Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Ingó Veðurguð í viðtali við Mannlíf: „Ég ætla ekki að láta eyðileggja mannorð mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það eru fáránlegir hlutir sagðir um mig á netinu. Þetta er sumt svo ljótt sem er skrifað um mig og glórulaust,“ segir tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, í kjölfarið á því að aðgerðahópurinn Öfgar birti um helgina nafnlausar frásagnir rúmlega 20 kvenna sem lýsa kynferðisofbeldi og áreitni af hálfu þekkts tónlistarmanns, Ingós. Þá hafa sögur og frásagnir tengdar honum tengst seinni #metoo-bylgjunni á Íslandi og þá sérstaklega á samfélagsmiðlunum Twitter og TikTok. 

 

Þjóðhátíðarnefnd sendi svo í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að Ingólfur muni hvorki koma fram á þjóðhátíð í ár né stýra brekkusöngnum eins og gert var ráð fyrir. Þjóðhátíðarnefnd fékk fyrir helgi undirskriftalista 130 íslenskra kvenna þar sem því er mótmælt að Ingólfur stýrði brekkusöngnum.

„Ég ætla ekki að láta eyðileggja mannorð mitt svona þannig að ég bregst við þessu eftir réttum leiðum,“ segir Ingólfur sem er búinn að fá sér lögfræðing og segist halda utan um allt sem skrifað sé um sig, bæði varðandi konurnar 20 og á kommentakerfum. „Og ég er ósáttur við ákvörðun Þjóðhátíðarnefndar,“ segir Ingólfur sem segist ekki vera í jafnvægi til að meta það núna hvort hann muni síðar ef til þess kæmi vera beðinn um að koma fram á Þjóðhátíð. 

„Ég er reiður yfir ýmsu; það er ekki gott að taka neinar ákvarðanir þannig.“

- Auglýsing -

Lögfræðingurinn mun vinna í tengslum við nafnlaus frásagnirnar og er Ingólfur spurður hvort hann muni gera eitthvað varðandi Þjóðhátíðarnefnd.

„Ég mun svara eftir réttum leiðum alls staðar þar sem mér finnst það vera rétt og þar sem mér finnst vera komið rangt fram. Ég vissi svo sem að það er hægt að segja allt mögulegt á kommentakerfum en það sem kom mér á óvart er hversu ljóta hluti er hægt að setja fram um fólk án þess að borin sé ábyrgð á því. Þetta er nafnalaust. Ég mun reyna að finna út hvaðan þetta kemur. Það eru bornar á mig ótrúlegar sakir. Ég hef hugmyndir um hvaðan þetta kemur en ég held að það sé ekki gott að fara sömu leið og viðkomandi og saka fólk um einhverja hluti þannig að ég mun fara rétta leið með þetta. Það mun koma í ljós hvaða konur þetta eru. Ég er viss um það.“

Ingólfur er spurður hvort hann hafi lesið allar lýsingar kvennanna.

- Auglýsing -

„Já“.

Kannast hann ekki við neinar þeirra?

„Nei.“

Mogginn teiknaði Ingó.

Ingólfur barðist við Bakkus áður fyrr og hefur sagt frá því tímabili í viðtölum. Í hlaðvarpsþættinum Milliveginum sagði hann í febrúar 2019: „Ég var aldrei gæinn sem fór úr að ofan uppi á borði, heldur meira þannig að það tók því aldrei fyrir mig að fara út að borða og fá mér eitt vínglas eða öl. Það þurftu alltaf að vera fjórtán bjórar, átta tópasskot, tveir sígarettupakkar og svo helst það sama daginn eftir.“ Og í Vísis-viðtali í júní sama ár sagði hann: „ „Þetta voru aldrei 2-3, svona 20-30 frekar, á hverju kvöldi og haldið áfram. Svo var maður bara orðinn bensínlaus í tónlistarbransanum. Hvort sem að áfengið hafi valdið því eða að ég hafi bara keyrt mig út og hafi notað brennivínið til að halda mér gangandi.“ Ingólfur segist hafa fengið aðstoð árið 2018 varðandi drykkjuna. 

Blaðamaður Mannlífs spyr Ingólf hvort hann muni alltaf það sem gerðist vegna þessarar miklu drykkju meðal annars eftir tónleika.

„Já, ég veit allavega hvar ég var. Já, ég veit hvað ég hef verið að gera. Það eru ekki svona hlutir eins og búið er að skrifa að ég hafi gert.“

Ingó segist ætla að berjast og verja mannorð sitt.

Þekktur tónlistarmaður. Myndarlegur. Hafa stelpur og konur verið á eftir honum?

„Það hefur alltaf verið eitthvað um það í gegnum árin.“

Hvernig hefur hann brugðist við þegar þær hafa sýnt honum áhuga?

„Það er bara allur gangur á því. Það er bara misjafnt.“

Ingólfur segir að það sem sé í gangi núna gegn sér muni ekki gera þeim gott sem verða fyrir ofbeldi.

„Þegar það er logið upp á einhvern og ógeðslegir hlutir sagt um einhvern þá held ég að það hjálpi ekki þegar einhverjir vilja svo segja raunverulegar sögur af ofbeldi.“

Auðvitað líður henni illa

Ingólfur er spurður út í andlega líðan sína síðustu daga.

„Ég hef aldrei verið þannig týpa sem er mikið að lýsa andlegri líðan. Ég reyni frekar að takast á við hlutina á réttan hátt ef þeir valda mér vanlíðan. Þetta nýjasta er eitthvað sem ég tekst á við með réttum aðferðum. Þetta hefur haft verst áhrif á þá sem standa mér næst. Það eina sem ég get gert er að halda áfram og gera mitt og svo verður þessu svarað eftir réttum leiðum. Ég bara skipulegg það sem ég þarf að gera og svara þessu eftir mínum leiðum. Þá líður mér betur.“

Ingólfur á kærustu í dag.

Auðvitað líður henni illa. Ég veit að henni líður illa en það þarf að fara rétta leið að þessu og svara þessu.“

Hann er spurður hvort hann sé rómantískur þegar hann er í sambandi.

„Örugglega bara annað slagið.“

Á hann uppáhalds rómantískt lag?

„Já, ég á nokkur þannig. Ég held mikið upp á Elton John. Mér finnst „Your Song“ alltaf vera fallegt lag.“

Your song eða Ég veit þú kemur. Þessi ágjöf í dag mun ekki stoppa Ingó veðurguð í að koma fram sem tónlistarmaður þótt hann vilji fyrst að storminn lægi að mestu áður en hann siglir aftur frá landi. 

Öfgar sendu frá sér tilkynningu vegna máls Ingós. Mynd / Ernir Eyjólfssson Birtíngur

„Ég mun halda áfram en ég þarf fyrst að takast á við þetta almennilega,“ segir Ingólfur en bætir þó við að þar sem hann hafi í gegnum árin spilað og sungið á flestum stöðum á landinu muni hann í framtíðinni vera með tónlistina sem hliðarverkefni með öðru en þess má geta að Ingólfur rekur ásamt fleirum fyrirtæki sem flytur inn ýmsar vörur, svo sem hreinsiefni, frá Skotlandi.

Í fyrra var það heimsfaraldurinn Covid-19 sem kom í veg fyrir að Ingólfur kæmi fram í brekkusöngnum og var hann þá í beinni útsendingu í flöt í Mosfellsbæ og söng þar fyrir landsmenn. Nú er það þetta mál. Hann segir að hann hafi ekki verið farinn að æfa lög fyrir brekkusönginn þar sem hann kann þessi lög svo vel en hins vegar hafi hann verið farinn að setja sama lagalista. Hvað ætlar hann að gera um verslunarmannahelgina í ár?

„Það er allt opið í því. Vinur minn er að hjálpa mér með allar bókanir á tónlistarverkefnum og það kemur í ljós hvar ég verð.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -