Mánudagur 20. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Löggan kom klukkutíma eftir að Auður fann „lífvana“ dreng á götunni:„Aðstæðurnar voru stjórnlausar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Auður Jónsdóttir rithöfundur kom að meðvitundarlausum dreng í hádeginu en hann hafði verið að dimmitera. Afar erfiðlega gekk að fá viðbragðsaðila á vettvang.

Auður Jónsdóttir Ljósmynd: Kazuma Takigawa

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir sagði frá sjokkerandi reynslu sinni frá því í hádeginu, á Facebook en hún kom að meðvitundarlausum dreng sem lá á götunni en hann hafði verið að dimmitera með félögum sínum.

„Lífvana drengur lá á götunni fyrir utan Subway upp úr hádegi. Erfitt að greina lífsmark og augun lukt aftur til hálfs. Inni voru félagar í búningum að dimmitera. Þegar var engin leið að ná til hans hringdi ég á sjúkrabíl en þá voru nokkrir drukknir unglingar komnir út.“ Á þessum orðum hefst frásögn Auðar.

Segist Auður hafa verið sagt að hún gæti ekki fengið sjúkrabíl þar sem lögreglan þyrfti fyrst að mæta á vettvang. Aðstæðurnar urðu brátt „stjórnlausar“:

„Mér var tjáð að ég gæti ekki fengið sjúkrabíl, fyrst þyrfti löggan að koma og meta aðstæður. Svo mér var beint að löggunni og bað um bíl. Smá lífsmark bærist með drengnum og vinirnir byrja að hnoðast með hann sem var stærri en þau flest og höfuð hans flengdist fram og aftur. Skíthrædd reyndi ég að fá þau til að fara ekki að dröslast með hann með flöktandi meðvitund en aðstæðurnar voru stjórnlausar. Þau flest mjög drukkin að reyna að bera hann áfram og næstum missa, þar til þau skelltu honum á bekk við Prikið. Þar ælir hann og ælir, milli þess sem hann missir meðvitund, krakkarnir rembast við að halda honum meðan sum reyna að reka mig í burtu og önnur að reyna að hjálpa.“

Auður segist hafa hringt aftur í neyðarlínuna en er gefið samband við lögregluna. Rithöfundurinn segist hafa verið orðin mjög hvöss þegar þarna var komið við sögu. Þrátt fyrir það þurfti Auður að bíða enn um stund eftir aðstoð.

- Auglýsing -

„Þarna er liðin löng stund og ég hringi aftur í 112 og fæ aftur samband lögguna. Þá vita þeir ekki hvenær bíllinn kemur. Ég var þarna orðin ansi hvöss og það ágerðist þegar ég var spurð af löggunni hvernig ætti að senda bíl ef enginn væri laus. Aftur er strákurinn eins og lífvana, en tveir vinir ná að halda honum með herkjum svo höfuð hans hendist ekki í vegg eða stéttina. Hann var of stór til að ég treysti mér til að leggja hann slysalaust á götuna með aðstoð drukkinna unglinga. Starfsfólk á Prikinu hafðu þá fyrir einhverri stundu sagst ætla að hringja á hjálp, sem þau hafa líklega gert en ekkert bólaði á löggunni. Þá hringdi ég mjög hvöss aftur í 112 og ítrekaðu beiðni um sjúkrabíl ef enginn löggubíll væri laus. Þá var sagt við mig að því miður væru svo margir að slasa sig í augnablikinu að það þyrfti að forgangsraða. Þau bara hefðu ekki bíla! Þarna var líklega farið að slaga upp undir klukkutíma síðan ég hringdi, vinir stráksins líka orðnir hissa á biðinni og strákurinn ennþá meðvitundarlaus en átak fyrir þá að halda honum svo hann myndi ekki skella fram fyrir sig.“

Að lokum kom þó lögreglan og Auður hélt för sinni áfram.

„Svo loks kom löggan. Man ekki hvort ég var búin að hringja einu sinni enn. Og þeir byrja að pota í strákinn sem rankar aðeins við sér og gubbar smá vatni og meira veit ég ekki því mín var ekki þörf lengur. En svona getur verið stórhættulegt og eiginlega ætti að vera sérstök gæsla í miðbænum þegar krakkar eru að dimmitera.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -