Fimmtudagur 10. október, 2024
1.6 C
Reykjavik

Erik frá Luleå – Leitin að týnda drykkjufélaganum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2000 ferðaðist ég um Evrópu ásamt tveimur vinum mínum, þeim Tobba og Kára. Við fórum til níu landa á fimm vikum og notuðum til þess svokallaðan Interrail-passa sem við keyptum af ferðafélagi fyrir stúdenta. Ég var tvítugur, en vinir mínir 22 ára.

Og það sem það var nú gaman. Við höfðum það fyrir sið að í hvert skipti sem við lentum í vandræðum þá spurðum við okkur: „Hvað myndi Hemmi Gunn gera?“ Og lausnin var undantekningarlaust að fá sér bjór. Og við það minnkuðu vandræðin til muna.

Hvað myndi Hemmi Gunn gera? Við Tobbi í þýskum bjórgarði.
Ljósmynd: Óþekktur eldri borgari með myndavél pistlahöfundar

Við byrjuðum ferðina í Danmörku, en leiddist hún og vildum fara austar sem fyrst. Þegar við vorum komnir til Prag í Tékklandi ákváðum við að staldra þar við í nokkra daga, slíkt var verðlagið á bjór og mat að við gátum lifað eins og kóngar. Sem við gerðum í fimm daga. Á öðrum degi þar í borg kom að okkur ungur, síðhærður drengur með ennisband á höfði, í stíl við Axl Rose, söngvara Guns & Roses. Við vorum með sænskt tóbak í vörunum, snus kallað, og því tók drengurinn eftir. „Are ju from Sweden?“ spurði hann með þykkum sænskum hreim. Við neituðum því, en sögðumst vera frá Íslandi. Þá benti hann á varirnar á okkur skjálfandi: „Du ju hef snus?“ Á þessum tíma var slíkt tóbak ólöglegt í Evrópu, en drengurinn, sem sagðist heita Erik og vera frá Luleå í Svíþjóð, hafði verið að ferðast einn um álfuna í mánuð án þess að fá snus og var kominn með fráhvarfseinkenni.

Við deildum snusinu að sjálfsögðu með þessum nýja vini okkar. Ég og Erik tengdumst strax miklum böndum því við vorum á svipuðum aldri, hann var 18 ára. Einnig hlustaði hann á Meat Loaf líkt og ég, en þá þótti það hallærislegt en í dag þykir það nokkuð fínt, svona af því að karlinn er látinn. Og hann var með sítt hár, ég hafði verið með sítt hár nokkrum árum áður og reyndar nokkrum árum síðar aftur. Og svo var hann bara fjári skemmtilegur.

Ég hugsi fyrir utan hringleikahúsið í Róm

Erik frá Luleå hékk með okkur alla dagana í Prag, þar til við héldum áfram ferðalagi okkar. Eitt atvik stendur upp úr í Prag, en það er þegar við vinirnir þrír ásamt Erik, stungum af á bar án þess að borga fyrir nokkra bjóra. Þetta gerðum við ekki af því að bjórinn var svo dýr því í heild skulduðum við um 120 krónur á mann. Nei, við gerðum þetta af því að okkur vantaði sögur úr ferðinni. Það nennir enginn að heyra hversu grænt grasið var sem bannað var að stíga á nálægt skakka turninum í Pisa eða hversu heitt var í Grikklandi. En söguna um fjóra vitleysinga sem eltir voru langa leið af reiðum barþjónum eftir að þeir hlupu út af bar án þess að borga vilja allir heyra. Í hlaupunum varð Erik frá Luleå viðskila við okkur hina og sáum við hann ekki aftur fyrr en daginn eftir. Hann hafði verið það hræddur að hann hljóp út fyrir borgarmörkin og svo aftur til baka og var ekki kominn í miðbæinn aftur fyrr en upp undir morgun.

Eitt af heimskupörunum í ferðinni.

En síðan skildi leiðir. Ég tók sjálfsagt niður Hotmail-tölvupóstfang hans en týndi svo miðanum, en lengi vel leitaði ég Eriks frá Luleå, svona annað slagið. Til dæmis ári seinna þegar ég vann á tjaldstæðinu á Egilsstöðum og stór ungmennahópur frá Luleå tjaldaði þar. Þá gekk ég um svæðið og spurði hvort þau þekktu nokkuð Erik. Þau gerðu það ekki.

- Auglýsing -

Árið 2017 datt mér sú snilldarhugmynd í hug að gerast meðlimur í sölugrúppu á Facebook fyrir íbúa Luleå. Og svo sagði ég söguna þar af Erik frá Luleå og heimskupörum okkar í Prag árið 2000 og auglýsti eftir honum. Næsta dag fékk ég skilaboð frá sænskri blaðakonu sem sem vildi fjalla um þessa leit mína að sænskum drykkjufélaga. Ég sagði henni alla sólarsöguna og sendi henni ljósmyndir úr ferðinni, en þó átti ég enga mynd af honum Erik. Og fréttin birtist í vefútgáfu blaðs frá Luleå, en það nær um stórt svæði Norður-Svíþjóðar. Og viti menn! Erik fannst og það sem skrítnara var, hann var vinur manns sem vann með blaðakonunni.

Ungi maðurinn og hafið

Ég sem sagt komst að því að Erik frá Luleå heitir fullu nafni Erik Tollin og býr enn í Luleå. Ég sendi á hann vinabeiðni á Facebook sem hann samþykkti og við byrjum að spjalla. Hann var orðinn verkefnastjóri í byggingabransanum og kominn með konu og tvö falleg börn. Ég var vandræðalega ánægður með að hafa loksins fundið Erik frá Luleå eftir öll þessi ár. Og við erum orðnir vinir á Facebook. En síðan höfum við ekki átt orðastað. Og hana nú!

Lesa má glænýtt blað Mannlífs hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -