Miðvikudagur 17. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Glúmur Baldvinsson vildi verða sendiherra; „Fráfall systur minnar, Snæfríðar, var mesta sorgin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Glúmur Baldvinsson mun skipa oddvitasæti fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn í alþingiskosningunum í haust. Hvers vegna vill hann fara þessa leið? Og hvers vegna þessi flokkur en ekki einhver annar? Og hver er draumurinn hvað varðar stjórnmálin hjá manninum sem er sonur Jóns Baldvins Hannibalssonar?

„Frá því ég var barn óttaðist ég ekkert meira en að þurfa að fara í stjórnmál eins og faðir minn eða afi, Hannibal Valdimarsson. Öll þessi læti og allar þessar hringingar frá sturluðu fólki um miðjar nætur og öll þessi rætna gagnrýni. Ég stúderaði alþjóðastjórnmál af því mig langaði út; að komast burt frá þessu og fá að njóta mín á eigin verðleikum. Og það gerði ég. Markmiðið var síðan að verða sendiherra en utanríkisráðherrar sem á eftir föður mínum komu höfðu engan áhuga á starfskröftum sonar Jóns Baldvins. Eftir því sem ég eltist óx mér sjálfstraust og ég íhugaði stjórnmálaþátttöku en einvörðungu á síðari helft ævi minnar teldi ég samfélagið á villgötum og sjálfan mig í stakk búinn til að gera eitthvað í því og leggja eitthvað til málanna. Nú tel ég bæði skilyrði uppfyllt. Ég er enn ungur og ferskur og heilsuhraustur svo nú er tíminn kominn. Hvers vegna valdi ég Frjálslynda lýðræðisflokkinn? Ég er krati að upplagi og dáðist að Alþýðuflokknum gamla og væri í honum ef faðir minn hefði ekki gert þau mistök að láta hann renna í samkrulli með vinstra liðinu og Kvennalistanum. Kratarnir hafa týnst í þeim flokki. Þeir eru horfnir. Svo Samfylkingin kom aldrei til greina. Þá leit ég til Viðreisnar en ólýðræðisleg vinnubrögð þeirra við uppstokkun á lista fellur mér ekki í geð og ég er á móti aðild Íslands að ESB að svo stöddu. Þegar Guðmundur Franklín, vinur minn frá æsku, leitaði til mín ákvað ég að slá til og taka oddvitasæti með það að markmiði að ráða miklu um áherslumál af kratískum meiði. Þarna hef ég sem sé tækifæri til að færa flokkinn til kratisma. Það tækifæri hef ég ekki annars staðar. Ég hafði hugsað mér að stofna nýjan Alþýðuflokk, sem átti að heita Krataflokkurinn, en ég hafði hvorki tíma né bolmagn til þess að koma honum á koppinn í tæka tíð. Svo Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn skal það vera.“

Glúmur segir að áherslur sínar séu í stuttu máli að gera Ísland að fyrirmyndarríki jöfnuðar sem aðrar þjóðir geti litið upp til og haft að leiðarljósi.

„Það er skömm að því að svo ríkt land búi við svo mikla misskiptingu auðs eins og raun ber vitni og einnig sú staðreynd að fátækt skuli fá að þrífast í svo ríku landi. Það er nóg til handa öllum. Helsta barátta mín í komandi kosningum verður á þessum nótum og mun ég beina spjótum mínum sérstaklega að gjörspilltu kvótakerfi til handa lítilli foréttindastétt sem skilar ekki því sem skila ber í formi auðlindarentu til samfélagsins sem er eigandi sjávarauðlindarinnar. Metnaður minn að þessu sinni er fyrst og fremst að komast á þing og rífa kjaft og sanna mig. Ráðherrastóll getur beðið.“

 

Helsta barátta mín í komandi kosningum verður á þessum nótum og mun ég beina spjótum mínum sérstaklega að gjörspilltu kvótakerfi til handa lítill foréttindastétt sem skilar ekki því sem skila ber í formi auðlindarentu til samfélagsins sem er eigandi sjávarauðlindarinnar.

Jón Baldvin Hannibalsson. Einn mest áberandi stjórnmálamaðurinn síðustu áratuga. Faðirinn. „Þegar faðir minn komst til valda dáðist ég af krafti hans, mælsku og ritlist og ekki síst hugrekki. Hann bauð íhaldinu, framsókn og auðmönnum birginn. Þá kviknaði áhugi hjá mér að feta í fótspor hans síðar um ævina teldi ég eins og áður sagði að ýmsu mætti breyta og að ég væri maðurinn í það. En ég tek fram að faðir minn er pólitískt animal sem byrjaði í pólitík sem marxisti um tólf ára aldur. Pólitík hefur alltaf verið ástríða hans. Ég tel mig hafa ýmsa hæfileika til að verða góður stjórnmálamaður og mögulega skemmtilegur stjórnmálamaður en ég mun aldrei komast með tærnar þar sem Jón Baldvin eða Hannibal höfðu hælana. Og það er allt í lagi. Ég vil bara gera mitt besta. Ekki verður hægt að biðja um meira. Ég á margar fyrirmyndir og þeir báðir eru þar á lista en einnig Winston Churchill, Bobby Kennedy, Tony Blair og nú síðast Boris Johnson. Ég fíla menn sem segja hug sinn umbúðarlaust.“

- Auglýsing -

 

Joe Biden ætti að segja af sér

Glúmur er með BA-gráðu í stjórnmálafræði og hagfræði frá Háskóla Íslands, MSc-gráðu í alþjóðasamskiptum og Evrópufræðum frá London School of Economics og MA-gráðu í alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum frá University of Miami. Hvers vegna þessar námsleiðir?

- Auglýsing -

„Af því ég fæddist og ólst upp í litlu fiskiplássi Ísafirði og á eyju norður í ballarhafi. Ég er fullur ævintýraþrár. Og ég ætlaði mér aldrei að festast hér á landi til eilífðar. Þess vegna valdi ég alþjóðasamskipti með það að markmiði að starfa ytra. Og það hef ég gert. Ég var upplýsingafulltrúi EFTA í Genf og Brussel og einnig Sameinuðu þjóðanna í Dubai, Líberíu og Sri lanka. Ég var verkefnisstjóri ÞSSÍ í Malaví í Afríku yfir verkefni vatns- og hreinlætismála sem fyrrum utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur lýst sem best heppnaða verkefni Íslendinga í Afríku. Svo var ég aðstoðaryfirmaður þróunardeildar NATO / ISAF í Kabúl Afganistan í hartnær ár og síðar yfirmaður International Relief and Development (bandarískt NGO) upplýsingamála og M&E (Monitoring and Evaluation) sem útleggjast má sem „mat og eftirfylgni á árangri verkefnisins“ sem snerist um að koma lífsnauðsynjum til stríðshjáðra fjölskyldna í suðurhluta Sýrlands í miðju borgarastríði.

 

En af hverju stúderaði ég alþjóðamál? Meginmarkmiðið var að verða sendiherra, ef það dygði ekki þá forsætisráðherra og ef það dyggði ekki þá utanríkisráðherra.“

Hvað lærði Glúmur af þessu öllu? „Það sem ég lærði var hvað við Íslendingar höfum það þó gott miðað við hundruðir milljóna annarra þjáðra í þróunarríkjum heimsins. En lengi má gott bæta.“

Talibanar hafa tekið völdin í Afganistan og flestir vita hvernig ástandið þar er í dag. Hvað segir Glúmur svo sem varðandi ábyrgð Íslendinga sem NATO-þjóðar?

„Bandaríkjamenn með hjálp NATO eyddu milljörðum í að byggja upp afganskan her síðasta áratug sem átti að halda Talibönum í skefjum. Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hélt því fram undir lokin að sá 300.000 manna her gæti varið borgara landsins. Hvílíkur reginmisskilningur og hvílík heimska. Þetta sýnir að forseti Bandaríkjanna skilur ekki Afganistan. Afganir bera enga hollustu til útlendinga og allra síst Bandaríkjanna. Afganistan er ekki eitt ríki heldur ættbálkasamfélag stríðsherra „Sturlunga style“. Ef forseti Bandaríkjanna skilur þetta ekki þá er spurt hvur á að skilja þetta? Þetta er mesta klúður forseta Bandaríkjanna frá ruglinu í Jimmy Carter fyrir 40 árum í Íran. Og verra. Joe Biden ætti að segja af sér tafarlaust. Og hvað segir Guðlaugur Þór utanríkisráðherra? Ástandið mun hverfa til fyrra horfs og konur og börn munu ekki njóta menntunar eða mannréttinda. Og konur verða kúgaðar að vanda og haldið í skefjum þrátt fyrir viðleitni Ingibjargar Sólrúnar. Og auðvitað eigum við að taka við þeim flóttamönnum sem okkur ber skylda til.“

 

Þetta er mesta klúður forseta Bandaríkjanna frá ruglinu í Jimmy Carter fyrir 40 árum í Íran. Og verra.

 

Mesta sorg lífsins

Eitt eilífðar smáblóm með tirandi tár sem tilbiður guð sinn og deyr. Íslands þúsund ár. Ísland er landið hans Glúms og íslensk náttúra er engri lík. Maðurinn sem hefur starfað á alþjóðavettvangi og kynnst heiminum meira en margur annar hefur unnið sem leiðsögumaður hér á landi.

„Ég elska útivist og íslenska náttúru sem er einstök. Ég hef heimsótt um 70 lönd um ævina en ekkert er fegurra en íslensk náttúra. Og ég elska að ferðast. Að vera á ferðinni. Og mér líður best á ferðalaginu sem ég met meira en að komast á áfangastað. Íslensk náttúra er okkar stærsta auðlind á undan fiskinum í sjónum og endurnýjanlegri orku. Uppáhaldsstaður minn eru Vestfirðir þar sem vegurinn endar. Það er fegursta svæði Íslands með sinn firðbláma eins og skáldið orti. Það vex eitt blóm fyrir vestan.“

Það var einmitt þar sem Glúmur Baldvinsson óx upp í firðinum á milli fjallanna bláu sem fara í hvíta vetrarbúninginn sinn eins og sjálf rjúpan þegar skyggja tekur. Skáldið skrifaði að lífið sé eins og saltfiskur. Stundum. Lífið getur verið eins og dagur og nótt. Svart og hvítt. Gleði og sorg. Sorgina þekkir Glúmur. Fráfall systur, fjölskylduerjur og ásakanir kvenna á hendur fjölskylduföðurnum sem hafa orðið opinberar í fjölmiðlum landsins og manna á millum.

„Fráfall systur minnar, Snæfríðar, var óvænt og mesta sorg lífs míns. Hún var besti vinur minn. Ég veit ekki hvort ég muni nokkru sinni jafna mig á dauða hennar. Ég hugsa til hennar á hverjum degi. Hún var langfegurst okkar systkina að utan sem innan. Fjölskylduerjurnar hafa vissulega tekið á. Ég elskaði Aldísi systur mína sem var mér svo góð í æsku. Hún var sólargeislinn minn. Svo veiktist hún, fjarlægðist og breyttist og ég missti hana. Svo nú á ég bara eina systur. En ég harka þetta af mér og vona að einn góðan veðurdag getum við öll náð sáttum á ný og orðið fjölskyldan sem við vorum. En ég lofa þér einu. Teldi ég föður minn sekan þá sneri ég baki við honum samstundis. Faðir minn er hlýr maður og minn besti vinur. Og ég þekki ekki þann mann sem þessar konur lýsa.“

Foreldrar Glúms, Jón Baldvin og Bryndís.
Mynd / Facebook

Glúmur segir að Snæfríður hafi hringt í sig á fimmtudagskvöldi og viljað hittast til að ræða mikilvæg mál yfir „dinner“ á föstudagskveldi. „Hvaða mál vildi hún ekki nefna. Daginn eftir sendi ég henni sms og bað um frest til morgundags. Og daginn eftir var hún farin. Og ég hef kennt mér um æ síðan að hafa ekki hitt hana þetta föstudagskvöld því þá hefðu hlutirnir mögulega farið á annan veg. Hin sorgin er missir Aldísar, systur minnar.“

 

Fráfall systur minnar, Snæfríðar, var óvænt og mesta sorg lífs míns. Hún var besti vinur minn. Ég veit ekki hvort ég muni nokkru sinni jafna mig á hennar missi.

Dauðinn. Dauðinn sem bíður allra og sem sumir þekkja betur en aðrir. Hvað er dauðinn í huga Glúms? „Hvað veit ég um það. Ætli hann sé ekki bara langur, óendanlegur svefn. Ef hann er það ekki væri gaman að hitta ástvini sína aftur þarna hinum megin eins og afa og ömmu, Dídí systur og Möllu frænku. En ég veðja ekki á það. Svo væri ekki leiðinlegt að enda uppi í í Valhöll og þá á ég ekki við Valhölll Sjálfstæðisflokksins heldur Valhöll víkinga og valkyrja.“

 

Hvatning ömmu

Heimsmaður.

Það mætta nota það orð. Og þegar hann er spurður hvað hafi mest mótað hann nefnir hann æskuárin fyrir vestan þar sem blómin vaxa. „Þetta voru stórkostleg æskuár á Ísafirði þar sem ég horfði út fjörðinn og dreymdi um að skoða heiminn. Nema þá vissi ég ekki að ég horfði til norðurs í átt að norðurpólnum. Mamma fór með okkur snemma í ferðalög um heiminn og það kveikti bakteríuna um að skoða hann allan. 70 lönd þegar komin og nóg eftir. Og amma mín mótaði mig með því að kenna mér að gefast aldrei upp þótt á móti blési. Eitt sinn var ég nýráðinn á Bylgjuna tvítugur og fokkaði illilega upp fyrsta fréttalestri. Amma yrti ekki á mig við matarborðið þar sem ég sat skömmustulegur. Ég ætlaði aldrei að mæta aftur á Bylgjuna eftir þessa niðurlægingu. Svo stóð ég upp og kvaddi og þá sagði amma, Aldís Schram: „Glúmur minn, mér finnst að fólk eigi ekki að gera það sem það getur ekki gert.“ Betri hvatningu hef ég aldrei fengið því ég reiddist og ætlaði sko að sýna henni og hljóp upp á Bylgju og heimtaði að lesa næstu fréttir og las eins og engill. Og alltaf þaðan í frá. En að lokum hafa ferðalög mín og störf um hin hrjáðu þróunarlönd kennt mér að þakka fyrir það sem ég hef.“

 

Smáofsi, kjaftur og húmor

Hann þykir vera með munninn fyrir neðan nefið og jafnvel kjaftfor. Hvað segir hann sjálfur við því?

„Ég er jöfn blanda af móður minni og föður. Þegar ég skrifa get ég ekki skrifað venjulegan, dauðan texta. Þeir verða að vera lifandi og húmorískir og já, kjaftforir. Það er bara minn stíll og ég á erfitt að beygja mig og bugta fyrir nokkrum manni. Mamma reyndi oft að tempra þennan kannski hroka minn og ofsa með því að skamma mig og segja mér að sýna kurteisi. Og innst inni er ég næmur og tilfinningaríkur og vil ekki særa fólk. Svo það er eitthvað „duality“ þarna. Því ég hef stóra samvisku sem ég fæ væntanlega frá móður minni. En ég nenni ekki að lesa eftir mig texta nema honum fylgi smáofsi, kjaftur og húmor. En ég læt engan valta yfir mig án þess að svara í sömu mynt. Kannski lagast ég með árunum.“

 

Og innst inni er ég næmur og tilfinningaríkur og vil ekki særa fólk.

Glúmur bað Ingu Sæland nýlega afsökunar eftir að hafa verið svolítið dónalegur. Örlítið. Er hann mjúkur maður innst inni? „Já, ég er mjúkur maður innst inni og vil engum illlt og fæ samviskubit særi ég einhvern. Og ég er það mjúkur að ég má ekkert illt sjá eins og slæma meðferð á minnimáttar eins og fólki sem af einhverjum ástæðum hefur átt erfitt uppdráttar og getur ekki varið sig. Og svo þoli ég ekki illa meðferð á dýrum; sem sé málleysingjum sem geta ekki borið hendur yfir höfuð sér. Kannski er þessi harka bara varnarmekanismi sem ég hef þróað með mér síðustu áratugi verandi sonur foreldra minna.“

 

Glúmur Baldvinsson

 

Ástin er vinátta

Glúmur á sér líf eftir vinnu.

„Áhugamál mín eru íþróttir. Afi, Björgvin Schram, átti Adidas og var formaður KSÍ og fyrirliði KR og landsliðsins. Ég dýrkaði hann og vildi verða eins og hann. Sama gildir um Ellert Schram, móðurbróður minn. Ég spilaði fótbolta frá fjögurra ára aldri til 15 þegar ég lét blekkjast af hinu vonda eins og skemmtunum og kvennafari. Ég sé alltaf eftir því að hafa hætt. Svo elska ég tennis og minn uppáhaldsmaður er Roger Federer. Hann er listamaður íþróttarinnar og ég þoli ekki að sjá hann tapa. Sjálfur hefði ég viljað byrja að æfa tennis fjögurra ára og náð að verða atvinnumaður. En það varð ekki. Svo er ég heltekinn aðdándi Manchester United og KR. Hvað tónlist varðar þá er ég algjör rati. Alæta. Uppáhaldshljómsveitirnar eru Radio Head, Suede, Oasis, Nirvana, Keane, David Bowie, Rolling Stones, Bítlarnir og Elvis Presley. Þegar ég var ungur las ég afar mikið. Til dæmis las ég allar Íslendingasögurnar þegar ég var níu ára. Svo las ég bækur eftir Laxness sem er snillingur sem og bækur eftir Hemingway. En ég mætti lesa meira í dag. Svo eru það ferðalögin án fyrirheits eða áfangastaðar sem ég elska og vil helsta ferðast í gamaldagslestum um veröldina.“

Já, hann elskar. Hann elskar Línu Rut myndlistarmann.

Hvað er ástin?

„Ástin er vinátta. Foreldrar mínir hafa verið vinir í 62 ár, hugsaðu þér, og eru sjálfum sér næg um vináttu. Og þar blómstrar ástin enn. Ástin snýst um það að geta hlegið saman. Að geta treyst hvort öðru í fjarlægð og geta ekki beðið eftir að finna hvort annað aftur. Ástin er tilhlökkun og án ástarinnar er lífið einskis vert. Það að fá að upplifa ást eru forréttindi sem ekki allir fá að njóta um lífsleiðina.“ Og já, Glúmur segist vera rómantískur djúpt undir niðri.

 

Glúmur og Lína Rut.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -