Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Að vera með ADHD er ekki góð skemmtun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sem barn var ég ofvirkur, rauðhærður með krullur, ógeðslega frekur og auðvitað með frekjuskarð.

Ofan í kaupið er ég Hafnfirðingur.

Ég var alltaf að rífa kjaft og alltaf tilbúinn í einhver læti; mögulega leiðindi.

Eftir að ég byrjaði að æfa fótbolta og handbolta hjá FH (auk þess að spila körfubolta alltaf þegar gafst tækifæri til, það var ekki mögulegt að æfa þrjár boltaíþróttir, skaraðist alltaf og svo var það dýrt) róaðist ég aðeins, enda fær maður mikla útrás fyrir allt og ekkert í boltaíþróttunum.

Samt var það svo að mjög margir sögðu við mig að ég hlyti að vera ofvirkur og með mikinn athyglisbrest. Lengi vel vissi ég ekkert hvað fólk var að tala um.

- Auglýsing -

Það átti eftir að breytast.

Það sem fylgir því að vera með ADHD – hjá mér – er órói, eirðarleysi og endalausar, hrikalega hraðar hugsanir sem afar erfitt er að ná utan um og vinna úr, og það getur gert mann afar tæpan í skapinu. Einnig var ég alltaf að flýta mér þótt ég hefði nægan tíma; ég rauk út úr prófum fyrstur og gat ekkert gert að því – tilfinningin var bara yfirþyrmandi – ég þurfti að komast út, en vissi líka yfirleitt að ég hafði staðið mig vel á prófinu, því einhverra hluta vegna reyndist mér nám fremur auðvelt; ég get munað allan fjandann með því að renna einu sinni yfir það.

- Auglýsing -

Ég vissi líka að ef ég myndi nýta allan próftímann yrðu einkunnirnar enn hærri – en ég gat það bara alls ekki.

Þá er vert að geta þess að hugur minn róast mjög mikið ef ég hlusta á tónlist í góðum græjum og allt í botni; þá dettur allt í dúnalogn í huga mínum og ég get einbeitt mér og unnið.

En það eru ekki allir að fíla tónlistina eða hávaðann.

Ég gæti talið upp ýmis dæmi um furðulega og algjörlega tilviljunarkennda hegðun mína – en ég ætla ekki að gera það af þeirri einu, einföldu ástæðu að mig langar alls ekki að rifja margt af því upp.

Eftir að hafa komist til sálfræðings og svo geðlæknis fékk ég ADHD-greiningu – þá var klukkan um það bil þrjú kortér í fimmtugt.

Sálfræðingurinn og geðlæknirinn létu mig taka próf tvisvar því þeir höfðu ekki oft séð svo háar tölur – ég gerði það og tölurnar lækkuðu ekkert.

Var þá settur á lyf.

Þau virka.

Einbeiting mín er miklu betri og meiri og ég er hættur að hafa marga bolta á lofti í einu; furðulegar skyndiákvarðanir mínir hafa að mestu vikið fyrir vel dönnuðum hugsunum og úrvinnsla þeirra er bara með hreinustu ágætum.

Ég vil samt ekki taka ADHD-lyfin á hverjum degi, þótt þau hjálpi mér mikið – geri alvöru gagn.

Ef ég tek lyfin verð ég einbeittari og afköstin eru mikil og góð. En ég fæ ekki margar hugmyndir og hætti pínulítið að vera ég sjálfur. Verð öðruvísi og minna geggjaður, en það er bara svo geggjað að geta hneggjað. Svona af og til í það minnsta.

Í mér eru í raun tveir heimar að takast á og um leið vinna saman. Markmiðið er ekki að skapa einhug heldur tvíhug; með og án taflnanna. Ég get sumsé valið á milli tveggja persónuleika og er bara þakklátur fyrir það.

Ég veit hvað lyfin gera og ég veit líka hvernig ég verð án þeirra. Ég er því tvíklofinn; sem er mun betra en að vita ekkert hvað er í gangi í hausnum á þér fyrir ljóshraðahugsunum, brjáluðum hávaða og ofboðslegu eirðarleysi þótt nóg sé að gerast í kringum mann.

Ég er þakklátur fyrir að vera tveir en ekki einn – því þessi eini þarna var að missa öll tök á tilverunni.

En nú hef ég tak og held fast.

Svona oftast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -