Miðvikudagur 9. október, 2024
0.8 C
Reykjavik

Fjölskylda oddvita reisti byggingu án leyfa á landi sem hún á ekki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölskylda oddvita Árneshrepps á Ströndum reisti byggingu á landi sem hún á ekki. Þar að auki var byggingin reist í leyfisleysi. Fyrir framkvæmdinni er skráður Magnús Karl Pétursson, hótelstjóri á Djúpavík og tengdasonur Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita hreppsins.

Forsaga málsins er sú að fjölskyldan fékk fyrir mörgum árum svokallað stöðuleyfi fyrir því að koma fyrir gámum á landi í Djúpavík á Ströndum. Undanfarin ár hefur fjölskyldan síðan byggt í kringum þessa gáma en fyrir því liggja ekki leyfi frá hinum opinbera. Samkvæmt heimildum Mannlífs á Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., umrædda lóð sem byggingin stendur á.

Númer 1, 2 og 3 þá þarftu að eiga lóðina sem þú ætlar að byggja á og svo að sjálfsögðu að fá leyfi fyrir því líka

Þórður Már Sigfússon, skipulagsfulltrúi hreppsins, staðfestir að fjölskyldan hafi fram til þessa dags ekki átt jörðina sem byggingin var reist á. Hann segir málið í vinnslu og vonast til þess að landið fáist fært til fjölskyldunnar. „Þetta er mjög erfitt mál. Upphaflega fengu þau stöðuleyfi fyrir gáma en síðan hefur verið hús reist yfir þá. Það liggur fyrir að það hefur ekkert leyfi verið fyrir þessari byggingu. Fjölskyldan bað mig að stofna lóð undir þessa byggingu en ég sagði nei því það liggur ekki fyrir að þau eigi hana. Þangað til get ég ekkert gert en það breytir því samt ekki að byggingin reis án leyfis og í þokkabót á lóð sem þau eiga ekki,“ segir Þórður Már.

Fulltrúar hins opinbera vonast til að fjölskyldan komist yfir lóðina og skili inn leyfisumsókn

Aðspurður segir Þórður Már að svona eigi auðvitað ekki að framkvæma hlutina. „Algjörlega og það er búið að segja þeim það. Núna er það byggingafulltrúans að taka afstöðu til byggingarinnar,“ segir Þórður Már.

Grettir Ásmundsson, byggingafulltrúi hreppsins, segir ljóst að ekkert byggingarleyfi hafi verið veitt og því hafi framkvæmdir verið stöðvaðar. Aðspurður segir hann málið í ferli þar sem oddvitafjölskyldunni verður gefinn kostur á að komast yfir lóðina og skila inn teikningum með leyfisumsókn. „Við höfum fengið bréf frá lögmanni þeirra og við höfum einnig fengið óháðan lögmann til að skoða þetta. Hnífurinn stendur þannig í kúnni að þau eiga ekki lóðina og hafa ekki verið veitt nein leyfi fyrir þessari byggingu. Það liggur alveg fyrir að þetta er óleyfisframkvæmd. Það gengur ekki að hver sem er sé bara að byggja einhvers staðar. Númer 1, 2 og 3 þá þarftu að eiga lóðina sem þú ætlar að byggja á og svo að sjálfsögðu að fá leyfi fyrir því líka,“ segir Grettir.

Eins og áður sagði er Magnús tengdasonur Evu oddvita skráður fyrir byggingunni. Í samtali við Mannlíf segir Eva að byggingin sé sér óviðkomandi og bendir á að málið sé í réttu ferli. Aðspurð játar oddvitinn því að hafa verið í samskiptum við bygginga- og skipulagsfulltrúana vegna málsins. „Það er alls ekki svo að ég standi að þessum byggingum og það er allt annað mál að ég hafi verið að segja þeim til eða eitthvað svoleiðis. Það er verið að vinda ofan af aldgömlu rugli og við ákváðum sjálf að draga úr framkvæmdunum á meðan verið er að kippa þessu í liðinn. Að öðru leyti hef ég ekkert um það að segja,“ segir Eva.

- Auglýsing -
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshrepi á Ströndum

Samtal Mannlífs við Evu þróaðist í þá veru að dóttir hennar, Kristjana S. María Ásbjörnsdóttir, tók yfir símtalið og sagði það einfaldlega ekki vera rétt sem haldið er fram. Hér væri aðeins það eitt á ferðinni að óvildarmenn móður hennar væru að reyna blása upp ryki og koma höggi á oddvitann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -