Þriðjudagur 15. október, 2024
6.7 C
Reykjavik

Minnist eineltisins og hatursins: „Þessi 29 ár hafa bæði verið góð og slæm þó aðallega góð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Í dag eru liðin 29 ár frá því að Anna Kristjánsdóttir fór í kynleiðréttingaaðgerð í Svíþjóð. Anna minnist þess í dagbókarfærslu dagsins.

Vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir rifjar upp eftirmála þess er hún lét leiðrétt kyn sitt í Stokkhólmi 24. apríl árið 1995 en næstu ár á eftir reyndust henni erfið.

„Dagur 1716 – Merkisdagur.

Ég gleymi aldrei þeim merkisdegi, 24. apríl 1995 er ég vaknaði eldsnemma að morgni á Karólínska sjúkrahúsinu í Solna (Stokkhólmi) og var síðan keyrð í sjúkrarúmi niður á skurðaðgerðarsvið þar sem ég fékk sprautu og sofnaði, kannski ekki að eilífu, en til nýs lífs.
Síðan þá eru liðin 29 ár. Þessi 29 ár hafa bæði verið góð og slæm þó aðallega góð. Fyrstu árin voru þó erfið.“ Þannig hefst dagbókarfærsla Önnu sem hún birti á Facebook í morgun.

Því næst útskýrir hún af hverju fyrstu árin voru erfið:

„Ég hafði gert mér vonir um að íslenska þjóðin væri orðin sæmilega upplýst um tilveru transfólks og því átti ég von á góðri móttöku er ég flytti til Íslands ári eftir aðgerðina mína, en það var öðru nær. Ef ekki hefði verið fyrir stuðning innsta vinahópsins hefði ég flust aftur til Svíþjóðar innan þriggja mánaða, en einhvernveginn tókst mér að þrauka af fyrstu mánuðina og síðan árin, kannski fyrst og fremst fyrir stuðning örfárra einstaklinga á borð við Jónínu Leósdóttur og síðan Emils Thorarensen þáverandi útgerðarstjóra hjá Alla ríka á Eskifirði og síðar Skúla Waldorffs starfsmannastjóra Hitaveitu Reykjavíkur er ég hóf þar störf haustið 1996 sem og fleiri aðila sem reyndust mér mjög vel.“

Segir hún að árin hafi svo liðið og áskoranir hafi mætt henni sem í dag yrðu flokkuð sem einelti og ofbeldi.

„Árin liðu og ég þurfti að standa bein gagnvart allskyns áskorunum sem í dag yrðu flokkuð sem einelti, fyrirlitning og hatur, jafnvel líkamlegt ofbeldi en um leið hitti ég fjölda fólks sem stóð með mér og studdi. Það breytti ekki því að um tíu ára skeið var ég nánast útmáluð sem „The only Trans in the Village“ svo vitnað sé í bresku gamanþættina Little Britain.“
En svo breyttist allt:

„Árið 2006, tíu árum eftir að ég flutti til Íslands, breyttist allt. Þá komu fleiri transmanneskjur fram í dagsljósið og þar með missti ég titilinn „The only Trans in the Village“ og við voru orðin hópur. Við höfðum vissulega verið það allan tímann, en þessi fyrstu tíu erfiðu ár var ég nánast ein um að þurfa að tjá mig opinberlega um málefni transfólks á Íslandi.“

Anna segir að þeir einstaklingar sem hafi sýnt henni hvað mesta hatrið séu fyrir löngu búin að sjá að sér.

„Fólkið sem sýndi mér fyrirlitningu fyrir nærri þremur áratugum síðan er löngu búið að sjá að sér og hefur langflest skipt um skoðun gagnvart mér og eru sum þeirra góðir vinir mínir í dag, Vissulega þurftum við að mætast á miðri leið í einhverjum tilfellum, en við náðum saman á endanum og erum vinir í dag.“

- Auglýsing -

Að lokum segist Anna vera löngu hætta að berjast og farin að njóta lífsins á sólarströnd.

„Í dag er ég löngu hætt að berjast fyrir tilveru okkar og nýt daganna á sólarströnd. Um leið horfi ég til baka og þakka fyrir alla þá daga sem ég var ekki lamin, þeir voru samt nokkrir. Nú hefur yngra fólkið tekið við hlutverkinu og ég er komin í hlutverk steinaldartranskonunnar, þeirrar sem var en er varla lengur nema sem barátta gamalla tíma, nánast eins og fornaldarmanneskja.
Það er stundum erfitt að vera fyrst til að koma fram opinberlega, en einhver þurfti að taka það að sér og því miður lenti það á mér. Sem betur fer er ég enn á lífi með bros á vör í sólinni suður undan ströndum Afríku.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -