Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

„Haltu þig í meira en kurteisisfjarlægð frá þeim sem vilja vefja þig í fjötra af boðum og bönnum í mataræði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira.

 

Í nýjasta pistil sínum skrifar Ragga um boð og bönn í matarvenjum að loknu samkomubanni.

Í dag 4. maí eru margir eins og beljur að vori og flykkjast í ondúleringu á hárgreiðslustofu, láta nuddara þukla skrokk, sjúkraþjálfara pota í vöðva, kírópraktóra hnykkja hálsa.

Við höfum þráð eðlilegt líf.
Við höfum þráð samneyti.

En nú er líka tíminn þar sem þér er sagt að grenna þig eftir hám í heimavistinni.

Þar sem ísskápurinn var aðeins nokkur skref í burtu og matur varð vinur, afþreying og dægradvöl.

- Auglýsing -

Nú ætlar hver einasti gúrú og samsteypa að flækja líf þitt með boðum og bönnum.
Stjarneðlisfræðilegu snæðingaplani, magískum matvælum, epískri kombinasjón af vítamínum eða stórkostlegri aðferð við hreinsun lifrar.

Ávextir eru stútfullir af sykri og skal forðast eins og loga vítis.
Borða á tveggja tíma fresti, á sautján tíma fresti, einu sinni á dag, annan hvern dag.
Forðast kolvetni eins og pláguna.
Ekki borða eftir kvöldmat þó þú sért svangur.
Sleppa hveiti, sykri, smjöri.
Slafra bernes, beikon og rjóma.
Engar mjólkurvörur. Ekkert glútein.
Ekkert sælgæti…. ALDREI
Logga kaloríur í app.

Við allar þessar reglur deyr eitthvað innra með okkur.
Lífsförunautar eru kvaddir.

- Auglýsing -

Bless brauð.
Bless Nóa Kropp.
Bless kartöflur og hrísgrjón
Bless ánægjuleg tilvera.

Eins og lúsugur Óliver Twist sem hafði ekki efni á brauðhleif er mænt löngunaraugum á hveitihleifana sem ekki má borða.
Og súkkulaðið.

Nema á laugardögum. Þá er nammidagur og allt leyfilegt. Undir þeim formerkjum að það er einskonar svarthol þar sem líkaminn ferlar ekki kaloríur.

Eftirleikurinn er bjúgur, sviti og slen langt fram eftir viku.
Sálin stútfull samviskubits.
Áhyggjur af þyngdaraukningu.
Jogginggallinn sportaður fram á miðvikudag til að fela bjúgaða vömb.
Óhófleg líkamsrækt til að brenna þessu hræðilega glúteini, kolvetnum, hveiti eða hvað það var sem er dauðasynd að innbyrða.

„Ohhh borðaði brauð með banana eftir kl sjö um kvöld og loggaði ekki í appið. Átján maríubænir og svipuhýðingar á mig.“

Lykillinn að hugarró, jafnvægi og heilbrigðu sambandi við mat er að strika út bannlistana.

Því þeir valda allt-eða-ekkert hugsununum.
Normalíseraðu rúnstykkið eða Nóa Kroppið.
Þá þarftu ekki að klára pokann þar til augun standa á stilkum.
Því þú getur slafrað hóflegt magn á morgun og hinn og hinn.

Ekkert eitt matvæli spikar þig eins og holdanaut.
Ekkert eitt matvæli tálgar þig í Adonis sjálfan.

Ávextir fullnægja oft sætuþörf og gera þig ólíklegri til að sækja í sælgæti.
Ávextir veita haug af trefjum og fyllingu og aðeins örfáar hitaeiningar.
Ávextir eru líka gómsætir og gordjöss.

Haltu þig í meira en kurteisisfjarlægð frá þeim sem vilja vefja þig í fjötra af boðum og bönnum í mataræði.

Því þú verður með þá snöru um hálsinn um ókomna tíð með ranghugmyndum um hvað þú mátt og mátt ekki.

Sprittaðu eyru og augu fyrir kjaftæði internetsins.

Mynd / Ragga Nagli

Facebooksíða Röggu nagla.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -