Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Ísland þorði ekki að taka afstöðu til málstaðs Palestínu: „Ísland endurtekur ranga ákvörðun!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fulltrúi Íslands sat hjá í kosningu nefndar Sameinuðu Þjóðanna varðandi málefni Palestínu. Var kosið um drög að ályktun Palestínumanna þar sem óskað var eftir ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins í Haag varðandi langvarandi hernám Ísraels í Palestínu. Voru drögin samþykkt en Ísland sat hjá.

Félagið Ísland Palestína bendir á þetta í nýlegri færslu á Facebook og má sjá á orðum þeirra að félagið sé afar ósátt við hjásetuna. Hér má lesa færsluna í heild:

„FULLTRÚI ÍSLANDS NEITAR AÐ STYÐJA MÁLSTAÐ PALESTÍNUMANNA!
Ísland endurtekur ranga ákvörðun!

Nefnd Sameinuðu þjóðanna sem m.a fjallar um afnám nýlendustefnunnar samþykkti þ. 13. nóvember s.l. drög að ályktun Palestínumanna þar sem óskað var eftir ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins í Haag varðandi langvarandi hernám Ísraels á landi Palestínu.
Í ályktuninni er Alþjóðadómstóllinn sérstaklega beðinn um álit á stöðu Jerúsalem sem er eitt af helstu og umdeildustu deilumálum Ísraelsmanna og Palestínumanna.
Nítíu og átta ríki samþykktu tillöguna, sautján greiddu atkvæði gegn og fimmtíu og tvö sátu hjá. Þar á meðal Ísland.
Afstaða Íslands, að sitja hjá þegar Palestínumenn leita til alþjóðasamfélagsins, er endurtekning á skammarlegu framlagi Íslands á vettvangi SÞ árið 1947 þegar Allsherjarþingið samþykkti tillögu um að skipta Palestínu.
Þá var lögð fram tillaga um að Allsherjarþing SÞ, áður en þingið legði fram tillögu að skiptingu landsins, skyldi leita álits Alþjóðadómstólsins á því hvort Sameinuðu þjóðirnar væru hæfar og hefðu vald til að mæla fyrir eða framfylgja aðgerð sem gengi gegn vilja meirihluta íbúanna í Palestínu. Þessi tillaga var felld og vó atkvæði Íslands, sem var á móti tillögunni, þungt þar sem það munaði aðeins tveimur atkvæðum.
Ísland og þau ríki sem felldu tillöguna sýndu Palestínumönnum og framtíð þeirra lítils-virðingu með því neita þeim um að fá úr því skorið hvort ríki SÞ hefðu yfirleitt leyfi til að afhenda hluta af landi þeirra til annarra.

Samþykktin þ. 13. nóvember 2022 mun ekki valda neinum vatnaskilum í baráttu Palestínumanna fyrir frelsi og mannréttindum. Bæði Allsherjarþing SÞ og Alþjóðadómstóllinn hafa áður lýst hernám Ísraels á Vesturbakkanum ólöglegt og beri að afnema. Þrátt fyrir samþykktir Sameinuðu þjóðanna hefur Ísrael haldið áfram ofbeldi og árásum gegn Palestínumönnum í skjóli Bandaríkjanna og ýmissa vestrænna ríkja.
En dropinn holar steininn segir máltækið og réttlætið sækir hægt og bítandi fram.
Árið 1945 bjuggu hundruð milljóna manna, nálægt þriðjungur allra íbúa heimsins á þeim tíma, undir oki nýlendustefnunnar. Aðgerðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og barátta undirokuðu þjóðanna á síðastliðnum áratugum til afnáms nýlendustefnu hafa stuðlað að sjálfstæði fjölmargra fyrrverandi nýlendna og landsvæða sem lutu stjórn annarra ríkja.
Nú endurtekur íslenska utanríkisþjónustan sig og greiðir ekki atkvæði með tilraunum Palestínumanna til að ná fram réttlæti og frelsi.
Í núverandi ríkisstjórn Íslands sitja tveir flokkar sem segja í ályktunum að: „Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana … Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málaflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum.“ (Framsókn)
Og ennfremur: „Mikilvægt að tryggja rétt palestínsku þjóðarinnar til vatns og annarra auðlinda, ferðafrelsis, búsetu, atvinnu og mannréttinda.“ (VG)
Þessi fögru orð eru einskis virði í ljósi þess hvernig fulltrúar landsins haga sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.“

Ísland er í hópi 52 þjóða sem ekki þorðu að taka afstöðu til málsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -