Miðvikudagur 22. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Guðrún Aspelund, verðandi sóttvarnalæknir: Það eru ýmsir steinar í götunni sem þarf að velta frá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þessu starfi fylgir mikil ábyrgð og þetta eru stór spor að fara í, að fylgja á eftir Þórólfi; ég geri mér grein fyrir því. En vonandi verður ekki sama ástandið áfram eins og undanfarin tvö ár,“ segir Guðrún Aspelund sem ráðin hefur verið nýr sóttvarnalæknir frá og með 1. september. Guðrún starfar sem yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis. „Ég vona að ég standi mig vel þegar ég tek við af Þórólfi sem er búinn að vera frábær í þessu starfi og hann er ekkert farinn enn; ég vona að ég hafi aðgang að honum áfram og fái góð ráð en annars hlakka ég til að byrja.“

Innlögnum og þeim sem greinast með Covid er að fjölga. Hvaða augum lítur Guðrún ástandið í dag?

Örvunarbólusetning kemur í veg fyrir alvarleg veikindi hjá þessum hópum.

„Við erum að fylgjast vel með því, sérstaklega spítalainnlögnum og alvarlegum veikindum. Þetta er ekki alveg nógu gott en aðgerðirnar núna miðast fyrst og fremst að því að reyna að hvetja til bólusetningar og auka þátttöku sérstaklega þeirra sem eru aldraðir eða viðkvæmir,“ segir Guðrún en nú er farið að bjóða upp á fjórðu sprautuna. „Við ráðleggjum sérstaklega þeim að fara í fjórðu sprautuna sem eru viðkvæmir og þá á ég við aldraða – sérstaklega þá sem eru áttræðir og eldri – og yngra fólk sem er með undirliggjandi áhættuþætti og þeim sem eru ónæmisbældir af ýmsum ástæðum. Þetta er fólkið sem hefur sýnt sig að er aðallega að leggjast inn á spítala og verða alvarlega veikt. Rannsóknir hafa sýnt að örvunarbólusetning kemur í veg fyrir alvarleg veikindi hjá þessum hópum. Það er því miður þannig að ónæmissvarið eftir bólusetningu dvínar á nokkrum mánuðum og þess vegna erum við að hvetja til þess að sérstaklega þetta fólk fari í örvunarbólusetningu. Varðandi aðra þá er ekki átak í gangi en hins vegar má fólk fara í fjórðu sprautuna ef það vill. Það á ekki að vera nein hindrun fyrir þá sem vilja að fara í örvunarbólusetningu og það er til nóg af bóluefni en ágóðinn fyrir þá er ef til vill minni.“

Fjölbreytt starfsemi

Guðrún tekur formlega við sem sóttvarnalæknir 1. september eins og þegar hefur komið fram. Hver eru helstu verkefni sóttvarnalæknis?

Núna erum við sérstaklega að gera upp Covid-19 tímann.

„Það eru þessi verkefni tengd Covid-19 og síðan eru bólusetningar almennt stór þáttur í starfsemi okkar. Núna erum við sérstaklega að gera upp Covid-19 tímann – þó faraldurinn sé ekki búinn – en það má segja að nú séu ákveðin kaflaskipti og við höfum áhuga á að fara yfir það, svo sem hvað var vel gert og hvað hefði ef til vill mátt gera á annan hátt. Við þurfum að uppfæra viðbragðsáætlanir og huga að neyðarbirgðum hlífðarbúnaðar og lyfja. Þá er ýmis vöktun stór hluti af okkar starfi; fylgjast með hvaða sjúkdómar eru í gangi, hver tíðni þeirra er og hvort það séu einhver frávik frá því sem verið hefur áður og ef svo er þá hvers vegna. Við fylgjumst líka með notkun á sýklalyfjum og þá til þess að reyna að sporna við sýklalyfjaónæmi sem er vaxandi vandamál í heiminum. Síðan höfum við hlutverk í ýmiss konar fræðslu, upplýsingagjöf og forvarnarstarfi; það er líka hlutverk sóttvarnalæknis. Þannig að þetta eru allt verkefni sem við munum halda áfram með. Síðan hefur verið mikið samstarf við alþjóðastofnanir og það er heldur að aukast ef eitthvað er og þá tengist það aðallega hinum Norðurlöndunum, öðrum Evrópulöndum og svo Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þar sem við tilheyrum Evrópska efnahagssvæðinu þá þurfum við einnig að skila reglulega ýmsum gögnum og skýrslum til Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar. Þetta eru þau helstu verkefni sem eru viðvarandi.“

- Auglýsing -

Yale og Columbia

Guðrún stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og raungreinar heilluðu. Það var á þessum árum sem hún ákvað að fara í læknisfræði. „Ég hafði ýmsar hugmyndir sem krakki og unglingur um hvað gæti verið spennandi en síðan í menntaskóla fór ég að hugsa meira um þetta. Ég hafði alltaf gaman af raungreinum í skóla og endaði svo á að fara í læknisfræði,“ segir Guðrún sem útskrifaðist frá MR vorið 1990. Hún segir að það sem hafi heillað sig við læknisfræðina sé sambland af mannlegum þáttum og vísindum. „Ég hafði gaman af stærðfræði en ég hafði ekki hug á að fara í hreinar vísindagreinar eins og verkfræði eða efnafræði og mér fannst aðlaðandi að vinna með fólki og læknisfræði er einnig vísindagrein og þar voru margir möguleikar hvað hægt væri að gera í framtíðinni. Mér fannst þetta vera spennandi kostur.“

Guðrún er með emb­ætt­is­próf í lækn­is­fræði frá Háskóla Íslands og sér­fræði­menntun í bæði almennum skurð­lækn­ingum og barna­skurð­lækn­ingum. „Ég fór í sérfræðinám í Bandaríkjunum og var í Yale-háskóla í Connecticut þar sem ég var í fimm ár í námi í almennum skurðlækningum og svo í tvö ár við rannsóknir. Svo fór ég til Toronto í Kanada þar sem ég var í sérfræðinámi í tvö ár barnaskurðlækningum við Hospital for Sick Children. Eftir það fór ég til New York þar sem ég bjó og starfaði í 10 ár.“ Guðrún var lektor og barna­skurð­læknir við Col­umbi­a-há­skóla frá 2007 til 2017.

Mér fannst spennandi að takast á við eitthvað nýtt.

- Auglýsing -

„Ég flutti frá New York til London árið 2018 en maðurinn minn, Gunnar Jakobsson, hafði unnið í rúm 20 ár í banka í New York og var beðinn um að taka að sér starf fyrir bankann í London og við ákváðum í sameiningu að flytja. Það er þannig í læknisfræðinni að maður getur ekki byrjað að vinna einn, tveir og þrír í nýju landi; það þarf að fá leyfi sem tekur sinn tíma. Ég sótti um leyfi og fékk það á endanum en á meðan ég var að hugsa minn gang nokkrum mánuðum eftir að ég flutti til London var auglýst starf hjá embætti landlæknis. Mér fannst spennandi að takast á við eitthvað nýtt svo í staðinn fyrir að fara að vinna sem skurðlæknir í nýju landi og byrja þar upp á nýtt ákvað ég að gera eitthvað allt annað en vera samt í læknisfræðinni og hjálpa fólki varðandi lýðheilsu.“

Guðrún byrjaði að vinna hjá sóttvarnalækni árið 2019; fyrst í fjarvinnu en hún kom þá til landsins einu sinni í mánuði og flutti fjölskyldan svo alfarið til landsins í mars 2020 en Gunnar hafði þegið starf hjá Seðlabanka Íslands sem varaseðlabankastjóri.

Hjónin eiga tvær dætur sem eru að verða 13 og 16 ára.

Lífið utan vinnu

Hvað með lífið þegar vinnunni sleppir? Hvað með áhugamál og lífsstílinn?

„Mér finnst gaman að útiveru. Mér finnst skemmtilegt á skíðum; bæði á gönguskíðum og svigskíðum. Svo hef ég verið svolítið að hlaupa. Ég hef líka gaman af því að teikna og fór í Myndlistarskólann í Reykjavík í fyrra í öllum þessum látum einnig til að gera eitthvað rólegt fyrir sjálfa mig.“ Hver er stíllinn hjá lækninum sem hefur haft gaman af að teikna frá því á æskuárunum? „Blýantsteikningar og uppstillingar. Skuggar og form. Mér finnst þetta mjög afslappandi og eitthvað sem ég hef fyrir mig.“

Lífið er ekkert auðvelt.

Skuggar og form. Stundum liggur skuggi yfir.

Starfið hefur mótað lækninn og nefnir Guðrún sérstaklega þegar hún starfaði sem skurðlæknir á stórum sjúkrahúsum þar sem vinnan og álagið var jafnan mikið. „Ég hef unnið með börnum og útkoman er yfirleitt góð en auðvitað gerist ýmislegt og það er alltaf átakanlegt og sérstaklega þegar um lítil börn er að ræða. Maður skilur stundum ekki hvernig fólk kemst í gegnum það. En fólk er ótrúlega seigt og hefur einhvern veginn mikinn vilja og getu til að halda áfram. Það er engin formúla fyrir því. Lífið er ekkert auðvelt. Maður verður að átta sig á því. Það kemur ýmislegt upp og það eru alls konar erfiðleikar. Maður getur ekki ætlast til þess að allt sé tóm hamingja. Það eru ýmsir steinar í götunni sem þarf að velta frá og þannig er bara lífið. Maður verður að taka því sem kemur og gera sitt besta til að vera sáttur við sjálfan sig.“

Guðrún talar um móðurhlutverkið. „Það er einstakt; mikil ábyrgð en mikil gleði sem gefur manni auðvitað mikið en breytir lífi manns.“

Hún nefnir enn eitt sem hefur valdið ákveðnum þáttaskilum í lífi sínu en það er að móðir hennar lést í fyrra. „Það var eitthvað sem slær mann sama hvenær það gerist held ég þegar það er einhver þér nákominn. Það var ákveðin reynsla.“

Hvað vill læknirinn segja um sorgina? „Auðvitað reynir maður að vinna með sorgina; halda áfram góðum samskiptum við fjölskylduna. Svo getur maður yljað sér við góðar minningar. Ég er þakklát fyrir hvað við áttum mömmu lengi og að við höfum pabba enn. Þannig að maður reynir að taka þetta á þeim jákvæðu nótum.“

Hvað vill Guðrún ráðleggja þeim sem eru að ganga í gegnum sorg? „Ég held það sé gott að tala við fólk; ekki byrgja þetta inni og láta þetta verða að einhverjum snjóbolta sem stækkar. Svo held ég að það sé mikilvægt að halda áfram að njóta lífsins. Ég held að þeir sem maður saknar myndu ekki vilja að við hættum því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -