Laugardagur 5. október, 2024
8.8 C
Reykjavik

Ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á samstarf við þetta fólk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Andrúmsloft á Alþingi er lævi blandið þessa dagana eftir birtingar á ýmsum miður fögrum ummælum þingmannanna sex í Klausturshópnum um samstarfsfólk sitt. Mannlífi lék forvitni á að vita hvað öðrum þingmönnum fyndist um háttsemi þeirra og hvort þeir gætu hugsað sér að þurfa að vinna með þessu fólki daglega.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er ómyrk í máli þegar hún er spurð hvort hún treysti sér til að vinna með Klaustursfólki.

„Eina spurningin sem ég set fram er hvort þetta fólk sé fært um að sinna starfi sínu,“ segir Helga Vala. „Þau eiga til dæmis að veita ráðherrum aðhald með fyrirspurnum, þau eiga að sitja nefndarfundi og þingfundi en þau komu fram með þeim hætti, bæði með orðum sínum og athafnaleysi, að það er ekki hægt að bjóða ákveðnum ráðherrum og ákveðnum þingmönnum upp á það að eiga í nokkrum einustu samskiptum við þetta fólk. Og það er heldur ekki hægt að bjóða gestum, sem starfs síns vegna koma á nefndarfundi, upp á að þurfa að vinna með þeim vegna þess að þeir eru ýmist málsvarar þeirra sem níðst var á eða urðu persónulega fyrir barðinu á þeim.“

Viltu þá meina að Alþingi verði óstarfhæft ef þessir þingmenn sitja áfram?

„Það er allt hálflamað hérna nú þegar,“ segir Helga Vala. „Við vöknum með þetta í höfðinu á morgnana og sofnum með þetta á kvöldin á sama tíma og maður er að reyna að styðja góða félaga sína og koma í veg fyrir að þeir fari í leyfi. Réttlætiskennd minni er mjög misboðið og ég sé ekki að hægt sé að starfa með fólki sem kemur svona fram.“

- Auglýsing -

Mjög óþægileg tilhugsun að deila vinnustað með þeim

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er ekki eins afdráttarlaus í svörum og spurð hvort hún taki mark á því þegar þingmennirnir sem um ræðir segjast skammast sín og að þeir muni læra af þessum mistökum verður hún hálfpartinn véfréttarleg.

- Auglýsing -

„Ég efast ekki um að þeir þingmenn sem hafa getu til að skammast sín skammist sín og mun sú skömm vissulega fela í sér lærdóm,“ segir hún.

Varðandi það hvort hún persónulega treysti sér til að vinna með viðkomandi þingmönnum segir hún að það sé vissulega óþægileg tilhugsun.

„Mér finnst tilhugsunin um að þurfa að deila vinnustað með þessum þingmönnum mjög óþægileg,“ segir Halldóra en vill ekki fara nánar út í það.

Ekki stætt á að sitja áfram

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segist trúa því að þingmennirnir margumræddu skammist sín, en hvert framhaldið verður treystir hún sér ekki til að spá um.

„Ég á erfitt með að ímynda mér annað en að umræddir þingmenn skammist sín duglega,“ segir hún. „Ég treysti mér hins vegar ekki til að fullyrða neitt um önnur viðbrögð þeirra. Tíminn mun leiða þau í ljós.“

Spurð hvort hún geti hugsað sér að halda áfram að starfa með þessu fólki, segist hún hafa lýst þeirri skoðun sinni að sér þyki sá blettur sem þau hafa sett á sig sjálf, ruddaskapurinn sem þau hafa sýnt tilteknum samþingmönnum og sú mynd sem þau hafa að ósekju gefið af starfinu á Alþingi sé svo alvarleg að þeim sé ekki stætt á því að sitja áfram. „Jafnframt geri ég mér grein fyrir því að enginn tekur þá ákvörðun nema þingmennirnir sjálfir, og þannig vil ég hafa það.

Ég mun ekki láta þetta ljóta mál aftra mér frá því að sinna starfi mínu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -