Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Hildur Sólveig, bæjarfulltrúi í Eyjum: „Vinir, fjölskylda, trúin og vonin skiptir miklu máli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Að geta lagt mitt af mörkum við að gera samfélagið mitt betra og að vera börnum mínum góð fyrirmynd skiptir mig miklu máli. Ég vil geta notið lífsins í Vestmannaeyjum, því hér á ég heima,“ segir Hildur Sólveig Sigurðardóttir þegar hún er spurð hverjir draumar hennar séu og markmið varðandi stjórnmálin og persónulega lífið, en hún er bæjarfulltrúi í Eyjum og í 2. sæti á lista Sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar á laugardag. Hildur Sólveig hefur tekið þátt í stjórnmálum síðan 2010. „Á þeim tíma hef ég lært mikið um rekstur sveitarfélagsins, kynnst atvinnulífinu mun betur, eignast vini fyrir lífstíð og áttað mig á að allir geta haft áhrif á nærsamfélagið sitt og að sveitarfélagið samanstendur fyrst og fremst af íbúunum sem það byggja.“

Jú, það styttist í kosningar. Hvernig hafa síðustu dagar verið?

„Mjög skemmtilegir en annasamir. Mikið um að vera, fjölmargir viðburðir og marga að hitta sem bætist ofan á hitt hversdagslega umstang. En þetta er mjög lærdómsríkur tími og gaman að kynnast betur meðframbjóðendum sínum og samfélaginu enn betur.“

Eins vill unga fólkið eiga möguleika á að geta stundað háskólanám í heimabyggð.

Hvað brennur helst á fólki sem Hildur Sólveig hittir á kosningafundum? Hvað er fólk helst ánægt með og hverju vill fólk helst breyta?

„Fólk er almennt ánægt með og stolt af Vestmannaeyjum. Heilbrigðismálin, samgöngumálin, rafmagnsmálin og málefni eldri borgara brenna þó á mörgum og hagsmunagæslu gagnvart þessu þarf að bæta. Við finnum líka að það brennur mikið á unga fólkinu að fá aðstöðu til sköpunar á hinum ýmsu sviðum og við viljum svara því. Eins vill unga fólkið eiga möguleika á að geta stundað háskólanám í heimabyggð með öflugra fjarnámi eða hafa möguleika á að flytja störfin sín aftur heim. Til þess að það sé möguleiki þarf aðstaða að vera til staðar og góð nettenging og við viljum svara því ákalli fljótt og vel.“

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

- Auglýsing -

Hvað hefur verið erfiðast í kosningabaráttunni og hvað er eftirminnilegast?

„Þegar maður er fjarri fjölskyldu og heimili löngum stundum en það gleymist fljótt þegar maður mætir heim og hleður batteríin með nokkrum knúsum og sögum af því sem gerðist hjá krökkunum í skólanum. Eftirminnilegast eru öll góðu samtölin og augnablikin með kjósendum til dæmis þegar við Gísli, meðframbjóðandi minn, bönkuðum til að afhenda stefnuskránna hjá einum, fengum kaffi og tókum blús.“

Hildur Sólveig er spurð hvað það gefi henni að gefa kost á sér og vilja vinna að áherslumálum sínum?

- Auglýsing -

„Að vera virkur þátttakandi í mótun samfélagsins er mjög gefandi. Þegar maður finnur að maður hefur bein áhrif á það hvernig þjónustu er verið að veita og þegar maður sér áþreifanlegan árangur, til dæmis að sitja fundi með samgönguráðherra í aðdraganda yfirtöku Herjólfs og finna að samstaða bæjarstjórnar og sú skilaboð sem þar voru send skiluðu því að reksturinn í dag er í okkar höndum og að finna að hörð varnarbaráttan fyrir sýslumannsembættinu skili árangri. Þá finnur maður að þetta er klárlega þess virði að verja tímanum í.“

Ég hef reynslu og þekkingu sem ég vil miðla áfram.

Hildur Sólveig segist gefa kost á sér þar sem stjórnmálin séu skemmtileg og gefandi. „Þar hef ég eignast marga af mínum betri vinum. Ég tel líka að á meðan ég hef metnað og eldmóð fyrir samfélaginu þá geti ég unnið Vestmannaeyjum gagn. Ég hef reynslu og þekkingu sem ég vil miðla áfram og ég hef óbilandi trú á möguleikum Vestmannaeyja.“

Hver eru svo áherslumálin?

„Ég vil tryggja sjúkraþyrlu á Suðurland með vetursetu í Vestmannaeyjum, ég vil bættar og reglulegar flugsamgöngur við Eyjar, ég vil leggja áherslu á aukið framboð fjarnámsleiða í háskólanámi, ég vil að til sé aðstaða fyrir fólk sem vill flytja störf sín með sér til Eyja og stunda hér fjarvinnu og ég vil efla stuðning við aðila með nýsköpunarhugmyndir.“

Hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn? „Því hann leggur meðal annars áherslu á lágar álögur, frelsi og einstaklingsframtakið.“

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Fimm mínútur í burtu

Hildur Sólveig er gift Sindra Ólafssyni, hagfræðingi og ritstjóra Eyjafrétta. „Saman eigum við þrjú börn, Aron, tólf ára, Söru Rós, átta ára, og Drífu, níu mánaða,“ segir Hildur Sólveig, sem fyrir utan að vera bæjarfulltrúi er sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari og fyrirlesari.

Hún segir að það að hafa eignast börnin þrjú hafi mótað hana mest. „Það er ekkert jafnauðmýkjandi en á sama tíma valdeflandi og að eignast barn. Maður lærir svo mikið um sjálfan sig og jafnvel foreldra sína þegar maður verður sjálfur foreldri. Ég veit að það er ekki sjálfgefið að fá að eignast börn og er ég afar þakklát að hafa fengið það tækifæri og sem einkabarn ákvað ég að ég myndi aldrei eignast færri en tvö gæti ég yfirhöfuð ráðið einhverju þar um.“

Þessa þætti er mikilvægt að rækta bæði í gleði og sorg.

Hvað er það erfiðasta sem hún hefur gengið í gegnum og hvernig hefur það mótað hana?

„Það eru nokkrir atburðir sem koma fyrst í hugann; fyrst kannski skilnaður foreldra minna sem auðvitað hefur áhrif á börn, þegar frumburðurinn veiktist af ungbarnaflogaveiki og við þurftum að dvelja á barnaspítalanum og svo fráfall æskuvinkonu. Allir þessir atburðir hafa sýnt manni hvað vinir, fjölskylda, trúin og vonin skiptir miklu máli og getur fleytt manni yfir erfiðustu tímana og þessa þætti er mikilvægt að rækta bæði í gleði og sorg.“

Vestmannaeyjar. Þar sem eldar loguðu úr jörðu og háhyrningurinn Keikó kom við á sínu lífssundi. Hvað er best við Vestmannaeyjar? Hver er uppáhaldsstaðurinn þar og hvers vegna?

„Samfélagið, samheldnin og íbúarnir. Framúrskarandi íþróttalíf, stórbrotin náttúra og að allt er bara í fimm mínútna fjarlægð. Hér verður einfaldlega meira úr tímanum. Stafsnesið er uppáhaldsstaðurinn minn, hann er nokkurs konar leyniparadís þar sem er yndislegt að vera á góðum sumardögum í góðra vina hópi.“

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -