Föstudagur 19. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Ögmundur um VG og Sjálfstæðisflokkinn: „Annar hvor flokkurinn svíkur alltaf sína kjósendur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ögmundur Jónasson segir í viðtali í hlaðvarpinu Ein pæling að það hafi alltaf verið sín skoðun að vinstri menn ættu aldrei að starfa með Sjálfstæðisflokknum. Hann segir að það hlyti alltaf að verða þannig, ef sjálfstæðismenn og vinstri græn færu saman í stjórn, að þá væri annar hvor flokkurinn að svíkja sína kjósendur.

Aðspurður hvort Vinstri Grænir eða Sjálfstæðisflokkurinn hafi svikið sína kjósendur segir hann að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið miklu meira af sínu fram í núverandi stjórnarsamstarfi. Áður hefðu vinstrimenn barist fyrir jöfnuði og að samfélagið sem væri skipulagt út frá þeirri grunnhugsun. Einnig var hægt að ganga út frá því að vinstrimenn væru andvígir hernaðarhyggju og hernaðarbandalögum. Nú væru menn aftur á móti að tala um að einkavæða vegina, hleypa fjárplógsmönnum í vasa almennings á þjóðveginum, hlaupa í fangið á NATO-foringjum og flytja hergögn á átakasvæði. Grunnprinsipin séu einfaldlega horfin. Hernaðarhyggjan, einkavæðingin og markaðshyggjan sé búin að taka yfir.

Í umhverfismálum segir Ögmundur Sjálfstæðisflokkinn einnig ráða ríkjum, með umhverfisráðherra sem hefur aldrei tekið þátt í þeim málaflokki að undanskyldu því að mögulega gefa öndunum brauð. Nú ætti hins vegar að virkja hverja sprænu og þetta væri gert í skjóli og með þátttöku Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

„Það er annað með þessi umhverfismál. Sko Sjálfstæðismenn, Umhverfisráðherra, hann hefur ekki sinnt umhverfismálum mikið meira en að gefa öndunum svona í gegnum tíðina.“

Ögmundur segist í raun hafa miklar áhyggjur af vinstrimönnum á Íslandi, sama um hvaða flokk væri að ræða. Það væri ekki hægt að mynda vinstristjórn á Alþingi vegna þess að þar sé enga vinstrimenn að finna. Með þessu áframhaldi væru stjórnmálin öll færð yfir á „hægra sullið“ eins og hann kallar það.

ÞH: „Í sambandi við vinstrið, útaf því þú ræðir það líka í bókinni þinni, þú hefur áhyggjur af vinstrinu með tilliti til þess að vera misviljug til þess að eiga samræður og umræður um málefni. Hvar finnst þér vinstrið standa í dag? Með  tilliti til samræðna, umræðna og vilja til að sjá skoðanahliðar annarra?“

ÖG: „Mér finnst það vera illa statt, mjög illa statt. Og ég segi nú í lokakaflanum í bókinni að það er ekki hægt að mynda vinstristjórn á Íslandi því að til þess þyrftu að vera vinstri menn á Alþingi, en ég kæmi ekki auga á þá.“
Ögmundur segir á öðrum stað í viðtalinu: „Það hefur verið þannig í pólitíkinni, að það eru svona ákveðinn grunnur sem skipting stjórnmálaflokka hefur byggt á…. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef alltaf verið því andvígur, alltaf, að við sem erum á þessum kannti störfum með Sjálfstæðisflokknum, ég hef alltaf verið andvígur því. Ekki vegna þess að mér sé illa við Sjálfstæðismenn, alls ekki. Ég vil respektera þeirra skoðanir eins og annarra. En ef við færum saman í stjórn þá svíkur annar hvor sína kjósendur.“
ÞH: „Telur þú að það hafi gerst í þessu stjórnarsambandi?“
ÖG: „Já, já, já heldur betur. Heldur betur. Og þá svíkur annar hvor. Og það sem var, þú gast gengið út frá því að vinstrimennirnir vildu jafnaðarsamfélag og vildu skipuleggja samfélagið á þeim grunni. Þú gast líka gengið út frá því að þeir væru andvígir hernaðarbandalagi, og hernarhyggju. Þú gast gengið út frá því að gagnaðilinn væri á öndverðu meiði í báðum málum. Og nú eru þessi grunnprinsip horfin af vinstrivængnum. Þau eru horfin. Þau eru ekki þarna. Það er verið að tala um að einkavæða vegina. Það er verið að tala um að hleypa fjármagnsmönnum ofan í vasana á okkur á þjóðveginum og allstaðar. Og það er farið að selja andrúmsloftið hérna. Og bíddu, hvað eiginlega endar þetta? Menn eru hlaupandi upp í hálsinn á NATO foringjum og eru harðdrægustu NATO-sinnar sem finnast, flytja hergögn á stríðsvettvang. Þetta er farið.“
 
ÞH: „Hvort hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins eða Vinstri grænna verið sviknir meira í þessu stjórnarsambandi?“
ÖG: „Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé að ná sínu fram miklu meira heldur en vinstri menn. Það held ég að sé ekki nokkur spurning. Það er annað með þessi umhverfismál. Sko Sjálfstæðismenn, Umhverfisráðherra, hann hefur ekki sinnt umhverfismálum mikið meira en að gefa öndunum svona í gegnum tíðina.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -