Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

„Er mest í að pakka inn líffærum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sylvía Margrét Cruz er búsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hún stefnir á sérnám í skurðlækningum. Sylvía sem er 23 ára gömul segir að andlát móður hennar hafi átt þátt í því að læknisfræðin varð fyrir valinu sem ævistarf. Á meðan Sylvía bíður eftir svörum frá læknaskólum starfar hún við líffæraheimt sem hún segir erfitt en á sama tíma gefandi starf.

 

„Ég tók líffræði og efnafræði og fannst þau fög mjög skemmtileg og áhugaverð. Ég var einhvern veginn hrædd við þessa áfanga fyrst, en svo leist mér mjög vel á þá,“ segir Sylvía, spurð af hverju læknisfræði hafi orðið fyrir valinu frekar en annað nám. „Ég held að læknisfræðin sé svona áhugaverð af því að náttúrufræði, líffærafræði og fleira blandast þar saman í starf sem felst í að hjálpa fólki. Líklega dró það mig að læknisfræðinni.“

Sylvía er fædd árið 1996 á Íslandi. Árið 2011 flutti hún til Bandaríkjanna ásamt föður sínum og systkinum vegna vinnu hans. Þegar fjölskyldan flutti aftur heim árið 2017 varð Sylvía eftir. „Þá var ég búin með tvö ár í háskóla (college) hér úti og vildi halda áfram og fara í læknisfræðina hér úti,“ segir Sylvía sem kláraði háskólann fyrir rúmu ári.

Öll árin var hún afbragðsnemandi og á forsetalista skólans, svokölluðum Deans Honors list. „Við erum með það sem heitir Latin honors, þá er það topp 1% nemenda sem fá viðurkenningu sem heitir Summa Cum Laude, en ég var í Magna Cum Laude sem er topp 5% nemenda eða næstu topp 5%,“ segir Sylvía hógvær yfir þessum árangri sínum.

Sylvía við útskrift úr líffræði (Biological Sciences) við University of California, Irvine vorið 2018.

Skólakerfið í Bandaríkjunum er öðruvísi en kerfið hér heima, útskýrir hún. „Á Íslandi getur maður farið beint í læknisfræði eftir menntaskóla, en hér þarf að klára fyrst BA- eða BS-gráðu í hvaða fagi sem er, sem er fjögurra ára nám. Þegar sú gráða er komin er loks hægt að sækja um í læknisfræði sem er annað fjögurra ára nám.“

Sylvía er sú fyrsta í fjölskyldunni sem leggur stund á læknisfræði þannig að enginn nákominn var fyrirmynd hennar í því. Þegar hún var 12 ára gömul lést móðir hennar úr krabbameini. „Já, andlát hennar hafði örugglega mikil áhrif,“ segir Sylvía aðspurð um hvort það hafi haft áhrif á áhuga hennar á læknisfræðinni. „Það var mjög erfitt að missa mömmu, en ég fékk mikinn stuðning frá öllum, frænkum og frændum, við að takast á við missinn. Pabbi bjó í Bandaríkjunum á þessum tíma og flutti aftur heim til Íslands tveimur dögum eftir lát mömmu.“

- Auglýsing -
Sylvía í færni rannsóknarstofu.

Fékk áfall er hún sá fyrsta líffæragjafann

Starf Sylvíu í Stanford-háskóla heitir organ procurement sem gæti á íslensku kallast líffæraheimt. Þegar Sylvía var í háskólanáminu var hún dugleg við að vinna sjálfboðaliðastörf á spítala og fá að fylgjast með. „Eftir útskriftina úr líffræði fór ég að vinna í Stanford-háskólanum og vann mikið með líffæraskurðlæknunum, fékk að fylgjast með og aðstoða þá, auk þess að horfa á margar aðgerðir,“ segir Sylvía og bætir við að það þurfi ýmist heppni eða kunningsskap til að komast í stöðu aðstoðarmanns.

„Í líffræðinni var ég í sumarprógrammi í skurðlækningum þar sem okkur var meðal annars kennt að gera aðgerðir á svínshjörtum. Ég fór síðan að vinna með og skipuleggja prógrammið fyrir manninn sem sér um námið. Í kjölfarið fór hann að taka mig með í skurðaðgerðir sínar og mæla með mér áfram,“ segir Sylvía. „Það sem ég fæ greidd laun fyrir eru aðallega verkefni sem felast í að gera allt tilbúið fyrir skurðlækninn og ég er mest í að pakka inn líffærum. Sem nemi má ég ekki gera mikið, en læknirinn er duglegur að leyfa mér að hjálpa til, gera einn saum hér og þar, og finna fyrir hjartanu sem dæmi.

- Auglýsing -

Þegar við tökum líffæri til rannsókna má ég hins vegar gera meira, enda er líffærið ekki gjafalíffæri í lifandi manneskju, heldur ónothæft nema í rannsóknir. Þá hef ég fengið að fjarlægja hjarta úr líffæragjafanum og fleira.

Þegar ég sá líffæragjafa í fyrsta sinn var áfall að sjá hann liggja á borði og vera haldið á lífi með vélum,“ segir Sylvía spurð að því hvernig vinnan við líffæraheimtina sé. „Mér finnst þetta hins vegar mjög spennandi starf og adrenalínið kikkar inn. Og ég læri alltaf eitthvað nýtt þótt ég hafi verið viðstödd mjög margar aðgerðir.“

Á Íslandi eru allir líffæragjafar samkvæmt lögum sem tóku gildi síðustu áramót, nema þeir hafi undirritað skjal um annað. Í Bandaríkjunum er því öfugt farið, einstaklingar þurfa að samþykkja líffæragjöf og nefnir Sylvía að þegar sótt er um ökuskírteini sé hægt að merkja við slíkt samþykki. Stundum er samþykki um líffæragjöf ekki til staðar og í þeim tilvikum þurfa ættingjar að samþykkja hana fyrir hönd dauðvona ættingja, svona eins og við sjáum í bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. En hefur hún eitthvað komið að slíku ferli?

„Nei, ég hef ekkert komið nálægt því. Þegar við fáum símtal er spítalinn búinn að samþykkja líffæraheimt, stundum er beðið í einn dag frá því að fjölskyldan er spurð og þar til við komum á staðinn. Oft er þetta mikið ferli, mikið af pappírum sem þarf að undirrita og á meðan er líffæragjafanum haldið lifandi með vélum,“ segir Sylvía og bætir við að hún hafi hvorki hitt líffæraþega né aðstandendur. Hins vegar segir hún að það sé alltaf ákveðið ferli fyrir líffæraheimt og hún hefur tekið þátt í því.

„Áður en líffæraheimt hefst er lesið upp bréf sem fjölskylda líffæragjafans hefur skrifað um hann, svona svipað og minningargrein, hver hann var og hvað hann gerði. Einnig er stundum tekið myndband af öllum í skurðstofunni, við segjum til nafns og hvert okkar hlutverk er og fjölskylda líffæragjafans fær að sjá það myndband ef hún vill. Síðan er þagnarstund í hálfa til eina mínútu áður en hafist er handa.“

Er einhver líffæraheimt eftirminnilegri en önnur?

„Verstu stundirnar eru þegar koma lítil börn, það er erfiðast, ég man eftir tveggja vikna barni sem hafði látist sem var náttúrlega afar sorglegt, en á sama tíma hugsaði maður um hina hliðina, að annað lítið barn hafi fengið nýtt hjarta eða annað líffæri,“ segir Sylvía.

Í mörgum tilvikum eru líffæragjafi og líffæraþegi hvor á sínum spítalanum, jafnvel hvor í sínu fylkinu og Sylvía hefur margoft flogið sem fylgdarmaður með líffæri. „Við fljúgum með lítilli einkaflugvél og ég hef farið til Kanada og margra fylkja í Bandaríkjunum. Við förum ekki mikið lengra, þó að flogið hafi verið til Alaska og Hawaii, þar sem líffærið þolir oftast mest átta klukkustundir. Þegar um hjarta er að ræða reynum við að fara ekki yfir fjórar klukkustundir. Tíminn sem miðað er við er frá því líffæri er tekið úr gjafa þar til það er sett í þegann.“

Sylvía, Michael og Paul Chang, yfirmaður þeirra, við einkaflugvélina sem flytur líffæri frá gjöfum til þega.

Komin í alvöruvinnu eftir áratug

Ljóst er að læknanámið fram undan verður bæði langt og strangt. „Læknanámið tekur fjögur ár og ef ég fer í skurðlækninn eru það fimm ár til viðbótar. Ég verð orðin rúmlega þrítug þegar ég verð komin með alvöruvinnu,“ segir Sylvía og hlær.

„Í læknisfræðinni sjálfri eru engin laun og maður tekur lán fyrir öllu. Ég hef verið að skoða kostnaðinn í nokkrum skólum og nemendurnir þar eru yfirleitt með lán upp á um 280 þúsund dollara eftir fjögurra ára nám,“ segir Sylvía. „En þegar ég verð komin í sérhæft nám fæ ég laun, en vinnutíminn er hinsvegar 80 tímar á viku. Þetta er sem sagt mikið álag og langur vinnutími.“

Þessu til viðbótar fylgir svo heimalærdómur, hefur Sylvía tíma fyrir eitthvað annað? „Ég veit það ekki,“ segir hún og hlær.

 

Gríðarleg samkeppni um háskólanám

Sylvía ákvað að taka sér tveggja ára frí eftir að hún lauk líffræðináminu fyrir rúmu ári, sækja um læknaháskóla og vinna. Er það ekki ókostur fyrir frekara nám að taka sér pásu? „Nei, alls ekki, flestir skólar kunna að meta að nemendur hafi reynslu að baki, ekki bara bóknám. Meðalaldur læknanema hér er 24 ár, margir taka hlé til að vinna á rannsóknarstofu, fara til útlanda, fara í mastersprógramm á milli, bara svo dæmi séu tekin. Svo lengi sem maður sýnir áhuga og gerir eitthvað tengt læknisfræðinni,“ segir Sylvía, sem er á fullu að sækja um í læknaháskólum um þessar mundir.

„Þetta er 15 mánaða ferli frá því sótt er um og þar til umsókn er samþykkt og hægt er að hefja nám. Ég veit ekki alveg hvernig þetta er á Íslandi, hérna er hægt að vera með fullkomnar einkunnir og fullkomið próf, en samt ekki komist inn ef reynsluna skortir. Samkeppnin er mikil, ég held að í flestum skólum sæki yfirleitt 10 þúsund nemendur um og keppa um 150 sæti. Í alla skólana koma umsóknir frá um 50 þúsund nemendum á hverju ári og um 20 þúsund komast inn. Flestir sækja um svona 20 skóla, ég sótti um 36,“ segir Sylvía og hlær, en hún er þegar búin að fá inngöngu í nokkra skóla. „Ég hef tvær vikur til að segja já eða nei við boði hvers skóla, en svo má ég halda eins mörgum boðum og ég vil opnum þar til í apríl. Um miðjan apríl þarf ég að fækka þeim í þrjá skóla og í lok apríl þarf ég að velja einn þeirra. Ég þarf því ekki að stressa mig of mikið við að velja strax, sem er mjög gott. Persónulega langar mig til að vera í Kaliforníu ef ég get það, fyrst og fremst af því að ég hef búið hér í átta ár þannig að Kalifornía er „heima“ og út af veðrinu. Segjum að ég komist inn í nokkra skóla hér, þá er spurning hvað þeir vilja veita mér mikinn námsstyrk svo ég viti hversu hátt lán ég þarf að taka á móti,“ segir Sylvía. „Og það skiptir líka máli á hvaða spítala þeir sem útskrifast fara að vinna á, það er líka mikil samkeppni að komast í starf á góðum spítala. Margir í Kaliforníu vilja vera þar og mikil samkeppni. Það er hins vegar hægt að vinna starfsnámið (residency), hvar sem er í Bandaríkjunum.“

Sylvía og kærastinn, Michael Wong, eru samtaka í námi og starfi.

Kærastinn stuðningur en ekki samkeppni

Sylvía er þó ekki ein í Bandaríkjunum, því hún býr með kærasta sínum, Michael Wong, sem er í sömu stöðu og hún, að sækja um í læknaháskólum.

„Við kynntumst í menntaskóla og höfum verið saman í sex ár, fórum í sama háskóla og sóttum um í sömu læknaskólum. Núna erum við bæði í viðtölum vegna umsóknanna og bíðum eftir svörum um hvar við komumst inn,“ segir Sylvía.

Ríkir samkeppni á milli þeirra? „Nei, alls ekki, við erum með svipaðar einkunnir og inntökupróf, svipaða reynslu þannig að það við lærum frekar saman og styðjum hvort annað,“ segir Sylvía.

Margir læknanemar á þeirra aldri og aðeins eldri hafa stofnað fjölskyldu og eignast börn meðan á náminu stendur og segir Sylvía marga læknaháskóla hjálpa barnafjölskyldum með styrkjum og dagvistun. Einnig segir hún flesta nema duglega að finna sér tómstundir. „Hver árgangur er með eigið fótboltalið, blaklið og fleira. Og hver árgangur hittist og gerir alls konar saman. Það gefa sér flestir tíma fyrir annað með námi og vinnu.“

Aðspurð um hvort hún ætli að koma heim til Íslands að námi loknu, segist Sylvía hafa hugsað um það en sjái þó fyrir sér að vinna í Bandaríkjunum. „Margir læknanemar fara og vinna annars staðar í Bandaríkjunum eða í öðru landi í nokkra mánuði. Það væri spennandi að gera það, en maður veit aldrei. Enda kannski óþarfi að hugsa það strax, þar sem minnst níu ár eru í útskrift.“

Faðir Sylvíu og þrjú hálfsystkini hennar búa á Íslandi, en hvernig er að vera svona langt frá þeim? „Það var erfitt fyrst en við tölum saman á Facetime daglega sem gerir þetta allt auðveldara. Ég reyni að koma heim einu sinni á ári, tvisvar ef ég get. Litla systir mín, tíu ára, vex og dafnar og það er svolítið erfitt að missa af því öllu, en tæknin gerir allt miklu auðveldara,“ segir Sylvía.

En saknar þú Íslands? „Já, ég geri það, það er allt öðruvísi umhverfi hérna en ég sakna matarins mest: lambakjötsins, pylsanna, nammibarsins og íssins, ég er alltaf spenntust fyrir ísnum,“ segir Sylvía og hlær og bætir við að lokum að skortur sé á góðri sósu með mat í Bandaríkjunum, aðeins flöskusósur séu í boði.

Sylvía ásamt föður sínum og yngri systkinum í Disneylandi í Kaliforníu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -