina fyrir ný úrræði í umhverfismálum umfram lagalegar kröfur, s.s. við gerð vistferilsgreininga, ráðgjöf við vistvænar vottanir bygginga auk ýmissa lausna sem snúi að umhverfisverkfræði. „Hjá Eflu er umhverfisvinkillinn settur á öll verkefni en slík umhverfistenging er gríðarlega mikilvæg hjá fyrirtæki sem sinnir margskonar ráðgjöf og verkefnastjórnun,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Fram kemur að Efla leggur mikla áherslu á umhverfisstjórnun í eigin starfsemi, hvort heldur er í ráðgjafarþjónustu, almennum rekstri eigin skrifstofa og rannsóknarstofa, í innkaupum eða við val á birgjum. Í lok árs 2018 flutti fyrirtækið í nýtt húsnæði en við endurbyggingu þess voru gerðar kröfur um BREEAM umhverfisvottun þar sem rík áhersla var lögð á vistvæn byggingarefni, góða hljóðvist, flokkunarstöðvar og góða aðstöðu fyrir starfsfólk sem stundar virka ferðamáta. Þá hefur Efla unnið markvisst að því að minnka eigið kolefnisspor og vakti athygli með útreikningum á kolefnisspori mismunandi máltíða í eigin mötuneyti, svokallað matarspor.

Hluti af þjónustu fyrirtækisins er að reikna út kolefnisspor fyrir viðskiptavini vegna mjög ólíkra verkefna, allt frá umbúðum til bygginga og skipulags. Sömuleiðis snýr hluti af ráðgjöf til viðskiptavina að því hvernig hægt er að draga úr myndun úrgangs eða nýta hann til góðra verka. Dæmi um það er verkefni sem gengur út á að nýta seyru frá salernum eða svokallað svartvatn til landgræðslu.

Verðlaunagripinn, Kuðunginn gerði að þessu sinni listhópurinn Fischer sem er skipaður systkinunum Lilju, Ingibjörgu og Jóni Þóri Birgisbörnum. Gripurinn er ekki aðeins skrautmunur því með því að setja snjallsíma inn í skúlptúrinn grípur kuðungurinn hljóðið sem spilast úr símanum og varpar því út í rýmið eins og hátalari. Þannig er leikið með samspil náttúru og tækni í hönnun gripsins. Efla öðlast einnig rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Í dómnefnd sátu Hrönn Hrafnsdóttir, formaður, Ágúst Elvar Bjarnason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Heimir Janusarson f.h. Alþýðusambands Íslands og Hrefna Sigurjónsdóttir, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.

- Auglýsing -

Rökstuðningur dómnefndar 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -